26.03.1968
Neðri deild: 83. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1270 í B-deild Alþingistíðinda. (1164)

14. mál, atvinnuréttindi skipstjórnarmanna á íslenskum skipum

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér um ræðir, var lagt fyrir síðasta hv. Alþ., en náði þá ekki fram að ganga. Frv. er, eins og fram kemur í aths. við það, samið af n., sem samgmrh. skipaði hinn 5. ágúst 1965, en í þeirri n. áttu sæti Kristinn Gunnarsson fulltrúi í rn., sem er formaður n., Gunnar Í. Hafsteinsson fulltrúi, tilnefndur af Landssambandi ísl. útvegsmanna, Guðmundur H. Oddsson, tilnefndur af Farmannasambandinu, Hjörtur Magnússon fulltrúi og Jónas Sigurðsson, skólastjóri Stýrimannaskólans.

Þetta frv. var flutt, eins og ég áðan sagði, á síðasta hv. Alþ., þá af n. og aftur nú af n. að ósk minni og er það gert m.a. til samræmís við þær breytingar, sem gerðar voru á ákvæðum um réttindi vélstjóra í frv. því, sem afgreitt var hér á síðasta þingi. Það fer vart á milli mála, að nauðsyn ber til þess, að endurskoðuð séu lagaákvæði um atvinnuréttindi skipstjórnarmanna, þegar tillit er til þess tekið, að þau lög, sem í gildi eru, eru frá árinu 1946, en vart greinir okkur á um það, að stórkostlegar breytingar hafi á orðið í íslenzkum fiskiskipastól og sjávarútvegsmálum almennt á því tímabili, sem síðan er liðið. Þessu frv. er ætlað að ganga nokkuð verulega til móts við þær breyttu aðstæður, sem fyrir hendi eru nú. Um málið varð ekki fullkomin eining í hv. Ed. Hún gerði á því nokkrar breytingar, svo sem fram kemur á þskj. þar um, en ég mun ekki fara út í í einstökum atriðum. Ég legg áherzlu á það, að frv. fái afgreiðslu á þessu þingi, ef þess er nokkur kostur, því að ýmsar mikilvægar ráðstafanir er nauðsynlegt að gera til þess að geta mætt þeim nýju aðstæðum, sem fyrir hendi eru í íslenzkum sjávarútvegsmálum, þeim aðstæðum, sem eru gjörbreyttar frá því, sem var þegar hin fyrrgreindu lög voru sett.

Þó að málið sé flutt af n., er það flutt að ósk rn. Þess vegna kvaddi ég mér hljóðs hér um það nú, en legg til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. sjútvn.