04.04.1968
Neðri deild: 89. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1342 í B-deild Alþingistíðinda. (1220)

20. mál, kosningar til Alþingis

Frsm. minni hl. (Gísli Guðmundsson):

Ég vil leyfa mér að benda á það, að við lok þeirrar umr., sem nú stendur yfir, mun fara fram atkvgr. um brtt. hæstv. dómsmrh. Þess vegna er það helzt til seint að ræða hana við 3. umr., þannig að ég fellst ekki á þessi rök, sem hæstv. forseti hefur haft uppi. Eða á ég að skilja þetta svo, að ég eigi að halda áfram ræðu minni? Það er raunar ekki svo að skilja, að ég ætli að flytja hér langa ræðu. En mig furðar nokkuð á meðferð þessa máls. Og ég held, að það sýni sig nú enn betur en áður, að það lýsi ofurkappi, hvernig málið er sótt. Þarna hefur ekki verið ofmælt hjá mér í ræðu minni í dag. Það er mjög óvenjulegt eða hefur verið til þessa, að fundi hafi verið haldið áfram svona lengi, og eins og ég sagði, stendur þannig á, að mjög fáir menn eru viðstaddir.

Ég gat þess í ræðu minni í dag, framsöguræðu minni, að ég ætlaði ekki að ræða efni till., sem hér er aðallega deilt um, að ég ætlaði ekki að svo stöddu að taka neina afstöðu til þess hér í ræðustól, hvort brtt. frá hæstv. dómsmrh. ætti rétt á sér. Það, sem ég ræddi, og það, sem nál. minni hl. byggist á, er, að það sé þarflaust og ótímabært að samþ. brtt. við það frv., sem hér liggur fyrir frá hæstv. ríkisstj. og allir virðast vera sammála um, þarflaust og ótímabært, þegar það liggur fyrir eftir umræðunum að dæma, að menn séu einnig sammála um, að það sé rétt að endurskoða kosningalögin nú milli þinga, en það hins vegar skapi töf, ófyrirsjáanlega töf á afgreiðslu sjálfs frv., að leiða inn í meðferð málsins deilumál og það deilumál, sem hefur vakið þjóðarathygli á sínum tíma og virðist vera nokkuð mikill hiti í. Ég geri ráð fyrir því, að hv. þm. hafi sannfærzt um það af þeirri nokkuð löngu ræðu, sem hv. 9. þm. Reykv. hefur flutt á þessum fundi, að það er ekkert ofmælt hjá minni hl., að þetta sé ágreiningsmál. Ég fæ ekki betur séð en að þeim, sem hafa haldið því fram hér í umr., að till., sem hæstv. dómsmrh. hefur lagt fram, till. á þskj. 437, sé sáttatillaga í þessu máli, hafi verið nokkuð dimmt fyrir augum. Það er alveg auðsætt, að hún er það ekki. Það hefur komið fram í umr. Og það er vitanlega ekki heldur réttmæli, þó að viðræður hafi átt sér stað um þetta mál, að hér sé um víðtækt samkomulag að ræða, eins og ég held að hæstv. dómsmrh. hafi orðað það í dag. Það er sem sé ekki um neitt samkomulag að ræða, hvorki víðtækt né ekki víðtækt samkomulag. Hitt getur verið, að hæstv. ráðh. sé kunnugt um, að þessi till. muni hafa nokkuð víðtækan stuðning. Hann kann að hafa gert sér hugmynd um, að það muni vera mikill meiri hl. með henni. En það er allt annað mál, að eitthvað, sem knúið er fram, hafi víðtækan stuðning, mikinn meirihlutastuðning, eða að gert hafi verið víðtækt samkomulag. Víðtækt samkomulag er samkomulag, sem nær yfir margt.

Ég vil leyfa mér að benda á, að það hefur að vísu verið talað um endurskoðun kosningalaganna, sem eigi að fara fram á milli þinga, og það getur vel verið og virðist svo, að bæði í hv. allshn. og hér á þingfundi, að því leyti sem menn hafa sótt þennan þingfund, þá séu menn þess sinnis nú að láta slíka endurskoðun fara fram. En um það hefur þó engin tillaga komið fram, heldur aðeins ummæli. Og grunur minn er sá, að ef þessi tillaga verður samþykkt, sem hér liggur fyrir, þá kunni það að hafa áhrif í öfuga átt, þannig að ekki verði úr þeirri endurskoðun að svo stöddu, alveg eins og samþykktir um breytta kjördæmaskipan hafa haft þau áhrif, að áhugi manna hefur dvínað fyrir því að endurskoða stjórnarskrána.

Hæstv. ráðh. viðurkenndi það í ræðu sinni áðan, að hann hefði haft tilhneigingu til þess að fallast á sjónarmið minni hl., að fresta afgreiðslu þessa deilumáls og að láta hana bíða endurskoðunar, ef ekki kæmi til eitt atriði. Hann sagði, að það gæti reynzt ónóg að gera breytingar á kosningalögunum á næsta þingi, því að vel gæti svo farið, að það færu fram alþingiskosningar áður. Ég heyri það nú í fyrsta sinn frá hæstv. ríkisstj., að þetta kunni að vera á döfinni, og ætla nú ekkert að inna nánar eftir upplýsingum um það, en ég mun við 3. umr. ef till. hæstv. ráðh. verður samþykkt nú, flytja við frv. brtt., sem sker úr um það, hvort það er í raun og veru svo, að þetta sé meginástæða ráðh. til þess að beita sér fyrir því með slíku ofurkappi sem raun er á, að till. verði samþykkt.

Varðandi hitt og þetta, sem komið hefur fram í þessum umr., hef ég haft tilhneigingu til þess að ræða það. En af því að svo fáir eru viðstaddir og af því að hæstv. forseti er ófáanlegur til þess að veita mér þá ánægju fyrir hönd minni hl. n. að ræða við þá sem fjarverandi eru, og þeim hv. þm. tækifæri til að hlusta á mín lítilfjörlegu rök, þá ætla ég að ljúka máli mínu með þessum orðum.