04.04.1968
Neðri deild: 89. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1343 í B-deild Alþingistíðinda. (1221)

20. mál, kosningar til Alþingis

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að svara neinu af því, sem fram hefur komið í umræðunum, vegna þess að ég tel mig hafa gert grein fyrir því í minni frumræðu, hvers vegna ég styð brtt. hæstv. dómsmrh., þá hina síðari og hef engu við þann rökstuðning að bæta. En ég vil aðeins undirstika þau orð í því sambandi, sem hv. þm. Hannibal Valdimarsson hafði eftir mér og fannst ekki að öllu leyti viðeigandi, en þau voru, að eins og nú væri ástatt væru flokkarnir, að því er framboðsmálin snerti, ofurseldir óviðkomandi fólki. Og þetta er kjarni málsins í mínum augum, að setja ákvæði inn í l., sem gera það að verkum, að flokkarnir þurfi ekki að eiga það á hættu, að vera á þann hátt ofurseldir eins og þeir eru núna.

Í þessu sambandi var ég ekkert að ræða um það, sem gerðist s.l. vor. Ég legg engan dóm á það. En það kom fram í sambandi við þau málefni, að skv. gildandi kosningalögum þarf ekkert nema yfirlýsingu meðmælenda, til þess að flokksframboð sé kallað. Það er þetta sem mér finnst ekki viðunandi, að þannig sé hægt að fara að og flokkarnir fái ekki komið neinni vörn við.

Þessi brtt. hæstv. dómsmrh. breytir engu í því tilliti, að það geta verið fleiri en eitt framboð á vegum flokka og ástandið að því leyti verið áfram eins og það er nú. Það getur nú verið fleira en eitt framboð af hendi flokka með samþykki flokksstjórna, og að sjálfsögðu getur það verið þannig, ef brtt. er samþ. Það eina, sem breyttist, væri það, að flokkarnir þyrftu ekki að sæta því, að óviðkomandi fólk byði fram í þeirra nafni. Það er eina breytingin, sem stungið er upp á. En nú skal ég ekki fara lengra út í þetta.

Ég fór að minnast á í dag, hvort ástæða væri til að efla flokkana eða til að veikja þá og hlutverk þeirra í þingræðinu. Vil ég nota tækifærið nú til þess að gefa nokkrar bendingar í því efni, sem mér finnst að ætti að taka til athugunar. Það eru ekki tæmandi till. um endurbætur, en ég vil, að þetta komi fram ásamt því, sem ég sagði í dag, fyrst ég fór inn á þá braut, að ræða þessi málefni, sem eru mjög þýðingarmikil og ein hin allra þýðingarmestu í okkar þjóðlífi.

Ég vil, að þingflokkarnir fái nokkuð aukið starfslið, — þeir hafa nú ekkert starfslið, — t.d. 2—3 menn til rannsóknarstarfa á þeirra vegum og upplýsingasöfnunar og sérfræðilegra starfa og leiðbeininga á vegum þingflokkanna. Ég álít, að þm. eigi að vera betur launaðir en þeir eru nú og vinna þá meira að þingmálum sjálfstætt en þeir gera nú og það komi þannig fram í þeirra störfum hvers um sig og þeirra flokka, sem þeir starfa í, og til þess að þeir geti haft meira samband við fólk og atvinnulíf en þeir hafa tök á eins og nú er að þeim búið.

Ég vil, að formenn stjórnmálaflokka séu launaðir eins og ráðherrar, ef þeir gegna ekki ráðherrastörfum og þar með sé forusta í stjórnmálaflokkum gerð að aðalstarfi, eins og ég hygg, að víðast sé annars staðar, þar sem lýðræði og þingræði er í hávegum haft og menn skilja, til hvers ætlazt er af þessum. mönnum.

Ég álít, að þingtíminn eigi að lengjast frá því, sem nú er, árlegur þingtími, og ekki vera skemmri en t.d. 8 mánuðir á ári, og eigi að skipta honum niður í a.m.k. tvö tímabil með a.m.k. mánaðar millibili — eða þrjú tímabil. Með þessu móti mundi það bráðabirgðalagafargan, sem við búum nú við og hljótum að búa við, meðan þinghaldinu er hagað eins og nú er gert, geta orðið að mestu úr sögunni. En það vofir yfir sú stórkostlega hætta að óbreyttu fyrirkomulagi í þessu tilliti, að löggjafarvaldið verði að miklu leyti togað úr höndum Alþ. og yfir til ríkisstjórnanna. Ég er ekki í þessu sambandi að deila neitt sérstaklega á þessa ríkisstj. Það liggur hreinlega í eðli málsins, að eins og nú er háttað, þarf sífellt að vera að gera nýjar ráðstafanir og koma þurfa til greina ný löggjafaratriði, eins og þjóðfélagið er orðið. Því dregst löggjafarvaldið mjög úr höndum Alþingis, ef það situr ekki langtímum saman. Vinnunni á að haga þannig að mínu viti, að þingfundir séu ekki nema fjóra daga vikunnar, nema eitthvað alveg sérstakt sé um að vera, eins og víða er gert annars staðar, þar sem betri skipan er á þessum málum en hér. Þingmenn geta þá notað hina þrjá daga vikunnar til þess að ferðast í kjördæmi sín og hafa samband við kjósendur sína og til þess að líta eftir þeirri starfrækslu, sem þeir kunna að hafa tengsl við, og einnig noti þeir þennan tíma til þess að búa sig undir þá sérstöku vinnu, sem í fundahaldi Alþingis felst.

