04.04.1968
Neðri deild: 89. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1297 í B-deild Alþingistíðinda. (1215)

20. mál, kosningar til Alþingis

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að gera nokkra grein fyrir tveimur brtt., sem ég hef flutt á þskj. 437 og þskj. 224. Ég skal ekki ýfa neitt upp ágreining, sem orðið hefur í sambandi við þau mál, sem þessar brtt. snerta. Það er, eins og sagt hefur verið, öllum í fersku minni og kannske þarflaust. En ég vildi mega leyfa mér að rifja upp aðeins örfáar staðreyndir í málinu, sem gera nánar grein fyrir í sjálfu sér, vegna hvers þessar brtt. voru fluttar.

Eins og hv. þm. er kunnugt, varð ágreiningur um, hvernig merkja skyldi framboðslista hér í Reykjavík á s.l. sumri, og um það var mikill ágreiningur milli þeirra manna, sem eru innan Alþb., og svo hins vegar á milli yfirkjörstjórnar og landskjörstjórnar. Niðurstaðan varð í stórum dráttum þessi, að yfirkjörstjórnin í Reykjavík merkti lista, sem kenndur var við Hannibal Valdimarsson, sem óskaði eftir, að listinn væri listi Alþb. og merktur GG-listi í samræmi við 41. gr. kosningal., yfirkjörstjórnin ákvað, að þessi listi skyldi merkjast sem I-listi og vera talinn utan flokka. En strax daginn eftir að þetta skeði var fundur í landskjörstjórn og það var haft eftir formanni landskjörstjórnar í ríkisútvarpinu, eins og þar segir, að hvernig sem yfirkjörstjórn auglýsti listann, leiddi úrskurður landskjörstjórnar, sem hún hafði gert á þessum fundi, til þess, að uppbótarþingsætum yrði úthlutað í samræmi við þann úrskurð, þannig að atkv., sem greidd yrðu listanum, teldust til lista Alþb.

Niðurstaðan varð svo þessi, að listinn var merktur I-listi, og hv. þm. Hannibal Valdimarsson, sem var efsti maður listans, fékk kjörbréf frá yfirkjörstjórninni sem I-listamaður, en við úthlutun uppbótarsætanna voru hins vegar atkv. I-listans og G-listans talin saman, og samkv. því var úthlutað uppbótarþingsætum í samræmi við það, sem formaður landskjörstjórnar hafði sagt.

Án þess að taka nokkra afstöðu til þessa máls hef ég haldið því fram hér áður, og við erum margir, sem erum þeirrar skoðunar, að atvik eins og þetta séu mjög til þess fallin að villa fyrir kjósendum í sambandi við kosningar, einkum og sér í lagi þegar höfð er í huga afstaða umboðsmanna G-listans, sem borinn var fram af Alþb., sem kom fram í blöðum, en var einnig lögð fram sem grg. og þessi grg. birt fyrir yfirkjörstjórn um afstöðu Alþb. til merkingar listanna, og þetta rifjast bezt upp með því að fá að vitna hér í nokkur orð úr þessari grg., með leyfi hæstv. forseta, en þar sagði af hálfu umboðsmanna Alþb.:

„Því er haldið hér fram, að stjórnmálaflokkarnir hver um sig séu sjálfstæð persóna að lögum. Það þýðir, að sérhver stjórnmálaflokkur er einn bær að kveða á um það, hver kemur fram á vegum flokksins og hvað er gert í nafni hans. Enginn einstaklingur eða hópur innan eða utan flokksins getur tekið sér vald eða umboð, sem stjórnmálaflokkur hefur ekki gefið honum, til þess að koma fram í nafni flokksins eða lýsa einhverju yfir á ábyrgð flokksins eða bjóða fram fyrir hans hönd. Þetta á sér rætur í grundvallarreglum laga, og er fjarri öllu lagi að beita lögskýringum við óljós lagaákvæði, svo að í bága fari við þessar grundvallarreglur.

Í 27. gr. kosningalaganna segir, að framboðslista skuli fylgja skrifleg yfirlýsing meðmælenda listans um það, fyrir hvern stjórnmálaflokk listinn sé borinn fram. Í 41. gr. kosningalaganna segir, að nú séu fleiri en einn listi í kjöri fyrir sama stjórnmálaflokk og skuli þá merkja þá eins og þar segir. Þeir, sem lagt hafa fram lista Hannibals Valdimarssonar o.fl. við þessar kosningar hér í Reykjavík, krefjast þess, að þessi listi þeirra sé úrskurðaður að vera listi Alþb. og merkjast GG-listi, með þeirri furðulegu röksemd, að túlka beri ákvæði framanritaðra lagagreina á þann hátt, að það séu meðmælendurnir einir, sem geti boðið fram lista fyrir hvaða flokk sem þeir vilja, án þess að þeir séu í nokkrum tengslum við þann flokk, sem þeir vilja bjóða fram fyrir, og án þess að flokkinn varði nokkuð um það. Þessari lögskýringu er mótmælt sem alrangri. Því hefur líka verið haldið fram, að lögskýring þessi byggðist á þeim sjónarmiðum að gefa minni hl. flokkanna sem óánægður er, en ekki vill segja skilið við flokkinn, tækifæri til að koma fram framboði í nafni flokksins. Þótt eitthvað væri til í þessum sjónarmiðum, eiga þau ekki við hér. 9 af meðmælendum lista Hannibals Valdimarssonar hafa skriflega sagt sig úr Alþb. Aðeins 30 af meðmælendahópnum eru meðlimir í Alþb. Þetta eru því utanflokksmenn að langmestu leyti, sem eru að koma fram sprengiframboði gegn Alþb.

Rétt skýring á þessum lagaákvæðum er sú, að þau eru heimildarákvæði fyrir stjórnmálaflokk að bera fram fleiri en einn framboðslista í sama kjördæmi, ef flokknum þykir það henta. Þessi ákvæði hreyfa ekki við sjálfræði flokkanna um framboð sín. Ef stjórnmálaflokkur vill bera fram tvo lista í sama kjördæmi, eins og hefur gerzt á Seyðisfirði og eins og gæti hafa gerzt í Alþb. í Reykjavík, verður það ekki gert nema af þeirri stofnun flokksins, sem er bær að flokkslögum að fjalla um framboð í viðkomandi kjördæmi. Engir aðrir aðilar hafa heimild til að bera fram lista í nafni flokksins.“

Hér lýkur tilvitnun í grg. umboðsmanna Alþb., sem lögð var fram fyrir yfirkjörstjórn í Reykjavík. Síðan mun það hafa verið 12. maí, að þá kemur saman stjórn Alþb. hér í Reykjavík og gerir eftirfarandi ályktun, sem birt var í blöðum, með leyfi hæstv. forseta:

„Að gefnu tilefni þykir stjórn Alþb. í Reykjavík rétt að taka fram, að Alþb. hefur í samræmi við lög samtakanna á almennum félagsfundi hinn 10. apríl raðað mönnum á framboðslista Alþb., sem birtur hefur verið og borinn verður fram fyrir Alþb. í Reykjavík við alþingiskosningarnar 11. júní 1967. Jafnframt tekur stjórnin fram, að aðrir framboðslistar í kjördæminu eru Alþb. í Reykjavík óviðkomandi og lýsir yfir, að samkvæmt lögum Alþb. getur enginn annar aðili en að framan segir horið fram framboðslista í Reykjavík í nafni Alþb.“

Hér lýkur þessari tilvitnun í þessa samþykkt. Ég ætla eins og ég sagði áðan ekki að leggja dóm á þessa deilu, en ég hef vitnað til þessa til þess að færa þeim orðum mínum stað, að það liggi ákaflega nærri að álykta, að allur þessi ágreiningur, allar þessar yfirlýsingar og mismunandi skoðanir hafi verið til þess að villa mjög um fyrir mönnum í kosningunum, og raunar veit ég fyrir víst í einstöku tilfellum, að sögn kjósenda, að þær hafi gert það og þess vegna hafi þeir kosið öðruvísi en þeir mundu hafa kosið, ef þessi óljósu ákvæði kosningal. hefðu ekki leitt til þess ágreinings, sem varð, án þess að nokkuð skuli um það sakazt, hvort einn eða annar hafi rétt fyrir sér eða ekki. Það var af þessum sökum, sem stjórnarflokkarnir, þegar þeir endurnýjuðu stjórnarsamning sinn, settu það inn í þennan samning, að þeir vildu beita sér fyrir nauðsynlegum breytingum á kosningal. Og þegar rætt var um kjörbréf hv. þm., sagði ég fyrir hönd ríkisstj. m. a. á þessa leið:

„Það er eflaust vafamál frá lögfræðilegu

sjónarmiði, eins og ráða má af því, hversu mjög kjörstjórnir hefur greint á, þótt skipaðar séu lögfræðingum, hvernig eigi að skera úr þessari deilu, og enda þótt Alþingi sé fengið hið endanlega úrskurðarvald um gildi kjörbréfa, er það eðli málsins samkvæmt ekki stofnun, hvort sem mönnum líkar betur eða verr, sem talin væri frá lögfræðilegu sjónarmiði til dómsúrskurðar fallin. En Alþ. getur sett undir þennan leka, að vafi leiki áfram á um það, hvernig skilja beri eða framkvæma ákvæði kosningalaga. Þess vegna eru stjórnarflokkarnir ráðnir í því að beita sér fyrir breytingu á kosningal. í því skyni að girða fyrir, að nokkuð sambærilegt og gerzt hefur geti endurtekið sig.“

Þetta sagði ég þá, og hæstv. menntmrh., formaður þingflokks Alþfl., gaf efnislega samhljóða yfirlýsingu, og ég hygg einnig, að formaður þingflokks Framsfl., hv. 1. þm. Austf., hafi þá talið nauðsynlegt að breyta þessum ákvæðum til þess að taka af vafa í þessum málum, án þess að nokkur okkar á þessu stigi málsins færi nánar út í það, hvernig það skyldi gert. Í framhaldi af þessu lagði ég svo fram brtt., er þing kom saman aftur eftir áramótin, á þskj. 224, til þess að setja undir þennan leka. En það skal viðurkennt, að sú brtt. gekk í sjálfu sér lengra en það að girða fyrir þessa deilu, sem þarna hafði komið upp. Samkvæmt brtt. var ákveðið, að skrifleg viðurkenning hlutaðeigandi flokksstjórnar þyrfti fyrir því, að listi skyldi vera í kjöri fyrir flokkinn. Og svo var enn fremur annað ákvæði: „Ekki getur stjórnmálaflokkur boðið fram fleiri en einn lista í sama kjördæmi.“ Í sjálfu sér var þetta lengra gengið en þurfti, miðað við þá deilu, sem uppi hafði verið, því að ef flokksstjórn hefði viljað bjóða fram 2 lista hefði enginn ágreiningur þurft að vera um það. Ágreiningurinn var aðeins um það atriði, að menn gætu ekki boðið fram lista í nafni flokks ofan í mótmæli flokksstjórnar eða án þess að hún væri því samþykk. Það kom fljótt í ljós, að nokkur ágreiningur var um þetta atriði, hvort stjórnmálaflokki ætti að vera heimilt, eins og áður var, að bjóða fram einn eða fleiri lista. Ég skal upplýsa, að það voru um það dálítið skiptar skoðanir í stjórnarflokkunum, þó að ofan á yrði að flytja þessa brtt. þannig, að það væri tilskilið. Ég hygg, að þar muni kannske hafa ráðið mestu, af því að ég átti sem dómsmrh. að flytja brtt., sú skoðun mín, að ég taldi það skýrast og eðlilegast, og þá var það látið gott heita af öðrum í stjórnarflokkunum. Hins vegar gerði ég grein fyrir því mjög fljótt á vettvangi innan pólitísku félaganna hér í Reykjavík, — málið hefur ekki verið til umr. í þinginu, innan ríkisstj. og meðal samherja minna í þingflokki sjálfstæðismanna, að ég legði enga áherzlu á þetta atriði og það væri þess vegna mjög eðlilegt að breyta því aftur, ef það gæti orsakað nánara samkomulag um till. Það er rétt, sem kom fram hjá hv. 1. þm. Norðurl. e., að það er mjög æskilegt sem fyllst samkomulag um breytingar á kosningal., og þess hefur jafnan verið freistað, þó að stundum hafi þurft að skerast í odda með það eins og annað. En það var í mínum huga einnig og okkar í ríkisstj. talið mjög æskilegt, að sem víðtækast samkomulag gæti orðið um þessa brtt. Þess vegna var það, að ég fyrir hönd ríkisstj. hafði samráð um það við fulltrúa úr hinum þingflokkunum, formann Framsfl. og formann þingflokks Alþb. og einn af þm. Alþfl., að ræðast við um breytingar á þessari brtt., sem stuðlað gætu að nánara og víðtækara samkomulagi en ella. Og það er upp úr þessum viðræðum, sem flutt er svo aftur af minni hálfu brtt. á þskj. 437, og ég hef ástæðu til þess að ætla að um hana sé mjög viðtæk samstaða í þinginu, þó að það sé rétt að um hana sé líka ágreiningur. Meiri hl. n., 5 af 7 mæla með samþykkt till. og ég hygg, að samstaða um afgreiðslu hennar kunni að vera enn þá víðtækari í þingflokkunum en fram kemur í nál. með meirihlutaáliti þessara 5 hv. þm. En þar eru gerðar tvær brtt. frá fyrri till. Að efni til er látið haldast óbreytt, eins og verið hefur í kosningal., í 41. gr., að flokkur geti boðið fram fleiri en einn lista og þá skuli þeir merktir eins og þar segir, A og AA, B og BB o.s.frv. Hins vegar er hin breytingin formsbreyting, en hefur þó sem slík verulega þýðingu. Það er horfið frá því sem segir í fyrri till., að þurfi að fylgja framboðslista skrifleg viðurkenning hlutaðeigandi flokksstjórnar fyrir því, að listinn skuli vera í kjöri. Hins vegar er hnigið að því ráði, að ef komi fram tveir listar fyrir sama flokk og meðmælendur bjóði fram fleiri en einn lista, þá skuli þeir teljast til flokksins, ef ekki koma fram mótmæli frá þeim aðila, sem samkvæmt reglum flokks er ætlað að ákveða framboðslista eða staðfesta framboðslista endanlega. Og þó að þetta sé kannske formsbreyting, þá er eðlismunur á þessu, því að þeir, sem vilja bera fram annan lista, við skulum segja minni hl. innan flokks, þeir þurfa ekki fyrir fram, áður en listi er lagður fram, að fá viðurkenningu flokksstjórnarinnar, en geta lagt listann fram, og þá verður það í höndum þess aðila, sem á að ákveða framboðið, að taka afstöðu til þess, hvort sá aðili vilji mótmæla listanum sem flokkslista. Með þessu móti er gengið til móts við ýmis þau sjónarmið, sem fram hafa komið, eftir að brtt. mín fyrri var flutt, og eins og ég sagði áðan, ég hef mikla ástæðu til þess að ætla að nokkuð víðtækt samkomulag geti orðið um þessa brtt. í þinginu.

Þegar talað er um aðila sem samkvæmt reglum flokks er ætlað að ákveða framboðslista eða staðfesta framboðslista endanlega, liggur það fyrir, eftir því sem ég hef kannað, að það er í flokksreglum allra núverandi þingflokka ákvæði um, að svokölluð kjördæmaráð eða einhver sérstakur aðili, kjördæmaráð eru þau held ég jafnan kölluð, í flokkunum ákveði framboðið í hverju kjördæmi fyrir sig, og það er endanlegt í öllum þingflokkunum nema hjá Sjálfstfl., en þar er í flokksreglunum gamalt ákvæði, sem ég man ekki, hvenær upp var tekið, en er a.m.k. orðið nokkurra ára, líklega upp úr breytingunni 1959, þar sem segir um þingframboð: „Kjördæmisráð ákveður framboðslista flokksins við kosningar til Alþ.“ Og svo eru ákvæði um fulltrúaráð, eins og er hér í Reykjavík, sem svarar til kjördæmisráðsins, og í öðru lagi: „Staðfestingar miðstjórnar þarf á framboðslista, svo að hann verði borinn fram í nafni flokksins.“ Þetta mundi þá þýða að það eru kjördæmisráð, sem eru úrskurðarbær um þetta, en vegna ákvæða í reglum Sjálfstfl., meðan þær eru ekki breyttar, er það annaðhvort kjördæmisráðið eða fulltrúaráðið eða miðstjórnin, sem getur borið fram mótmæli. Þetta staðfestingarákvæði hefur í raun og veru verið meira formsatriði — við getum talað alveg hreint út um það — í Sjálfstfl., en ákvæðið er til og er fyrir hendi og er samþ. af landsfundi og ítrekaðar samþykktir um það gerðar, og þar af leiðandi er þetta nú þannig orðað. Ég taldi rétt að gera grein fyrir þessu, svo að mönnum blandaðist ekki hugur um, að það eru þeir aðilar, sem ákveða framboðin, sem geta borið fram mótmæli gegn því, að listi sé í framboði fyrir viðkomandi flokk, annaðhvort þá fulltrúaráð eða kjördæmaráð, og í því tilfelli, sem hér er um að ræða með Sjálfstfl., annaðhvort þau eða miðstjórnin. Og svo eru bein ákvæði um það, til þess að ekkert sé um að villast, að ef slík mótmæli komi fram, skuli yfirkjörstjórn úrskurða slíkan lista utan flokka og landskjörstjórn úthluta uppbótarþingsætum í samræmi við það. Þá á hún ekki annarra kosta völ.

