27.11.1967
Neðri deild: 28. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 189 í B-deild Alþingistíðinda. (119)

65. mál, verðlagsuppbót á laun og vísitala framfærslukostnaðar

Frsm. minni hl. (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Eins og þegar hefur hér fram komið, varð fjhn. ekki sammála um afgreiðslu málsins. Við erum þrír, sem skipum minni hl. fjhn., ég og tveir fulltrúar Framsfl. í fjhn., þeir hv. 5. þm. Austf. Vilhjálmur Hjálmarsson og 1. þm. Norðurl. v. Jón Kjartansson.

Við erum andvígir frv. og viljum fella það, ef ekki fást gerðar á því mjög verulegar breytingar. Það hefur ekki unnizt tími til að prenta nál. okkar eða útbýta því hér, en það hefur verið vélritað og ég vil því leyfa mér, með leyfi hæstv. forseta, að lesa þetta nál., sem er á þessa leið:

„Með frv. þessu gerir ríkisstj. tvær aðaltill. til breyt. á gildandi l. um verðtryggingu launa. Í fyrsta lagi leggur hún til, að verðlagsuppbótum á laun og aðrar vísitölubundnar greiðslur verði breytt þannig 1. des. n.k., að þær miðist við nýja vísitölugrundvöllinn, þó með nokkrum breytingum. Skv. því munu verðlagsuppbætur á laun hækka um 3.39% 1. des. n.k. Hefði eldri vísitölugrundvöllurinn verið áfram í gildi, hefði verðlagsuppbótin orðið rúmlega 6%.

Í öðru lagi leggur ríkisstj. til skv. þessu frv., að eftir 1. des. verði hætt að reikna út kaupgjaldsvísitölu og fellt verði úr 1. ákvæði um vísitölubætur umfram það, sem ákveðið verður 1. des. Frv. gerir þó ráð fyrir, að stéttarfélög og vinnuveitendur geti gert samninga um breytingar á kaupi og einnig um vísitöluuppbætur á kaupgreiðslur.

Frv. miðar því í þá átt, að tekin verði upp sömu vinnubrögð af hálfu ríkisstj. varðandi kaupgjaldsmál og hún tók upp í upphafi viðreisnarinnar árið 1960, þegar hún beitti sér fyrir, að bannað var með l., að launagreiðslur væru bundnar við verðlagsvísitölu.

Afleiðingar þeirrar stefnu urðu fyrst þær, að kaupmáttur launa fór síminnkandi, en síðar upphófust miklar vinnudeilur og framleiðslustöðvanir.

Á miðju ári 1964 var svo komið, að verðlag í landinu hafði hækkað um 87% frá febr. 1960 og viðurkenndi ríkisstj. þá loksins, að kauplækkunarstefna hennar og bannið við vísutöluuppbótum á laun fengi ekki staðizt.

Það má því furðulegt teljast, að ríkisstj. skuli enn á ný reyna að taka upp sömu stefnu í kaupgjaldsmálum og í upphafi viðreisnar, svo hörmulega sem sú stefna reyndist í framkvæmd.

Minni hl. fjhn. er algerlega andvígur þessu frv. og vill fella það, fáist ekki á því mjög verulegar breytingar.

Minni hl. flytur nokkrar brtt. við frv. á sérstöku þskj. Meginefni þeirra er það, að upp verði tekin í frv. ákvæðin um vísitölubætur á laun og lífeyrisgreiðslur úr l. um verðtryggingu launa frá 1964.“

Brtt. þær, sem við flytjum síðan við frv. á sérstöku þskj., eru þessar, sem ég nú skal gera grein fyrir; en það hefur auðvitað ekki unnizt tími til að prenta þessar brtt. og útbýta þeim, og verður því að nægja, að þær séu hér lesnar upp.

Við leggjum til, að tvær breyt. verði gerðar á 1. gr. frv.

Í fyrsta lagi, að síðasti málsl. 1. gr. falli niður, en þar stendur nú: „Gildir þetta, þar til annað hefur verið ákveðið með samningum stéttarfélaga og samtaka vinnuveitenda.“

Í öðru lagi leggjum við til, að ný mgr. bætist við þessa 1. gr., svo hljóðandi: „Frá 1. des. 1967 skulu lögboðnar bætur lífeyristrygginga skv. l. nr. 40 30. apríl 1963, um almannatryggingar, og síðari breytingum á þeim l. hækka um 7% umfram bætur skv. 1. mgr. Hækkun fjölskyldubóta skal þó bundin við bætur vegna barna umfram eitt í hverri fjölskyldu.“

Ég vil gera nokkra grein fyrir þessari till. nú um leið. Eins og hv. alþm. hafa áttað sig á, er gert ráð fyrir í 1. gr. frv., að launamenn fái verðlagsuppbætur á laun sín 1. des. n.k., sem talið er að muni nema 3.39%. En það er greinilegt, að hér er um minni bætur að ræða en sem svarar þeim verðhækkunum, sem munu ganga yfir nú á næstunni eða fram til 1. marz, því að talsvert miklar hækkanir hafa þegar verið boðaðar auk þeirra hækkana, sem munu síðan leiða af gengislækkuninni sjálfri.

