02.11.1967
Efri deild: 11. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1259 í B-deild Alþingistíðinda. (1134)

18. mál, veiting ríkisborgararéttar

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Í fjarveru hæstv. dómsmrh. leyfi ég mér að skýra frá því, að þetta frv. er undirbúið í dómsmrn. með venjulegum hætti. Er hér lagt til, að þeir fái ríkisborgararétt, sem um það hafa sótt og fullnægja þeim skilyrðum, sem þingvenja hefur kveðið á um. Þess ber að geta, að það munu vera töluvert fleiri en hér eru taldir, sem sótt hafa um réttinn. Mörg þau erindi verða send n., sem málið fær til meðferðar, vegna þess að fullar upplýsingar lágu ekki fyrir, þegar frv. var samið, en talið er, að nú þegar hafi nokkrir bætzt í hópinn, sem bersýnilega fullnægi settum skilyrðum, og einmitt um þessar mundir eru að berast að umsagnir frá embættismönnum, sem um þessi mál fjalla, sem sýna, að skilyrðunum er fullnægt. Þau erindi verða sem sagt lögð fyrir þingnefnd, svo að með þessu frv. er engan veginn sagt, að hér sé tæmandi upptalning þeirra, sem hinum venjubundnu skilyrðum fylgja.

Ég leyfi mér svo að leggja til, að frv. verði afgr. til 2. umr. og hv. allshn.