15.02.1968
Efri deild: 56. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1275 í B-deild Alþingistíðinda. (1176)

127. mál, meðferð einkamála í héraði

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Frv. það, sem hér er lagt fyrir hv. Ed., er samið að tilhlutan n., sem ég skipaði í okt. 1966 til þess að fjalla um dómaskipun og meðferð dómsmála í landinu. En frá aðdraganda að þeirri nefndarskipun er nánar greint í skýrslu þeirri um athugun og meðferð dómsmála og dómaskipun, er ég lagði fyrir hv. Alþingi í árslok 1966.

Svo sem heiti frv. ber með sér, er hér um að ræða viðauka við lög um meðferð einkamála í héraði nr. 85 frá 1936, en með frv. er ráðgert að taka upp nýja og mun fljótvirkari meðferð á hinum einfaldari einkamálum, þ.e. á þeim málum, þar sem fjallað er um heimtur fjárkrafna skv. skýrum, einhliða og óskilyrtum skuldaviðurkenningum, og þar sem oftast er um að ræða vangetu skuldara til greiðslu. Svo sem á er bent í grg. frv., eru þessi mál yfirgnæfandi meiri hluti einkamála, sem fjallað er um fyrir héraðsdómi. Varðar því að sjálfsögðu miklu, að unnt verði að spara verulega vinnu og tíma, bæði fyrir dómstólinn og skuldareiganda, með einfaldari meðferð þeirra, án þess að hætt sé nokkrum réttmætum hagsmunum skuldara. Hin nýja meðferð er í því fólgin, að stefna í málum, sem ætlað er að sæta þeirri meðferð, þarf að vera í sérstöku, skýru formi, sem inniheldur áskorun til skuldara um að greiða skuldakröfuna, en dómari getur síðan, ef lögvörnum er ekki haldið uppi, svo sem langtíðast er í málum þessum, lokið málinu með áritun á stefnuna um aðfararhæfi. Hefur stefnan með þessu hlotið sama gildi og venjulegur dómur. Hefur þá með þessari meðferð sparast talsverð vélritunarvinna og umfangsmeiri vinna dómara. Jafnframt munar verulega um þann tíma, sem skuldareigandi vinnur með hraðari gangi málsins, en málum þessum er þannig háttað, að skuldheimta hans er jafnan engum vafa bundin og því réttmætt, að hann fái, svo skjótt sem við verður komið, aðstöðu til að tryggja sér greiðslu hjá skuldara, eftir því, sem efni standa til.

Svo sem nánar er greint frá í grg. frv., er fyrirmyndar að þeirri málsmeðferð, sem þar er gert ráð fyrir, leitað í austurrískum og þýzkum rétti. Ég gat þess í upphafi, að leitað væri ráða til að flýta meðferð dómsmála. Það kom fram í dómsmálaskýrslunni, sem áður var getið, að mjög mikil fjölgun dómsmála hefði orðið á síðari árum. Hafa dómstólunum þá og verið fengnir talsvert auknir starfskraftar á undangengnum áratugum. Það verður hins vegar að horfast í augu við þá staðreynd, að sú aukning starfskrafta stendur engan veginn í hlutfalli við aukinn fjölda mála þeirra, sem dómstólarnir fá til meðferðar.

Hv. alþm. er eflaust jafnljóst og mér, hve brýnt það er að forðast svo sem verða má þá útþenslu í ríkiskerfinu, sem aukin umsvif á ýmsum sviðum óneitanlega kalla eftir. Því nauðsynlegra er að leita annarra úrræða, sem við verður komið, til að halda uppi forsvaranlegri og jafnvel bættri þjónustu.

Að því er lítillega vikið í aths. við þetta frv., að með lagabreytingu, sem samþ. var á Alþingi vorið 1966, var lögleidd einfaldari meðferð ýmissa hinna einfaldari opinberra mála. Haustið 1966 var byrjað að hagnýta þá meðferð við sakadómaraembættið í Reykjavík, og vil ég geta þess til fróðleiks, að á 1/2 ári, sem síðan er liðið, hefur réttum 300 málum vegna ölvunar við akstur verið lokið með dómssátt, en án umræddrar lagabreytingar hefðu öll þau mál orðið að ganga til venjulegrar dómsmeðferðar. Hafa með þessu sparazt óhemjumiklar skriftir og vélritun, svo og mjög veruleg og tímafrek vinna við dómasamninga. Er ljóst, að sakadómur Reykjavíkur hefði með engu móti getað afkastað þeirri auknu vinnu án talsverðrar aukningar starfskrafta. Bendingar um möguleika á breytingum þessum komu fram við skýrslusöfnun til fyrrnefndrar dómsmálaskýrslu og var það efni þegar tekið til meðferðar með umræddum árangri. Ég nefni hér sérstaklega sakadómaraembættið í Reykjavík, en sama máli gegnir um önnur dómaraembætti, er um opinber mál fjalla, þessi nýhreytni hefur einnig orðið þeim alldrjúg til vinnusparnaðar. Er jafnframt kostnaður og umsvif dómþola talsvert minni, án þess að hagsmunum. hans sé hætt.

