16.04.1968
Neðri deild: 98. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1249 í B-deild Alþingistíðinda. (1107)

139. mál, íbúðarhúsnæði í eigu ríkisins

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Hv. fjhn. hefur klofnað 3 þessu máli, þannig að fimm nm. mæla með samþykkt frv., einn nm. vill afgreiða það með rökstuddri dagskrá, en sjöundi nm. virðist ekki hafa tekið þátt í atkvgr. við afgreiðslu málsins í n.

Ég ætla ekki að verða margorður um þetta mál, en ég vil byrja á því að lýsa fylgi mínu við þá brtt., sem fyrir liggur á þskj. 421, sem er um það, að ríkið leggi biskupinum yfir Íslandi til húsnæði í Skálholti, en ekki í Reykjavík eins og stendur í frv. nú. Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar, og ég veit, að það eru fleiri í hv. d., að biskupinn yfir Íslandi ætti að sitja í Skálholti. Í Skálholti var fyrst settur biskupsstóll hér á landi, og í þann tíð var Skálholt gefið til biskupsseturs með þeim ummælum, að þar skyldi vera biskupsstóll meðan kristni héldist í landinu. Fátækt þjóðarinnar og umkomuleysi varð þess valdandi í lok 18. aldar, að stóllinn var fluttur, og um skeið komst Skálholt sjálft úr eigu hins opinbera. En ég held, að það ætti að vera metnaðarmál fyrir okkur nútímamenn að gera ráðstafanir til þess, að staðið verði við það, sem ákveðið var í öndverðu um, að Skálholt sé biskupssetur. Það stendur nú þannig á, að í seinni tíð hefur allmiklu fé verið varið til þess að prýða Skálholt og koma þar upp mannvirkjum. Þar hefur verið byggð vegleg kirkja. Þar hefur verið komið upp veglegu íbúðarhúsi; og ég skildi það svo, þegar það hús var reist, að þar væri fyrirhugað biskupssetur, en úr því hefur ekki orðið. Ég er, eins og ég sagði, fylgjandi því, að þessi brtt. verði samþ., og ég sé ekki,að það sé neinn smíðagalli á frv., þó að svo yrði gert.

Með því að samþykkja hana er Alþ. í raun og veru að lýsa yfir því, hvernig þessu skuli hagað um biskupssetrið.

Út af frv. sjálfu, sem hér liggur fyrir á þskj. 394, vildi ég segja það í stuttu máli, að ég er því sammála, að það eigi að vera meginregla, að ríkið leggi ekki starfsmönnum sínum til íbúðarhúsnæði, nema því aðeins, að þeir gegni störfum í þeim landshlutum, þar sem sérstakir staðhættir gera slíkt nauðsynlegt. Og mundi það þá væntanlega teljast til sérstaklegra staðhátta, ef þannig horfir við, að erfitt er að fá embættismann á stað, nema því aðeins, að honum sé lögð til íbúð.

Ég er þessu sammála, m.a. vegna þess, að mér sýnist, að ef ríkið leggur fram fé til þess að byggja yfir starfsmenn sína á þeim stöðum, þar sem slíks ætti ekki að þurfa með, þá geti það orðið til þess, að minnafé verði fáanlegt úr ríkissjóði til þess að byggja yfir aðra starfsmenn, þar sem þess er þörf. Og þá er náttúrlega heldur ekki óeðlilegt, að ríkið losi sig smátt og smátt við þau hús, sem byggð hafa verið þar, sem ekki er þörf á að sjá starfsmönnum fyrir bústöðum. Hins vegar verð ég að segja það, að ég hefði kosið ákvæði frv. sum nokkuð á annan veg. Og þá hefði ég m.a talið eðlilegt, að í sjálfum l. væri eitthvað af þeim ákvæðum eða kannske flest þau ákvæði, sem virðist vera fyrirhugað samkv. 3. gr., að sett verði með reglugerð. Ég tel það tæplega rétt að fela ráðherra það mikið vald til að ákveða staði fyrir embættisbústaði, sem þarna er gert í frv., og mér hefur sýnzt, að ákvarðanir ráðh. um byggingu embættisbústaða muni nú hin síðari ár hafa í sumum tilfellum verið nokkuð vafasamar. En í 3. gr. er gert ráð fyrir því, að hlutaðeigandi ráðh. ákveði í samráði við fjmrh., hvar embættisbústaður skuli byggður. Það eru eiginlega þessir hlutaðeigandi ráðherrar, sem hafa ráðin, skilst mér, en þó í samráði við fjmrh.

Það er út af þessu, m.a. í sambandi við 9. gr., sem hér var rætt um áðan, sem ég er dálítið óánægður með frv., þrátt fyrir það, að mér virðist megintilgangur þess í samræmi við það, sem ég tel rétt. Ég vil benda á það, að þetta mál er nokkuð seint fram komið á þingi og að það hefur ekki verið lengi til umr. í n., a.m.k. ekki í þessari hv. d. Og ég er ekki frá því, að það væri nú heppilegust meðferð á þessu máli, að því væri frestað að þessu sinni og tekið upp í byrjun næsta þings. Ég gæti bezt trúað því, að það væri þá hægt að ná samkomulagi um þetta í þinginu. Mér sýnist undirtektir manna vera á þá leið, að það væri hægt að ná samkomulagi um frv. með einhverjum breytingum, og ég held, að ef einhver vill greiða atkvæði með þessari rökst. dagskrá, sem hér liggur fyrir, þá verði það a.m.k. hjá ýmsum þannig, að þeir séu í sjálfu sér ekki á móti þessum aðaltilgangi frv., heldur telji, að frv. sé ekki að öðru leyti rétt sniðið, þannig að það þyrfti umbótar við. Og um það þyrfti að reyna að ná samkomulagi hér í þ. Mér finnst ekki ólíklegt, að það samkomulag geti tekizt, ef tími væri til.