Þegar hið fyrra frv. ríkisstj. um sérstakar ráðstafanir í efnahagsmálum var hér til umr. og var komið til 3. umr., hafði meiri hl. fjhn., sem styður ríkisstj., fallizt á að gera þá breyt. við það frv. að ætla lífeyrisþegum, ellilaunafólki og öryrkjum nokkuð meiri bætur en almennum launþegum var ætlað skv. því frv., en þá var þar talað um 5% uppbætur til þessa fólks. Okkur þykir því réttmætt að ákveða það hér, að um leið og almennir launþegar eiga að fá skv. þessari gr. launauppbót, sem nemur 3.39%, þá sé jafnframt ákveðið, að ellilaunafólk og öryrkjar og aðrir þeir, sem svipað er ástatt um, skuli fá aukauppbætur, sem nemur 7%. En um það fjallar sem sagt þessi till. okkar.

Þá gerum við í öðru lagi till. um, að á eftir 2. gr. komi þrjár nýjar gr.

Í fyrsta lagi komi ný gr., svo hljóðandi: „Greiða skal verðlagsuppbót á laun og aðrar greiðslur fyrir unnin störf skv. nánari fyrirmælum þessara laga. Sama gildir um bætur greiddar í peningum skv. l. nr. 40/1963, um almannatryggingar, með áorðnum breytingum bótaupphæða, svo og um bætur skv. l. nr. 29/1956, um atvinnuleysistryggingar. Enn fremur skal greiða verðlagsuppbót á greiðslur til einstaklinga á 18. gr. fjárlaga og á lífeyri úr lífeyrissjóðum, sem ríkissjóður sjálfur eða ríkisfyrirtæki greiða iðgjöld til. Skal hlutaðeigandi lífeyrissjóður greiða verðlagsuppbótina gegn endurgreiðslu úr ríkissjóði og frá stofnunum þeim, er lífeyrisþegi tók laun sín hjá. Verðlagsuppbót greiðist ekki á lífeyrisgreiðslur, er sjálfkrafa fylgja breytingum launa, sem verðtryggð eru skv. fyrirmælum þessara laga.

Fyrirmæli þessara l. taka til kauptrygginga bátasjómanna og til vinnulauna, sem greidd eru skv. uppmælingar- og öðrum ákvæðisvinnutöxtum, enda séu þeir ákveðnir í kjarasamningum stéttarfélags, sem í hlut á, eða miðaðir við kjarasamninga sömu starfsgreina annars staðar.

Fyrirmæli þessara laga taka ekki til launa, sem greidd eru í öðru en peningum, og ekki heldur til fjárhæða, sem launþegar fá greiddar vegna útgjalda, sem fylgja starfi þeirra. Sama gildir um laun, sem ákveðin eru sem hundraðshluti af afurðaverði, veltu eða öðru verðmæti.“

Það skal tekið fram um þessa till. okkar, að hún er orðrétt ákvæðin úr l. um verðhagsbætur á laun frá 1964. Við viljum sem sagt, að tekið sé hér upp í þetta frv. meginatriðið úr þeirri löggjöf, sem slær því föstu, að greiða skuli verðlagsuppbætur á laun og launakjör og á lífeyrisgreiðslur og bætur úr tilteknum tryggingasjóðum, eins og atvinnuleysistryggingasjóði og öðrum slíkum.

Þá leggjum við til, að enn verði bætt við nýrri gr., sem þá yrði 4. gr. frv., svo hljóðandi: „Kauplagsnefnd skal reikna kaupgreiðsluvísitölu eftir vísitölu framfærslukostnaðar skv. 2. gr., þó á þann hátt, að miðað sé við útgjöld launþega til kaupa á vörum og þjónustu, sbr. 1. gr.

Kaupgreiðsluvísitala sú, sem um ræðir í fyrri mgr. þessarar gr., reiknast eftir vísitölu framfærslukostnaðar 1. nóv., 1. febr., 1. maí og 1. ágúst og gildir við ákvörðun verðlagsuppbótar á laun næstu 3 mánuði, frá byrjun næsta mánaðar eftir að hún var reiknuð, í fyrsta sinn frá 1. marz 1968.“

Skv. þessari gr. viljum við slá því föstu, að útreikningur á kaupgjaldsvísitölu skuli vera með þeim hætti, að hún skuli miðuð við hinn nýja vísitölugrundvöll framfærslukostnaðar, þó með því fráviki, sem miðað er við í 1. gr. frv., eins og það liggur hér fyrir. Og síðan leggjum við til, að kaupgjaldsvísitalan, þannig útreiknuð, komi fyrst til framkvæmda 1. marz 1968. Við göngum sem sagt út frá því, að verðlagsuppbót yrði nú 1. des. eins og gert er ráð fyrir í frv. á almenn laun, en síðan tæki við kaupgjaldsvísitala 1. marz á næsta ári miðuð við nýja vísitölugrundvöllinn með sama fráviki og gert er ráð fyrir í 1. gr. frv.

Þá leggjum við til, að enn bætist við ný grein, sem verður þá 5. gr. frv., og sú grein sé þannig: „Vinnuliðir verðlagsgrundvallar landbúnaðarvara skulu hækka eða lækka skv. breytingum vísitölu eftir sömu reglum og um ræðir í 2. og 4. gr. og afurðaverð til bænda breytast um leið til samræmis. Þó skal slík breyting á vinnuliðum verðlagsgrundvallar ekki eiga sér stað, nema skv. ósk fulltrúa framleiðenda eða fulltrúa neytenda í Sexmannanefnd.“

Þessi gr. er svo til eins og hliðstæð gr. er í gildandi l.

Þetta eru þær brtt., sem við leggjum til, að samþykktar verði við frv.

Ég vænti nú, að hv. alþm. hafi áttað sig á þessum breytingum, þó að þær hafi ekki verið prentaðar og þeim ekki útbýtt, en meginatriðin eru: Við viljum ganga inn á, að verðlagsuppbót á laun verði reiknuð á þann hátt, sem gert er ráð fyrir í 1. gr. frv. Við viljum þó ekki slá því föstu, eins og er í 1. gr., að það ástand skuli standa áfram, þar til kaupgjaldssamningar hafa breytt því ákvæði. Við teljum, að það atriði eigi aðeins að standa þetta verðlagstímabil, sem er frá 1. des. til 1. marz. Við teljum réttmætt að ákveða nokkru hærri bætur en gert er ráð fyrir í 1. gr. til lífeyrisþega, sem búa við lág laun, og síðan viljum við á eftir því, sem ákveðið er í frv., að hinn nýi framfærsluvísitölugrundvöllur verði lögfestur, slá því föstu, að skv. honum eigi eftirleiðis að reikna út kaupgjaldsvísitöluna með sama fráviki og er frá honum ákveðinn í 1. gr. frv. Og við viljum slá því föstu í frv., að það sé skylda að greiða verðlagsuppbætur á kaup og launagreiðslur alveg á svipaðan hátt og því var slegið föstu í l. frá 1964 um þetta efni. Og við viljum, að sömu ákvæði verði í gildi í sambandi við hreyfingu á launalið bóndans í verðlagsgrundvelli landbúnaðarins, eins og hefur verið í l., að hann sem sagt breytist skv. vísitölu eins og önnur laun.

Þetta eru nú meginatriðin í þessum till. okkar. Ég vil svo leggja fram þessar brtt., sem verða að leggjast fram skriflegar, þegar svona stendur á, og afhenda þær hæstv. forseta. Og þá einnig um leið nál. það, sem við höfum lagt fram.

Örfá fleiri orð vildi ég segja hér.

Jónas Haralz mætti á fundi fjhn. til þess að gefa nokkrar upplýsingar um þessi mál og reyndar um meira en það, sem felst beint í þessu frv., nokkur atriði varðandi gengislækkunarmálið sem heild. Þótt þær upplýsingar, sem hann gat gefið okkur, væru mjög takmarkaðar, komu þar fram nokkur atriði, sem rétt er, að hér komi fram.

Jónas Haralz var að því spurður, hvað hann byggist við, að miklar verðlagshækkanir leiddi af gengislækkunarákvæðunum. Taldi hann, að búast mætti við því, að verðlagshækkanir yrðu, eins og hann orðaði það, a.m.k. 8%. Kemur því hér í ljós það, sem ég og fleiri höfðum sagt hér fyrr í umr. um þetta mál, að það mundi heldur vægilega til orða tekið eða útreiknað, að verðhækkanirnar yrðu aðeins 6–7%. Nú telur Jónas sem sagt, að afleiðingarnar yrðu ekki minna en a.m.k. 8%, en játaði þó, að hér væri auðvitað um vandasama útreikninga að ræða og mjög erfitt að segja með nokkru öryggi fyrir um það, hverjar afleiðingarnar yrðu í verðlaginu.

Ég hygg því, að allt bendi til þess, að hér verði a.m.k., eins og Jónas Haralz sagði, um 8% almenna verðhækkun að ræða, en sennilega þó mun meiri. Það kom líka fram, að ráðgert er, að haldið verði áfram við allar fyrri till. ríkisstj. um efnahagsráðstafanir, nema aðeins farmiðaskattinn. Reiknað er með því, að öll önnur atriði verði lögfest, einnig fasteignaskatturinn, og er þá alveg sýnilegt, að það er gert ráð fyrir því skv. þessu, að tekjur ríkissjóðs muni aukast á næsta ári vegna þeirra till. um það bil um 700 millj. kr. Og þar sem einnig er gert ráð fyrir því, að ríkið taki nú til sín um 300 millj. kr., sem áttu skv. fyrri till. að renna til sjávarútvegsins, er augljóst mál, að tekjur ríkissjóðs munu aukast skv. þessu um ekki minna en 1000 milljónir króna eða 1 milljarð. Og þá koma enn þar til viðbótar þær tekjur, sem ríkissjóði munu leggjast til vegna gengislækkunaráhrifanna, þ.e.a.s. vegna þess að tolltekjurnar munu verða meiri, söluskattstekjurnar meiri, en um þetta atriði er ekki gott að segja, því að Jónas Haralz upplýsti, að enn væri alveg óvíst um það, að hve miklu leyti tollstigum skv. tollskrá yrði breytt, en unnið hefði verið að athugun á þeim málum. Einnig sagði hann, að alveg væri óvíst, hvað gert yrði með söluskattinn, hvort honum yrði haldið óbreyttum að hundraðshluta til eða hvort þar gæti verið um einhverja breytingu að ræða. Hins vegar taldi Jónas, að rýmri fjárhagur ríkissjóðs mundi veita aðstöðu til þess að lina eitthvað áhrif verðlagshækkunar af völdum gengislækkunarinnar. Það er sem sagt alveg óráðið mál, hvað í því verður gert, um það hafa ekki fengizt neinar upplýsingar. En þó hefur það verið sagt hér áður við alþm., að talið sé svo til útilokað að greiða niður vöruverð eftir hinum nýja vísitölugrundvelli. Talið er, að niðurgreiðsla á hverju vísitölustigi muni kosta 127 millj. kr., en þó má vera, að til slíks verði gripið, en fleiri ráð geta hér auðvitað komið til greina.

Þá skal ég einnig upplýsa það, að það kom fram í viðtali í n. við Jónas Haralz, að hann taldi fyrir sitt leyti, að það væri mjög eðlilegt, að ráðstafanir yrðu gerðar til þess, að kjör framleiðenda þeirra, sem framleiða vörur eftir gengisbreytingardag, yrðu ekki verri en kjör þeirra, sem framleitt hafa vörur fyrir gengisbreytingardaginn. Og hann taldi, að gera þyrfti sérstakar ráðstafanir með l. til þess að draga úr þeim aukakostnaði, sem þeir yrðu fyrir með hækkuðum flutningsgjöldum og með auknum rekstrarkostnaði. Það yrði sem sagt að taka tillit til þess arna, enda er alveg augljóst mál, að ef ekki verða gerðar ráðstafanir í þá átt, munu framleiðendur draga að sér höndina, ef þeir eiga að búa þar við miklu lakari kjör en áður hefur verið, eins og mundi koma út í sumum tilfellum með þá framleiðslu, sem um er að ræða nú í desembermánuði. Þar sem t.d. umbúðir og annar tilkostnaður er stór liður í framleiðslunni og þær verða að greiðast á hinu nýja gengi, gæti beinlínis verið um hreinan og stórfelldan taprekstur að ræða, ef það ætti að halda sér við það orðalag á þessu, sem enn er fest í lögum.

Ég skal svo, held ég, ekki orðlengja frekar um þetta. Ég tel, að allgreinilega komi fram hér sá skoðanamunur, sem er á milli meiri og minni hl. um afgreiðslu málsins, og hér hafa þegar farið fram allmiklar umræður um málið, og ég sé því ekki ástæðu til að orðlengja um málið frekar.