Ég hef einnig undir höndum skýrslur frá lögreglustjóranum í Reykjavík um afgreiðslu sektargerðamála við það embætti eftir breytingar, sem 1966 voru gerðar á l. um meðferð opinberra mála, að því er lögreglustjóraembættið snertir, og lögreglustjóraembættin yfirleitt, en með þessum breytingum var lögreglustjórum veitt heimild til þess að afgreiða kærur, er berast um brot gegn umferðarlögum, áfengislögum, lögum um tilkynningar aðsetursskipta eða lögreglusamþykkt, enda telji hann viðurlög við brotinu eigi fara fram úr kr. 5000. Má þá bréflega gefa sökunaut kost á að ljúka slíkum málum innan ákveðins tíma með greiðslu hæfilegrar sektar, enda játist sökunautur undir þessa ákvörðun lögreglustjóra með undirskrift sinni. Synji sökunautur þessum málalokum eða sinni þeim ekki, vísar lögreglustjóri málinu til dómara. Saksóknari ríkisins lætur lögreglustjórum í té skrá yfir brot þau, sem framangreind sektarheimild nær til, og veitir leiðbeiningar um sektarupphæð fyrir hverja tegund brota. Síðan gefur lögreglustjórinn í Reykjavík nokkurt yfirlit yfir, hvaða áhrif þetta hafi haft á hans embætti um þessa tegund mála, og skal ég leyfa mér að vitna til þess, með leyfi hæstv. forseta:

„Í nóv. 1966 gaf dóms- og kirkjumrn. út reglugerð um sektargerðir lögreglustjóra, þar sem settar eru nánari reglur um meðferð þeirra mála. Í febrúarmánuði 1967 var byrjað hér við embættið að afgreiða kærur fyrir nokkrar tegundir umferðarlagabrota með sektargerð lögreglustjóra. Í árslok höfðu verið gefnar út samt. 3969 sektargerðir með þeim árangri, að 2312 mál fengu fullnaðarafgreiðslu, án þess að dómsmeðferð þyrfti til að koma. 136 sektargerðir voru felldar niður, er framburður hinna kærðu og nánari athugun lögreglunnar leiddi í ljós, að refsigrundvöllur var eigi fyrir hendi. Af hinum 3969 sektargerðum voru 1512 sendar ásamt viðeigandi lögregluskýrslum til sakadóms Reykjavíkur. Ástæðan var langoftast sú, að sökunautur hafði ekki sinnt boði um að ljúka málinu með greiðslu sektar innan tiltekins frests. Í nokkrum tilfellum höfðu sökunautar frammi mótbárur, sem talið var rétt að dómari fjallaði um.

Greinilegt er af þeirri reynslu, sem fengizt hefur á árinu 1967, að hin nýja málsmeðferð, sem rakin er hér að framan, mun geta létt mjög á dómstólum, ef rétt er á haldið. Gerir hún kleift að útkljá einföld umferðarmál á skjótan hátt, en þó með fullu réttaröryggi.

Brot á umferðarlögunum, sem afgreidd voru árið 1967 með sektargerð lögreglustjóra, voru af ýmsum tegundum. Oftast var um að ræða brot á ákvæðum um ökuhraða, en þar næst brot á ákvæðum um búnað ökutækja, vanrækslu á því að endurnýja ökuskírteini eða hafa það meðferðis við akstur, vanrækslu á því að færa ökutæki í skoðun, brot á reglum um öxulþunga o.s.frv. Öll voru brotin framin af aðilum búsettum í lögsagnarumdæmi Reykjavíkur. Tekið skal fram, að fjöldamörg minni háttar umferðarlagabrot, stöðu- og stöðvunarbrot, biðskyldubrot o.fl., voru afgreidd með sektargerð lögreglumanna, en um það eru eldri ákvæði í lögum.“

Þetta segir lögreglustjóri um reynsluna af þessari lagabreytingu, sem gerð var 1966, að því er hans embætti áhrærir, og það staðfestir ótvírætt, að þessi breyting laganna hefur þar komið að góðu haldi, og vil ég vitna til þess umfram það, sem ég taldi áðan, að þetta hefði komið mjög í gagnið og orðið til þess að flýta málsmeðferð hjá sakadómaraembættinu í Reykjavík.

Fjölgun einkamálanna, sem dómstólarnir fá til meðferðar, hefur einnig orðið mjög stórkostleg á tiltölulega fáum árum, og á það má benda til upplýsinga í þessu efni, að í dómsmálaskýrslunni, sem fjallar um árin 1961-1965, er þess getið, að þingfest mál við bæjarþing Reykjavíkur voru 2946 árið 1961, en fjölgaði jafnt og þétt í 4551 1965 og urðu 1966 5068, og árið 1967 munu þau hafa orðið 6019 talsins. Málafjöldinn hefur þannig meira en tvöfaldazt á 6 árum, en eins og ég gat um í upphafi, eru mál þau, er fallið geta undir meðferð þá, er þetta lagafrv. gerir ráð fyrir, yfirgnæfandi meiri hluti þess fjölda. Má af því sjá, hve miklu varðar, að geta komið við vinnubrögðum, sem eru mun einfaldari og mun fljótvirkari.

Ég leyfi mér að öðru leyti að vísa til grg. frv. um tæknileg atriði, sem fram koma í einstökum greinum og skýrð eru í aths. Er hér um réttarfarstæknileg atriði að ræða, sem æskilegt er að verði frekar könnuð í n., en í hv. allshn., sem ég vil óska að málinu verði vísað til að umr. lokinni, eru meðal annarra ágætismanna tveir reyndir lögfræðingar. Að lokum vil ég svo, herra forseti, leyfa mér að leggja til, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr.