21.03.1968
Neðri deild: 79. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1239 í B-deild Alþingistíðinda. (1097)

139. mál, íbúðarhúsnæði í eigu ríkisins

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Á liðnum tímum hafa verið sett ýmiss konar sérlög, sem gera ráð fyrir, að ríkið byggi embættisbústaði yfir ýmsa hópa embættismanna. Lög þessi hafa verið sett á ýmsum tímum, og í mörgum þeirra er sáralítið samræmi. Lagaskylda hvílir á ríkinu nú innan þeirra marka að vísu, sem fé er veitt til í fjárl. — að byggja embættisbústaði yfir dómara, presta og dýralækna. Enn fremur hafa verið byggðir embættisbústaðir fyrir ýmsa aðra, þó að það sé ekki beint ákveðið í l., svo sem í sambandi við skógrækt og landgræðslu og vitavarðabústaði, og loks er í skólakóstnaðarl. gert ráð fyrir ríkisframlögum til byggingar skólastjóraíbúða og kennarabústaða, og er það langstærsti hópur bústaða og íbúða, sem ríkið á í dag. Fyrir nokkru var hafizt handa um það að kanna þetta mál og safna um það skýrslum. Áður hafa ekki verið nein gögn á einum stað um þessa bústaði, með hvaða kjörum þeir eru látnir í té, og þess vegna tók það nokkurn tíma að safna þessum upplýsingum öllum saman, en á daginn kom, að það var hið mesta nauðsynjamál vegna þess ósamræmis, sem ég gat um að væri, bæði varðandi það, hverjir hafa bústaði og ekki þó síður hitt, hvaða leigumálar gilda um þetta húsnæði ríkisins. Það kom í ljós, að ríkið mun eiga um 500 íbúðir, annaðhvort eitt sér eða í sameign með sveitarfélögum, þannig að hér er um mikinn fjölda íbúða að ræða og mikið fjármagn, sem í þessu er bundið. Það kom jafnframt í ljós, að varðandi leiguákvarðanir um húsnæði þetta var fylgt mjög mismunandi reglum. Sums staðar eru í l. beinlínis ákvæði um það, með hvaða hætti á að meta leigu. Það er sérstaklega varðandi prestssetur, sem leigan er ákaflega lág, og það er í samræmi við bein ákvæði í l. Annars staðar er að vísu gert ráð fyrir því, að þessi leiga verði metin, en í reynd hefur þetta orðið með mjög mismunandi hætti, eins og verða vill, þegar það er enginn einn aðili, sem fylgist með því, hvernig þetta er metið, heldur hafa bústaðir þessir verið í höndum hinna ýmsu rn., sem bústaðirnir heyra undir eða embættin. Það þótti þess vegna mikil ástæða til þess að taka þessi mál til heildarathugunar, og var fulltrúum þeirra rn., sem embættisbústaðir þessir heyra undir, falið að kanna málið til hlítar og semja heildarlöggjöf um embættisbústaði, þar sem mörkuð væri ákveðin stefna, er fylgja skyldi.

Það er auðvitað hv. þdm. öllum ljóst, að það hefur orðið reginbreyting í embættiskerfi ríkisins á undanförnum áratugum, sem hefur valdið því mikla ósamræmi, sem ég gat hér um. Það eru komnir til nýir embættismannahópar, sem í ýmsum greinum má segja, að sé ekkert óeðlilegra að hafi embættisbústaði heldur en þeir embættismenn, sem gildandi lög nú gera ráð fyrir að njóti þessara bústaða. Af þessum sökum þótti nauðsynlegt að marka ákveðna stefnu, og sú stefna er mörkuð í því frv., sem hér er lagt fram, og grundvallarstefnan er sem sagt sú, að ríkið hætti að byggja embættisbústaði. En með hliðsjón af því, að aðstaða embættismannanna er mjög misjöfn, þótti rétt að veita hér undanþágur, sem eru með tvennum hætti. Annars vegar er sú undanþága, sem er minni háttar að segja má, að það er gert ráð fyrir, að byggðir verði áfram embættisbústaðir eða veittar íbúðir, þar sem starfið krefst þess, að menn búi á staðnum, og það getur auðvitað átt við bæði í þéttbýli og strjálbýli, svo sem gæzlustörf og annað sambærilegt, sem gerir kröfu til, að mennirnir séu á sínum vinnustað, en að öðru leytinu er undanþágan í því fólgin, að gert er ráð fyrir, að áfram verði byggðir embættisbústaðir á þeim stöðum á landinu, þar sem íbúðarhúsnæði getur ekki selzt á eðlilegu markaðsverði.

