19.03.1968
Efri deild: 72. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1237 í B-deild Alþingistíðinda. (1093)

139. mál, íbúðarhúsnæði í eigu ríkisins

Pétur Benediktsson:

Herra forseti. Mér virðist gæta ofurlítils misskilnings hjá hv. 2. þm. Austf. um þetta mál, því að honum hefur sézt yfir ákvæðin til bráðabirgða, sem í frv. eru, í aths. sínum. Þau gera það að verkum, að sá er sæll, sem hreppir, og sá, sem kominn er í húsnæði, situr þar, þangað til einhver atvik verða til að leiða hann í annað húsnæði þessa heims eða annars. Það er engin tilhneiging hjá flm. þessarar brtt. að fá hans herradómi biskupnum yfir Íslandi neitt lakara né óvirðulegra húsnæði heldur en hann nú hefur. Mér skilst, að í hans tilfelli geti verið um tvær leiðir að velja úr Bergstaðastrætinu, eins og fyrir séra Jóhann forðum, sem sagði: Annaðhvort ég fer til Guðs ellegar ég fer til Kaupmannahafnar. Og ég vil nú heldur fara til Kaupmannahafnar, því að ég veit, að ég kemst til Guðs á eftir. Í tilfellinu með herra biskupinn vitum við, að það var hans æðsta ósk fyrir nokkrum árum, að biskupssetrið yrði flutt að Skálholti, og ég skal ætíð vera tilbúinn til að greiða atkv. með því, að löggjöfin um íbúðarhúsnæði í eigu ríkisins verði ekki látin ná til embættisbústaðar biskups í Skálholti. Einmitt með tilliti til þess, að slíku mætti fram koma síðar, óskuðum við flm. að taka það greinilega fram, að í 10. gr. væri átt við embættissetu forseta Íslands á Bessastöðum. Sá kvittur hefur gosið upp, að einhverjir væru að tala um að flytja forsetann eða hluta af hans embættisbústað, hluta af hans verutíma, til Reykjavíkur, en ég mótmæli algerlega því, að sá virðuleiki sé tekinn af landsbyggðinni að eiga bústað forsetans með fullu og öllu. Stend ég á rétti dreifbýlisins í því máli og skora á hv. d. að fylgjá mér í því. Eins væri vonandi, að samþykkt till. að því er til biskupsbústaðarins tekur, gæti orðið til að fá annan virðulegan embættismann út á landsbyggðina, og þeim mun fyrr, sem það má takast, þeim mun betra vonast ég til, að það verði fyrir kristnihald í landinu.