21.03.1968
Efri deild: 73. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1267 í B-deild Alþingistíðinda. (1157)

14. mál, atvinnuréttindi skipstjórnarmanna á íslenskum skipum

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Ég skal ekki blanda mér inn í umræðurnar, sem hafa átt sér stað um þetta mál. Þess hefur réttilega verið getið, að málið hefur átt sér alllangan aðdraganda, og var þó talið, að vandlega hefði verið til þess stofnað, þegar það var upphaflega lagt fyrir Alþingi og haft hefði verið áður nauðsynlegt samráð við þá aðila, sem máli skipta og frv. varðar, alls konar samtök, sem hér eiga hlut að máli. Eigi að síður hefur það komið upp hér sem ávallt áður, þegar um réttindamál er að ræða, að mál reynast viðkvæm og oft erfið úrlausnar. Ég tel þó hiklaust, að frv., eins og það var upphaflega lagt fyrir, hafi verið það vandlega undirbúið, að vel hefði mátt styðja það eins og það var.

Frsm. sjútvn., hv. 4. þm. Reykn., hefur hins vegar skýrt frá aths., sem fram hafa komið við málið nú undir meðferð þess í n. Ég skal ekki fara út í einstök atriði þess, en það, sem olli því, að ég kvaddi mér nú hljóðs, var ein aths. hans eða áminning til rn. um að fara varlega með undanþáguveitingar frá gildandi lögum. Engum væri kærara en mér, að til slíkra undanþáguveitinga þyrfti ekki að koma, svo hvimleiðar sem þær eru og geta oft orkað tvímælis. En frammi fyrir þeim vanda, sem hv. 2. þm. Vesturl. minntist hér á áðan, hefur rn. alloft staðið. Synjað hefur verið um af hálfu Farmanna- og fiskimannasambandsins að veita tilteknar undanþágur, þó að ekki væri hægt að útvega mann með tilskildum prófum. Þá er með slíkri synjun verið að koma í veg fyrir skráningu á hlutaðeigandi bát eða skip og stöðva þar með útgerð skipsins. Þetta kemur ósjaldan fyrir, einmitt í litlum þorpum úti á landi, sem ekki eru eftirsótt aðsetur skipstjórnarmanna, og þorpin eiga því þeim mun meira undir því, að þessi fáu atvinnutæki, sem þar eru, séu rekin.

Það hefur komið fyrir, a.m.k. tvisvar sinnum, að mig minnir, þann tíma, sem ég hef setið í þessum stól, að um það hefur verið að ræða að stöðva tvo eða þrjá báta, einu bátana, sem á umræddum stöðum voru. Slíka ábyrgð hef ég ekki treyst mér til að taka á mig og hef, þrátt fyrir andmæli farmannasambandsins, á stundum orðið að grípa til þess ráðs að nota mitt ráðherravald til að veita slíka undanþágu, beinlínis til að koma í veg fyrir atvinnulegt hrun á þessum stöðum, sem byggja alla sína afkomu á því, að umræddir bátar séu gerðir út.

Ég endurtek það, að það væri engum kærara en mér að losna við slíkar undanþágubeiðnir og þar með að fella slíka úrskurði. Sjálfum er mér vel kunnugt um, hve mikill vandi þeim er á höndum, sem með skipstjórn fara á mjög erfiðum stöðum og eiga oft við erfiðar landtökur að etja margsinnis á hverri vertíð, og ég veit, hvaða ábyrgð því starfi fylgir. En hitt hygg ég að mundi þó sæta meira ámæli, ef atvinnurekstur, og sér í lagi þessara minni byggðarlaga, sem menn vilja síður dveljast á, yrði lagður í rúst um hábjargræðistímann. Af þessum ástæðum hafa umræddar undanþágur verið veittar og ég get fullvissað hv. þd. um það, að það mun verða farið eins varlega í þessum veitingum og kostur er, en þegar menn standa frammi fyrir þeim vanda, sem ég hef hér drepið á, finnst mér, að valið geti ekki orðið nema á einn veg.