Það er vitanlegt, að í mjög mörgum stöðum á landinu eða í strjálbýlinu er það miklum erfiðleikum bundið fyrir embættismann að koma húsi sínu í verð með eðlilegum hætti, þegar hann fer úr starfi, og það þykir því ástæða til þess að halda áfram byggingu embættisbústaða, þar sem svo háttar. Hins vegar er gert ráð fyrir því, að öll lög, sem skylda ríkið til byggingar embættisbústaða verði felld úr gildi og það verði metið eftir þessu meginsjónarmiði, hvar telja má, að húsnæði seljist með eðlilegu markaðsverði, hvar embættisbústaði skuli byggja, og verður það þá á valdi viðkomandi ráðh. að gera till. um það, síðan að sjálfsögðu á valdi Alþ., hvort það vill veita fé til slíks bústaðar, og gert er ráð fyrir því, að ekki sé heimilt að byggja embættisbústaði, nema því aðeins, að fé sé til þeirra veitt í fjárl.

Það er gert ráð fyrir því, að það húsnæði, sem ríkið á nú og er á stöðum, þar sem framvegis á ekki að leggja starfsmönnum til embættisbústaði, verði selt, þegar þeir menn, sem nú gegna því starfi, fara úr þessu húsnæði. Það þykir hins vegar sanngjarnt, að þessir embættismenn hafi forkaupsrétt á húsnæði þessu á eðlilegu verði, en sett er ákveðin regla um það, hvernig húsnæðið skuli selt, til að tryggja það, að þessar eignir ríkisins verði seldar á markaðsverði hverju sinni. Það er gert ráð fyrir því, að settar verði nú almennar reglur um húsaleigu í embættisbústöðum þeim, sem ríkið á framvegis og þess gætt, að samræmi verði varðandi þessa leigu, en þó tekið tillit til þess, hvar embættisbústaðirnir eru, þannig að leigan verði miðuð við það, sem telja má, að sé eðlileg leiga á viðkomandi stað. Hins vegar þykir ekki verða hjá því komizt að fylgja áfram þeim ákvæðum, sem nú gilda um leigu embættisbústaða varðandi þá embættismenn, sem nú eru í störfum og hafa bústað til umráða. Þetta þykir sanngjarnt miðað við þær almennu reglur, sem gilda í þeim efnum. Ef hlunnindum er breytt, þá þykir sanngjarnt, að þeir menn, sem hafa notið hlunnindanna og hafa tekið við störfum beinlínis með hliðsjón af, að í l. væru þá ákvæði um þessi hlunnindi, fái notið þeirra, meðan þeir eru í starfinu, en síðan verður breytt til og hinum almennu reglum um leiguákvæði fylgt, þegar nýir menn koma til starfa og vita þá gerla, að hverju þeir ganga í þessu efni.

Það er gert ráð fyrir því, að embættisbústaðir verði áfram á vegum þeirra rn., sem þeir heyra undir, en hins vegar verði það falið fjmrn. að hafa yfirumsjón með embættisbústöðunum og setja ákveðnar reglur um stærð, gerð og búnað íbúðarhúsnæðis. Eins og hv. þdm. er kunnugt hefur verið mikið ósamræmi í þessu efni og stundum þótt óþarfa munaður og húsnæði byggt óeðlilega stórt. Það er auðvitað sjálfsagt að reyna eftir föngum að standardisera þetta húsnæði, byggja ákveðnar gerðir embættishúsnæðis, en ekki haga byggingunni eftir því, hvaða fjölskyldustærð sá embættismaður, sem af tilviljun gegnir starfinu, þegar bústaðurinn er reistur, hefur. Með þessum hætti ætti að vera hægt að koma við meiri hagkvæmni og gera húsnæði þetta ódýrara.