Þetta gæti sjálfsagt, eins og vikið var að, verið með öðrum hætti. En þetta eru a.m.k. mjög skýr ákvæði og eins og ég hef komizt næst því í viðleitni minni að orða þannig, að ég hefði ástæðu til þess að ætla, að sem flestir þm., eins og nú standa sakir, gætu sætt sig við. Ég veit að vísu, að það er ágreiningur um þetta, enda lýsti hv. 9. þm. Reykv., eins og eðlilegt er, því yfir í umr. um kjörbréf þm. í haust, að hann vildi ekki, að gerð yrði breyting í þá átt, sem hér er um að ræða, og var það í eðlilegu framhaldi af afstöðu hans í þeirri deilu, sem stóð í sambandi við framboðin í sumar er leið.

Nú skal ég ekki hafa um þetta fleiri orð. Ég vil aðeins víkja að því, sem fram kom hjá hv. frsm. meiri hl. n. og kemur fram í nál. meiri hl., að það er óskað eftir heildarendurskoðun á kosningal. Það voru einkum viss minni atriði, sem hann vék að eða gaf í skyn að þyrfti að breyta. Það munu vera fleiri atriði áþekk, sem aths. hafa komið fram um og liggja fyrir í dómsmrn. En þegar hins vegar er talað um heildarendurskoðun, vandast málið auðvitað miklu meira til þess að láta hana liggja fyrir næsta þingi, því að sum ákvæði kosningal. eru, eins og hv. þm. er Ijóst, þannig, að þeim verður ekki breytt nema með breyttri stjórnarskrá sem er miklu umfangsmeiri breyting, og þó að ég telji, að það sé mjög eðlilegt að huga að heildarendurskoðun kosningalaganna, held ég, að veigamestu breytingarnar hlytu að vera í tengslum við breytingar á sjálfri stjórnarskránni, sem er líka tímabært að fara að hugleiða um að breyta í sambandi við þá reynslu, sem fengizt hefur af kjördæmabreytingunni, breytingu kjördæmaskipunar og kosningalaga frá árinu 1959.

Hv. 1. þm. Norðurl. e. tók nokkuð djúpt í árinni um brtt. á þskj. 437 að mínum dómi, þegar hann sagði sem svo, að honum fyndist það ástæðulaust og nálgast ofurkapp að láta ganga til afgreiðslu á þessari till. nú, og beindi þeim tilmælum til mín, hvort ég gæti ekki fallizt á, að frestað yrði afgreiðslu málsins, þar sem ágreiningur væri um það, sem réttilegt er, en ég held hann sé ekki mikill. Ég get ekki fallizt á, að þetta standist, að það sé ástæðulaust og nálgist ofurkapp. Mér væri mjög ljúft að verða við tilmælum um að fresta afgreiðslu þessa máls til næsta þinghalds, ef ekki stæði þannig sérstaklega á, að við vitum ekki, hvenær verður kosið, og ég fyrir mitt leyti vil setja undir þann leka, eins og ég hef áður sagt, að aftur verði kosið í þessu landi eftir kosningal. óbreyttum. Það er aðeins út frá þessari einföldu staðreynd, sem ég og samherjar mínir í stjórnarflokkunum hafa talið, að það væri nauðsynlegt að afgreiða þessa till. á þessu þingi. Það væri náttúrlega hugsanlegt að draga þessa till., ef við fengjum einhverjar sérstakar traustsyfirlýsingar eða öryggisventil frá stjórnarandstöðunni um það, að ekki mundi vera nein hætta á því, að ríkisstj. þyrfti að efna til neinna kosninga, áður en næsta Alþ. fengi tíma til að afgreiða svona mál eins og kosningal. En þetta er nú sagt í gamni og ekki hægt að ætlast til þess, en ríkisstj., sem aðeins hefur eins atkvæðis meiri hl. í d., gerir sér auðvitað ljóst hverju sinni, að hún að því leyti stendur völtum fótum og hefur það ekki örugglega í hendi sér að stjórna út kjörtímabilið, eins og lög segja fyrir um. Þetta er í raun og veru mjög einfalt mál og það er eingöngu þess vegna, sem ég get fyrir mitt leyti ekki orðið við þessum tilmælum frá hv. þm. og tel nauðsynlegt að þessi brtt., enda þótt um hana sé nokkur ágreiningur, því miður, nái fram að ganga, og legg áherzlu á, að hún komi til afgreiðslu á þessu þingi. En ég vil líka mega vona, að með brtt. á þskj. 437 hafi verið gengið töluvert til móts við þá hv. þm., sem jafnvel geta ekki fylgt þeirri till., miðað við það, sem lagt var til í till. á þskj. 224, og líka í þeim tilgangi er seinni till. flutt, og þar af leiðandi, herra forseti, dreg ég til baka till. á þskj. 224.