16.04.1968
Efri deild: 89. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1221 í B-deild Alþingistíðinda. (1074)

157. mál, Félagsstofnun stúdenta við Háskóla Íslands

Frsm. (Auður Auðuns):

Herra forseti. Það er, að ég held, ekki ástæða til þess að fara mjög mörgum orðum um þetta frv. Bæði er það, að í aths. við frv. er í fskj., sem prentað er með þeim og frv. fylgir, skýrt frá aðdraganda þess, að frv. er fram komið, og efni þess rakið, og einnig var það við 1. umr. málsins hér í þessari hv. þd., að menntmrh. fylgdi því úr hlaði með ítarlegri ræðu.

Frv. er fram borið að ósk stúdentaráðs Háskóla Íslands og háskólaráðs. Meginhugmyndin, sem býr að baki frv., er sú að leggja drög að allsherjarstofnun, sem beiti sér fyrir átaki til eflingar fyrirtækja í þágu stúdenta, og sé sú stofnun ábyrg fyrir byggingarframkvæmdum og rekstri fyrirtækja. Fram til þessa hafa þessi fyrirtæki verið dreifð og flest lotið sérstjórnum, og hefur þannig verið óvissa ríkjandi um það, hvaða aðili ætti að beita sér fyrir framgangi þessara hagsmunamála stúdenta, en með því skipulagi, sem frv. gerir ráð fyrir, er forusta og ábyrgð í þessum efnum lögð í hendur einnar stofnunar, sem tvímælalaust er til bóta.

Þá er einnig í frv. ákvæði um tekjustofna, og skal ég ekki rekja efni þess frekar.

Í Nd. tók frv. nokkrum breyt. Við 3. gr. þess kom fram brtt. frá menntmn. Nd., og var sú brtt. samþ. Er það varðandi kosningu í stjórn stofnunarinnar, og má raunar segja, að sú breyting sé eingöngu til samræmingar því, sem fyrir þeim vakti, sem óskuðu eftir flutningi þessa frv., þ.e. stúdentaráðs og háskólaráðs, og kemur það reyndar fram í fskj., sem frv. fylgir.

Menntmn. þessarar hv. þd. hefur athugað frv. og leggur til, að það verði samþ. með áorðinni breyt. í Nd.