04.04.1968
Neðri deild: 89. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1348 í B-deild Alþingistíðinda. (1223)

20. mál, kosningar til Alþingis

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Mér þykir leitt, að hæstv. forseti skyldi ekki geta fallizt á jafnsanngjarna ósk og fram kom frá hv. 1. þm. Norðurl. e. um það að fresta umr. að hans ósk sem frsm. minni hl. n., þegar svo er ástatt, að frsm. meiri hl. n. situr hér ekki þingfund og aðeins örfáir þm. gátu heyrt hans málflutning og rök. Mér fannst þetta ærin ástæða fyrir hæstv. forseta til að taka till. til greina um að fresta umr., svo að hann gæti komið rökum sínum á framfæri við m.a. frsm. meiri hl. og aðra þm., áður en búið væri að ganga til atkvgr. um till. þá, sem deilan stendur um. Að leyfa mönnum að tala um málið, eftir að búið er að ganga til atkvæða um till., það er tilgangslítið. En svo er búið að halda á þessu máli, að það er búið að láta frv., sem allir voru sammála um, liggja hér allan þingtímann, frá því um 20. okt., að ég hygg, þangað til komið er að þinglokum, svo að það telst ekki fært að verða við sjálfsögðum þingræðislegum óskum þm., af því að það er búið að halda þannig á málinu, að málinu sé stofnað í hættu, sjálfu ágreiningslausa málinu, ef farið sé að réttum þingsköpum og þm. gefinn kostur á að eiga orðastað á eðlilegan þinglegan hátt við þá, sem á greinir í málinu. Það er í slíka tímaþröng komið, að jafnvel svo mætur og réttlátur maður sem hæstv. forseti er, hann sér sér ekki annað fært en að brjóta þinglegan rétt á frsm. minni hl. Þetta harma ég, og ég tel, að þar sem það er ekki sök hæstv. forseta, að málinu er svo komið, hefði hann ekki átt að taka á sig þann ranglætiskross fyrir aðra að synja um slík sanngjörn og sjálfsögð tilmæli. Það eru aðrir, sem hafa haldið þannig á málum, að málið er komið í tímaþröng, og það var ástæðulaust fyrir hæstv. forseta að setja nokkurn blett á sinn forsetaheiður með því að synja um svo sjálfsagða réttlætiskröfu, sem fram var borin. Ekkert meira um það, það er búið að neita um þessa sjálfsögðu ósk og við það situr. Forsetarétturinn er hæstiréttur í hv. þd.

Hv. 1. þm. Austf. hélt hér aðra ræðu um þetta mál, en þó að hann talaði upp undir hálftíma, sá hann þó ekki ástæðu til að svara þeirri eindregnu og ákveðnu spurningu minni, sem ég beindi til hans, hvort hann legði svo mikið kapp á, að till. hæstv. dómsmrh. yrði nú látin ná fram að ganga, að hann gæti ekki séð sér fært að sætta sig við frestun á henni, þangað til almenn endurskoðun kosningal. gæti farið fram. Þessari spurningu svaraði hann ekki, og legg ég það þannig út, að honum sé framgangur till. dómsmrh. svo mikið kappsmál, að hann ljái ekki máls á frestun. Hins vegar ræddi hann nú öllu ýtarlegar en í fyrirlestri sínum í dag um ráðstafanir, sem hann taldi að gera þyrfti til þess að efla flokkana, gera þá sterkari, starfhæfari, og get ég játað það, að sumar af hans till. varðandi þau efni eru ekkert fjarlægar minni afstöðu, en þessar bollaleggingar allar snerta bara ekkert það deilumál, sem hér er til umr. Það er alveg út í hött. Hann sagðist hafa verið að leita að tækifæri til þess að koma þessum skoðunum sínum á framfæri, nú hefði hann gripið tækifærið. En það fellur á engan hátt inn í þetta mál með neinum eðlilegum hætti og er í raun og veru alveg út í hött, utan við það ágreiningsmál, sem hér er um að ræða. Þessar breytingar á löggjöf, sem hann ræðir þarna um að væru æskilegar til þess að efla og bæta starfsemi flokkanna, snerta á engan hátt kosningalögin, ekki á hinn minnsta hátt. Lagaákvæði í þá átt, sem hann ræddi um, yrðu áreiðanlegað vera flutt í sambandi við annað en lög um kosningar til Alþ. Ég fer því ekki fleiri orðum um það, en tel, að í stað þessara hugleiðinga hefði verið æskilegra, að hann hefði svarað spurningu minni.

