29.03.1968
Neðri deild: 85. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1257 í B-deild Alþingistíðinda. (1118)

176. mál, vernd barna og ungmenna

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Þetta frv. er flutt að ósk borgarstjórans í Reykjavík. Efni þess er formlegs eðlis einvörðungu. En svo er mál með vexti, að á s.l. ári gerði borgarstjórn Reykjavíkur samþykkt um nokkra breytingu á skipan félagsmála hér í höfuðstaðnum. Komið var á fót svonefndu félagsmálaráði, en í reglum þeim, sem borgarstjórn setti fyrir félagsmálaráð, er gert ráð fyrir því, að á sviði félagsmála Reykjavíkurborgar starfi tvær lögskipaðar nefndir, barnaverndarnefnd og áfengisvarnanefnd. En félagsmálaráð er yfirstjórnandi þessara tveggja nefnda.

Í barnaverndarlögum er einungis rætt um barnaverndarnefnd, en ekki gert ráð fyrir félagsmálaráði í Reykjavíkurborg. Það er eðlilegt, að höfuðborgin ráði því algerlega sjálf, hvern hátt hún hefur á skipulagi félagsmála innan sinna vébanda, og ég er enn fremur þeirrar skoðunar, að sú skipulagsbreyting, sem hér hefur átt sér stað í borginni, sé til bóta, sé skynsamleg. En þá er nauðsynlegt, að í barnaverndarlögum sé heimilt að fela þessu nýstofnaða félagsmálaráði þau störf eða hluta þeirra starfa, sem barnaverndarnefnd eru ætluð samkv. l. Það er m.ö.o. efni þessa frv., að heimilað sé að gera félagsmálaráð ásamt barnaverndarnefnd að aðila að barnaverndarmálum í höfuðstaðnum, og tel ég sjálfsagt að verða við óskum Reykjavíkurborgar í þessu efni. Ég vona, að hv. þdm. séu sammála um, að þessi smávægilega breyting sé eðlileg og greiði götu þessa einfalda frv. í gegnum hv. d., og sömu óskum mun ég beina til hv. Ed. á síðara stigi málsins.

Að svo mæltu leyfi ég mér, herra forseti, að leggja til, að málinu verði vísað til 2. umr. að lokinni þessari umr. og hv. menntmn.