Það er gert ráð fyrir því í l. með hliðsjón af þeirri grundvallarstefnu, sem í þeim felst, að hér eftir verði ekki byggt eða keypt embættishúsnæði eða íbúð til umráða fyrir starfsmenn ríkisins á þeim stöðum, þar sem ætlazt er til, að þeirri reglu verði framvegis fylgt, að slíkt húsnæði verði ekki veitt embættismönnunum til umráða. Því er ekki slegið föstu í l., til hvaða svæða þetta nái, en fyrst og fremst er ljóst, að það nær til Reykjavíkur og þéttbýlisins hér í grennd og ekki ósennilegt, að það næði einnig til Akureyrarsvæðisins. Það verður kannað að sjálfsögðu með hliðsjón af því, hvað telja má um markaðsverð íbúða á þessum svæðum, og verður reglugerðin um þetta efni við það miðuð.

Frv. þetta hefur hlotið afgreiðslu í hv. Ed., og voru menn í rauninni í meginefnum sammála um frv., sammála að öllu leyti, að segja má, um þá meginstefnu, sem í frv. felst. Eini ágreiningurinn, sem fram kom, var sá, að sumir hv. dm. töldu, að áfram ætti að halda lagaskyldu til þess að ríkið legði embættismönnum sínum til húsnæði á þeim stöðum, þar sem teljast strjálbýlissvæði, en með hliðsjón af því, sem ég áðan sagði, að það verður að teljast á margan hátt ósamræmi ráðandi varðandi það, hvaða embættismenn hafa embættisbústaði, og einnig með hliðsjón af því, að það hvílir auðvitað alltaf sá þungi á þeim rn., sem embættin heyra undir, að reyna að sjá fyrir embættismönnum á viðkomandi stöðum. Ef á annað borð eru erfiðleikar á því, þá er vitanlega engin hætta á því, að ekki verði lögð áherzla á að reyna að tryggja þeim mönnum embættishúsnæði, en það verður að teljast óeðlilegt að halda gildandi l. um þetta efni, þar sem slegið er föstu, að tilteknum embættismönnum sé tryggt húsnæði, því að vel má hugsa sér að það geti verið einhverjir aðrir embættismenn, sem væri einnig brýn nauðsyn fyrir hin strjálbýlli héruð að fá til búsetu og sem nauðsynlegt væri að veita húsnæði, þannig að með þessu frv., eins og það er úr garði gert, er um almennar heimildir að ræða, án þess að það sé bundið við tiltekna hópa embættismanna.

Það varð niðurstaðan í hv. Ed., að hún féllist á það að afgreiða frv. óbreytt að öðru leyti en því, að sú smábreyting var gerð, þar sem talað er um, að frv. nái hvorki til embættisbústaðar forseta Íslands né biskupsbústaðar í Reykjavík eða bústaða sendiherra Íslands erlendis, þá var því breytt varðandi forsetabústaðinn á þann veg, að það skyldi ekki ná til embættissetu forseta Íslands á Bessastöðum og var tilefni þeirra brtt. talið vera það, að fram höfðu komið raddir um það að reisa hús yfir forsetann hér í Reykjavík. En það hefur vitanlega aldrei verið skoðun ríkisstj., sem stendur að þessu frv., að það yrði farið að ráðast í slíka byggingu, og þess vegna taldi ég sjálfsagt að fallast á þá breytingu við frv., úr því sú hugmynd virtist hafa einhvers staðar skotið upp kolli, en að öðru leyti var frv. samþ. óbreytt.

Ég vildi leyfa mér að vænta þess, að einnig hér í hv. Nd. yrði frv. vel tekið og hv. d. geti fallizt á að afgreiða það nú, áður en þingi lýkur. Ég vil svo leyfa mér, herra forseti, að leggja til, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. fjhn.