Hæstv. dómsmrh. varð við ósk minni um að svara því, hvort hann gæti hugsað sér að taka till. aftur, og svaraði því umsvifalaust og neitandi, og það skal ég vissulega virða við hann. Ég hefði hins vegar óskað þess heldur, að hann hefði rökstutt það, hvers vegna hann gæti ekki orðið við slíkri ósk. Ég fæ ekki séð, að nein gild rök liggi fyrir því, að það verði að gera þessa breytingu á kosningal., sem hann leggur til. Sú breyting er ekki í þjónustu lýðræðis, það fer ekkert á milli mála. Hún er í anda flokksræðis, aukins flokksræðis, a.m.k. frá mínu sjónarmiði, og eins og ég hef þegar vísað til, andstæð skoðunum fjöldamargra mætra forustumanna stjórnmálaflokka á Íslandi a.m.k. tvisvar sinnum,1933 og 1959, og nú í andstöðu við skoðanir ungu kynslóðarinnar, sem ekki ætti hvað sízt að taka tillit til. Allt þetta leiðir til þess, að ég tel æskilegt, að meira svigrúm hefði gefizt til þess að skoða, hvort breytingar í þá átt, sem till. hæstv. dómsmrh. ganga í, séu yfirleitt æskilegar, og taldi ég eðlilegast, að sú athugun færi fram ásamt almennri endurskoðun kosningal.

Hæstv. dómsmrh. svarar því til, að allsherjarendurskoðun kosningal. hlyti auðvitað að taka til meðferðar ýmis atriði, sem ákveðin eru í stjórnarskránni, og það er hárrétt hjá honum. Og ef kosningal. yrðu tekin til allsherjarendurskoðunar, er það alveg sjálfgefinn hlutur, að þá yrði ekki lengur undan því komizt eða undan því svikizt að endurskoða stjórnarskrána. Því var lofað, þegar lýðveldi var stofnað á Íslandi 1944, að bráðabirgðabreytingarnar á stjórnarskránni þá skyldu aðeins vera til naumra bráðabirgða, en það hefur verið rækilega svikið. Við höfum ekki neina lýðveldisstjórnarskrá enn, við höfum lítt breytta hina gömlu konunglegu stjórnarskrá, og það hefur verið skipuð stjórnarskrárn. eftir stjórnarskrárn. og sendir menn með pomp og pragt land úr landi til þess að safna saman stjórnarskrám lýðvelda á ríkisins kostnað. En stjórnarskrárn. hafa lognazt út af án þess að koma svo mikið sem nafni á lýðveldisstjórnarskrá og ég spyr: Er ekki kominn tími til þess nú árið 1968 að standa við það loforð, sem gefið var við vöggu lýðveldisins, að lýðveldisstjórnarskrá skyldi verða samin, því að hin, sem sett var við stofnun lýðveldisins, var talin aðeins til naumra bráðabirgða. Þannig var það orðað. Ég hefði einmitt haldið, að það ætti ekki að vera neitt fráhrindandi tilhugsun, að nauðsynlegar breytingar, sem kynni að leiða af almennri endurskoðun kosningal. leiddu líka til gagngerðrar, almennrar og víðtækrar endurskoðunar á stjórnarskránni, þannig að við þó loksins á árinu 1968 fengjum lýðveldisstjórnarskrá, sem lofað var 1944. En það má ekki. Ef væri farið að breyta kosningal. almennt, endurskoða þau, mundi það leiða til hreytinga á stjórnarskránni, hún yrði tekin til endurskoðunar líka. Það ber að forðast enn. Hæstv. dómsmrh. færði það fram sem rök fyrir því, að ekki væri ráðlegt að geyma þessa breytingu til endurskoðunar kosningal., að af því hlyti að leiða, að menn færu þá að endurskoða stjórnarskrána líka. Ég heyrði ekki betur en hann segði þetta rétt áðan.