Með þessum endurbótum á þinghaldinu hygg ég, að margt mundi snúast til betri vegar og mörgum hættum verða afstýrt, sem nú vofa yfir. Fer ég ekki lengra út í það hér á þessum kvöldfundi, en ég vildi, að þetta kæmi fram nú í framhaldi af því, sem ég sagði í dag.

Þá vil ég, að það verði komið á jafnræði á milli ríkisstjórnar og stjórnarandstöðu varðandi framkomu í og afnota af sjónvarpi og útvarpi, en slíku er alls ekki til að dreifa, eins og nú er, og fréttaflutningur þessara stofnana verði miðaður við það sjónarmið, að það séu ekkert minni fréttir í því, sem stjórnarandstaðan segir og heldur fram, heldur en hinu, sem kemur frá ríkisstj. Það er lífsnauðsyn að fá breytingu á þessu, og hygg ég, að menn mundu sjá það, ef þeir settust niður og bæru saman bækur sínar öfgalaust og án nokkurs metings. Þetta þarf að komast á hér, eins og tíðkast víða annars staðar.

Loks er ein bending enn, sem ég vil koma á framfæri, fyrst ég fór að ræða þessi efni aftur, og það er að taka upp aftur að undirbúa mál í milliþinganefndum, eins og gert var áður fyrr og gaf alþm. mjög mikla möguleika til þess að hafa áhrif á löggjöfina; miklu meiri möguleika en þeir hafa nú, eftir að sá háttur hefur verið upp tekinn að undirbúa nálega öll mál í stjórnskipuðum nefndum, sem annaðhvort eru skipaðar sérfræðingum einum eða þá eingöngu alþm. og sérfræðingum úr stjórnarflokkunum. Þetta fyrirkomulag er að mínu viti mjög hættulegt, og ætti að breyta þessu aftur í gamla horfið, sem var það, að æðimörg af þýðingarmestu lagafrumvörpum voru undirbúin í milliþinganefndum, sem einhverjir alþm. sátu oft í og þá frá öllum stjórnmálaflokkunum, en sérfræðingar voru kvaddir til ráðuneytis, en ekki látnir setja einir upp lagafrumvörpin eins og nú tíðkast orðið of oft og er að mínu viti alveg röng starfsaðferð.

Sú breyting, sem orðið hefur á starfsháttum í þessu tilliti, hefur sett Alþingi niður og dregið vald úr höndum þess inn í embættis- og sérfræðingakerfið og ég vil segja að sumu leyti dregið valdið líka úr höndum ríkisstj. Ég held, að það mundi nýtast miklu betur fyrir ríkisstjórnirnar að hafa slíkar mþn. til að styðjast við en sumar af þeim sérfræðinganefndum, sem notaðar eru.

Það er ekki hægt að gera ráð fyrir því, að það verði miklar umræður um þessi atriði nú í sambandi við þetta mál, þó að ég tæki þann kost að koma þessu hér á framfæri. Ég hef eiginlega setið um tækifæri til þess að koma þessum sjónarmiðum

á framfæri í því trausti, að það gæti orðið til þess, að þessi mál væru eitthvað rædd í landinu, þessi undirstöðuatriði: hvaða gallar eru á starfsháttum, eins og þeir eru nú, og hvernig væri hugsanlegt að breyta til.

Það er sífellt verið að tala um, að völdin dragist úr höndum Alþ., og menn virðast standa í þeirri meiningu, að það séu helzt stjórnmálaflokkarnir, sem séu hættulegar stofnanir í því tilliti og eigi þátt í þessu. Frá mínu sjónarmiði er þessu alveg þveröfugt farið. Völdin dragast úr höndum Alþingis vegna þess, að þingflokkarnir, sem eru grundvöllur Alþ., eru ekki nægilega efldir til þess að þjóna hlutverki sínu í nútímaþjóðfélagi. Þingflokkarnir eru hluti af ríkiskerfinu, þótt þeir séu ekki hluti af embættiskerfinu. Þeir eru hluti af þeim þætti í ríkiskerfinu, sem á að vega mest, þ.e.a.s. Alþingi. En þá verður líka að búa þannig að þessum stofnunum, þingflokkunum, að hægt sé að gera kröfu til þess, að þeir ráði við verkefni sín, en það er óhugsandi að þeir ráði við þau nema endurbætur komist á. Þess vegna vildi ég nota tækifærið til þess að koma þessum bendingum á framfæri, en vona, að það gefist tækifæri síðar til þess að ræða þessi mál nánar.