16.04.1968
Neðri deild: 98. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1281 í B-deild Alþingistíðinda. (1185)

127. mál, meðferð einkamála í héraði

Frsm. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Frv. þetta er komið frá Ed. Gerði hún ekki á því neinar breytingar, heldur samþykkti það eins og það var lagt fyrir. Eftir að frv. var vísað til allshn. Nd., óskaði stjórn Lögmannafélags Íslands eftir viðræðu við n. um frv. og hafði allmargar aths. fram að færa um það. Sendi hún nefndinni síðan aths. sínar skriflega og tók n. þær til athugunar. N. ræddi einnig við ráðuneytisstjóra dómsmrn., Baldur Möller, sem er formaður þeirrar n., sem dómsmrh. skipaði haustið 1966 til að fjalla um endurskoðun á dómaskipan í landinu, og enn fremur ræddi n. við yfirborgardómara í Reykjavík, Hákon Guðmundsson.

N. varð að lokum sammála um að leggja til, að gerðar yrðu nokkrar breytingar á frv. Þær breytingar eru prentaðar á þskj. 575 og er veigamesta brtt. við 1. gr., að í stað orðsins „skulu“ í upphafi greinarinnar komi „mega“, en með því er lögmönnum veitt valfrelsi um hvora leiðina þeir nota, samkvæmt þessu frv., ef að l. verður, eða hina eldri leið. Er það gert til þess að koma til móts við óskir Lögmannafélagsins, og formaður n., ráðuneytisstjóri dómsmrn. og yfirborgardómari hafa lagt á það mjög mikla áherzlu, að Alþ. afgreiddi frv. og vilja fyrir sitt leyti fallast á þessar breytingar, ef það yrði til þess, að frv. næði fram að ganga. Þessari lagabreytingu er ætlað að stuðla að hraðari afgreiðslu nokkurra einfaldari dómsmála, sem þannig er farið, að ætla megi að stafi eingöngu af getuleysi skuldara til að greiða. Eru mál,sem falla undir ákvæði þessa lagafrv., yfirgnæfandi meiri hluti þeirra mála, sem nú er stefnt fyrir bæjarþing Reykjavíkur. Fjórir fulltrúar yfirborgardómara eru nú eingöngu bundnir við afgreiðslu þessara mála og mikið vélritunarstarf fer í að vélrita endurrit af dómum í málum þessum.

Það kemur fram í bréfi til dómsmrh. frá yfirborgardómara í Reykjavík, að á árinu 1967 voru þingfest 6019 mál á móti 5068 málum árið á undan. Varð aukningin því tæplega 20%, og segir borgardómari, að ætla megi, að aukningin muni halda áfram svipað og verið hefur á undanförnum árum. Þrátt fyrir þessa breytingu, sem n. leggur til, að í stað orðsins skulu í 1. gr. frv. komi „mega“ ætlar yfirborgardómari, að vel flestir lögmenn muni nota sér hina greiðari leið samkvæmt þessu frv., þó að þeir hafi valfrelsi í sambandi við þennan málarekstur.

Aðrar brtt. eru nánast til að gera ákvæði skýrari heldur en þau eru í frv. og eru settar fram samkvæmt ábendingu Lögmannafélagsins. Ég held, að ég megi segja, að með því að gera þessar brtt. á frv., hafi náðst samkomulag við Lögmannafélagið og sömuleiðis samkomulag við formann n., ráðuneytisstjórann í dómsmrn. og yfirborgardómarann í Reykjavík um frv. Frá þeirra sjónarmiði séð telja þeir auðvitað þessa breytingu vera til hins verra, en telja, að ef það mætti verða til þess, að frv. fengi greiðari afgreiðslu og yrði að lögum á þessu þingi, þá vildu þeir það heldur en að frv. næði ekki fram að ganga.