27.11.1967
Neðri deild: 28. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 188 í B-deild Alþingistíðinda. (118)

65. mál, verðlagsuppbót á laun og vísitala framfærslukostnaðar

Frsm. meiri hl. (Guðlaugur Gíslason):

Herra forseti. Fjhn. hefur haft frv. til athugunar, en ekki getað orðið sammála um afgreiðslu þess. Leggur meiri hl. n. til, að það verði samþ. óbreytt, en minni hl. hefur skilað sérstöku áliti. Jónas Haralz hagfræðingur, forstjóri Efnahagsstofnunarinnar, mætti á fundi hjá n. og svaraði fsp. einstakra nm. og veitti þær upplýsingar, sem óskað var eftir varðandi málið og innan hans verkahrings eru. M.a. var óskað upplýsinga um útreikning fyrirhugaðra verðlagsuppbóta 1. des. n.k., og taldi hann þær vera, eins og fram kemur í grg. með frv., til að mæta auknum útgjöldum launþega til kaupa á vörum og þjónustu á því tímabili, sem þar um ræðir, eða hækkun samkv. nýja vísitölugrundvellinum vegna kaupa á vörum og þjónustu, en óbreytt að því er varðar fjölskyldubætur, nefskatta og húsnæðiskostnað.

Þá kom og fram fsp. varðandi vísitölu hinna svokölluðu húsnæðismálastjórnarlána veðdeildar Landsbankans. Forstöðumaður Efnahagsstofnunarinnar taldi sig ekki réttan aðila að svara því, en lét það í ljós, að sér sýndist, að sú kaupgjaldsvísitala, sem í gildi væri, t.d. 1. des., mundi einnig eiga við þar.

Samkv. 1. gr. frv. er gert ráð fyrir því, að laun og aðrar vísitölubundnar greiðslur að meðtalinni verðlagsuppbót hækki frá 1. des. n.k. í hlutfalli við þá hækkun, sem verður á útgjöldum launþega til kaupa á vörum og þjónustu, eins og fyrr er sagt, á tímabilinu frá 1. ágúst til 1. nóv. s.l. og mun það nema um 31/2%, og er þá miðað við hinn nýja grundvöll kaupgreiðsluvísitölunnar. Að öðru leyti er efni frv. um nýjan vísitölugrundvöll framfærslukostnaðar, sem taki gildi í byrjun næsta árs, og að núgildandi lög um verðtryggingu launa verði numin úr gildi og sömuleiðis þau lagaákvæði, sem í gildi eru um útreikning núgildandi vísitölu framfærslukostnaðar. Með þeirri gengisbreytingu, sem þegar hefur komið til framkvæmda, hafa óneitanlega skapazt ný viðhorf. Gerir frv. þetta ráð fyrir, að verulega sé gengið til móts við það sjónarmið launþegasamtakanna, að verðlagsuppbót skuli greiðast 1. des. vegna þeirra verðhækkana, sem átt hafa sér stað á undanförnum mánuðum, og gerir frv. ráð fyrir, að verðlagsuppbót þessi gildi þar til annað kann að verða ákveðið með samningum stéttarfélaga og samtaka vinnuveitenda.

Ég sé ekki ástæðu til þess að hafa þessa framsögu lengri, en eins og ég sagði í upphafi mælir meiri hl. fjhn. með, að frv. verði samþ. óbreytt.