19.02.1968
Efri deild: 59. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1227 í B-deild Alþingistíðinda. (1081)

139. mál, íbúðarhúsnæði í eigu ríkisins

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Í grg. þessa frv. er það tekið fram, hver sé meginstefnan, sem fylgt hafi verið við samningu frv., og mér sýnast meginatriðin vera þau, er hér greinir: Að ríkið eigi ekki íbúðarhúsnæði til afnota fyrir starfsmenn, nema slíkt sé óhjákvæmilegt vegna staðhátta eða annarra brýnna ástæðna. Að lagaskylda ríkisins til að byggja íbúðarhúsnæði fyrir ákveðnar starfsstéttir í þjónustu ríkisins verði afnumin. Að hver ráðh. hafi ákvörðunarvald um, hvaða íbúðarhúsnæði skuli byggt fyrir starfsfólk, sem undir hans valdsvið heyrir, og að ákvæði í gildandi lögum, sem ákvarða húsaleigu starfsmanna ríkisins, verði afnumin jafnframt því, sem settar verði reglur, sem miða að því, að húsaleigan miðist við raunverulegt verðmæti eigna, eðlilegan arð af þeim, staðsetningu og notagildi fyrir leigutaka.

Segja má, að með þessari stefnu, sem mörkuð er í frv., sé stefnt að því að koma á nokkrum sparnaði í ríkisrekstrinum. Út af fyrir sig er ég ekki andvígur því, að tilraun sé gerð í þá átt. En ég get ekki látið hjá líða að minna á það í sambandi við þetta mál, að það er nú og hefur verið um skeið eitt af meiri háttar vandamálum landsbyggðarinnar að fá embættismenn til þjónustu og búsetu úti á landi í ýmsum greinum. Má þar nefna læknaþjónustu, þjónustu presta, svo og dýralækna á ýmsum stöðum. Þetta vandamál tekur ekki einungis til sveitanna eða hinna smærri þorpa, heldur landsbyggðarinnar yfirleitt. Ég get þessu til sönnunar aðeins drepið á það, að í fjölmennasta byggðarlagi á Austurlandi, Neskaupstað, sem er byggðarlag með hálft annað þús. íbúa og einn af mestu framleiðslustöðum í þjóðfélaginu, og þar sem skýrslur sýna, að tekjur hafa orðið einna hæstar hér á landi að undanförnu, þar er nú svo ástatt um embættisþjónustu, að þangað vantar bæði bæjarfógeta og prest og raunar fleiri opinbera starfsmenn, en aldraðir menn, sem hætt hafa embættisstörfum fyrir aldurs sakir, hafa til bráðabirgða verið fengnir til þess að inna þessa þjónustu af hendi.

Það er því alveg augljóst, að þó að stefnt sé að sparnaði með þessu frv., má ekki ganga svo langt í því efni, að löggjafarvaldið leggi stein í götu þess, að embætti úti á landsbyggðinni verði eftirsótt eigi síður en verið hefur. Þvert á móti þarf að bæta aðstöðu embættismannanna þar og örva eftirspurn eftir embættisþjónustu úti á landsbyggðinni. Þá er á það að líta, hvort ákvæði þessa frv., ef að lögum verða hafi nokkur áhrif í þessu efni. Mér virðist, að þegar fella á niður lagaskyldu um, að ríkið byggi embættisbústaði, en leggja það einhliða á vald ráðh. hverju sinni, sé aðstaða embættismannanna nokkru óvissari og nokkru veikari heldur en verið hefur, þar sem lagaskylda er í gildi um að sjá þeim fyrir embættisbústöðum. Og mér sýnist einnig, að ákvæðin um húsaleigu miði að því að gera búsetu embættismannanna nokkru kostnaðarsamari heldur en verið hefur með þeim ákvæðum um húsaleigu, sem fylgt hefur verið. Nú mun það vera ætlun þeirra, sem að þessu frv. standa, að í reynd taki það fyrst og fremst til þéttbýlisins hér við Faxaflóa, og má því segja, að í framkvæmdinni muni þetta ekki hafa þau áhrif úti á landsbyggðinni, sem ég hef nú drepið á. Í grg. frv. er sagt, að það þurfi að meta, hvar þeir staðir séu, þar sem eðlilegur markaður hefur skapazt fyrir íbúðarhúsnæði til kaups eða leigu, og er þá átt við, að slíkur markaður sé nú fyrir hendi á þéttbýlissvæði Reykjavíkur. Síðan segir: „Sömuleiðis verður að ætla, að slíkur markaður sé fyrir hendi á Akureyri og í nágrenni.“

Þetta orðalag grg. bendir til þess, að höfundar frv. séu sjálfir í nokkrum vafa um það, hvernig þetta verði framkvæmt. Hér er ekki sagt ótvírætt, hver staða Akureyrar sé eða eigi að verða í þessu efni, heldur komizt svo að orði, að sömuleiðis verði að ætla, að slíkur markaður sé fyrir hendi á Akureyri og í nágrenni. Ég held, að ástæða sé til, að í löggjöf sem þessari verði kveðið nokkru skýrara á um þetta efni heldur en lagt er til í frv., eins og það liggur fyrir. Ég vil því leyfa mér að varpa fram þeirri hugmynd nú við 1. umr. málsins til athugunar fyrir þá n., sem tekur frv. til íhugunar og meðferðar, og jafnframt til athugunar fyrir þann hæstv. ráðh., sem stendur að flutningi málsins, hvort ekki væri betur farið að orða sjálf l. þannig, að þau kveði á um, hvaða staðir það séu, þar sem lagaskyldan verður ekki fyrir hendi í framkvæmd að reisa embættisbústaði, hvaða staðir það eru, þar sem eðlilegur markaður hefur skapazt fyrir íbúðarhúsnæði til kaups og leigu, og í framhaldi á því, að á þeim svæðum, sem l. sjálf tiltaka að þessu leyti verði lagaskyldan um byggingu embættisbústaða felld niður, en lagaskyldunni beinlínis haldið í löggjöfinni úti á landsbyggðinni, þar sem viðurkennt er, að ekki muni í framkvæmd verða auðið að komast fram hjá því, að ríkið eigi embættisbústaði. Ef frv. yrði orðað á þennan hátt, tel ég, að löggjöfin yrði skýrari heldur en frvgr. eru nú, og þá teldi ég nokkra tryggingu í því fólgna fyrir embættismennina, sem hygðu til búsetu og starfa úti á landsbyggðinni, að l. sjálf hefðu að geyma ákvæði um rétt þeirra og skyldur í þessu efni, en þar væri ekki allt í höndum ráðh. þess, sem gegnir embætti hverju sinni.

Í 12. gr. frv. er gert ráð fyrir að fella úr gildi nokkur lagaákvæði um embættisbústaði. Það eru m.a. l. frá 1947 um skipulag og hýsingu prestssetra.

Ég leyfi mér að benda á, að í þeim l. er kafli um byggingu peningshúsa eða útihúsa á prestssetrum. Sá kafli mun þá eiga að falla niður eins og l. í heild. Nú fer það að sönnu minnkandi, að prestar stundi búskap, en þó eru enn þá nokkur dæmi um það, og finnst mér, að þessu atriði þyrfti að gefa gaum í þeirri n., sem um málið fjallar.

Hér er einnig talað um vissa tölul. eða vissa gr. í l. frá 1955 um greiðslu kostnaðar við skóla, sem reknir eru sameiginlega af ríki og sveitarfélögum, en ég vil benda á, að þau lög, sem hér er vitnað til, voru felld úr gildi á síðasta þingi í sambandi við skólakostnaðarlögin, sem þá voru sett, og ákvæði hinna nýju skólakostnaðarlaga eru nokkuð á annan veg heldur en í þeim greinum, sem hér er vitnað til og nokkuð á annan veg heldur en hæstv. ráðh. lýsti.