Svo vék hann að því, að hann vildi ekki láta kosningar eiga sér stað aftur upp á þau býti, að menn gætu ruglað kjósendur, eins og þeim hefði tekizt að gera í kosningunum í vor. Hverjum tókst að rugla kjósendur? Þeim, sem fóru með þær falskenningar, að annar listi borinn fram í nafni flokks væri ekki heimill samkvæmt gildandi lögum og væri þannig viðkomandi flokki óviðkomandi. Þeir, sem þessi falsrök báru fram, voru stjórn Alþb.-félagsins í Reykjavík og umboðsmenn G-listans í Reykjavík, en landskjörstjórn sýndi fram á með úrskurði sínum, sem hefur staðizt, að þessir fóru með rugl og þvætting, sem stangaðist við lög og voru marklaust fjas. Hvernig ætlast dómsmrh. til þess, að komið sé í veg fyrir þetta rugl? Með því að fallast á sjónarmið þeirra, sem ekki höfðu lögin með sér vorið 1967. Þeir vildu, að listi, sem þá var borinn fram, væri úrskurðaður utan flokka. Till. dómsmrh. er um það að gera þeim, sem eiga að ganga frá framboði innan flokkanna, auðvelt bara með mótmælum einum, kannske órökstuddum mótmælum, að gera slíka lista, sem nú eru úrskurðaðir flokkslistar, að utanflokkalistum, eins og hinir kröfðust. Þannig skal koma í veg fyrir ruglið. Það skal fallizt á sjónarmið kommúnistanna, sem vildu dæma I-listann utanflokkalista, þó að það stæðist ekki, þegar kom til úthlutunar uppbótarsæta samkvæmt úrskurði æðsta aðila í þessum málum, landskjörstjórnarinnar, og þó að Alþ., þrátt fyrir allt, treysti sér ekki til annars en að fallast á úrskurð landskjörstjórnarinnar um, að atkvæðamagnið skyldi falla Alþb. og úrskurða uppbótarþingsæti samkvæmt því. Slíkur glundroði skal ekki skapast aftur, segir hæstv. dómsmrh. Og það vill hann gera með því að auðvelda þeim, sem fóru með rugl og þvætting s.l. vor, að bera bara fram einföld mótmæli, og þá skal viðkomandi listi, eins og þeir vildu vera láta í vor, en gátu ekki að óbreyttum lögum, vera dæmdur utan flokka, skuli beint lögfesta fyrirmæli til landskjörstjórnar um það, að hafi mótmæli komið fram, skuli listi teljast utan flokka.

Ég tel, að það fari ekki neitt á milli mála að með þessu hafi hæstv. dómsmrh. tekið afstöðu með þeim, sem úrskurður landskjörstjórnar og Alþ. gekk gegn að óbreyttum lögum á s.l. hausti, þegar kjörbréf voru hér afgreidd, og það er þá gott, að það sé orðið upplýst. Nógu lengi hefur skikkjan verið höfð á báðum öxlum til þess að reyna að dylja þetta. En það var þetta samsæri flokkanna s.l. vor, sem ekki náði þá fram að ganga, vegna þess að landskjörstjórn lét ekki hafa nein áhrif á sig og úrskurðaði samkvæmt gildandi landsl., skýrum landsl., sem menn eru að tala um að séu svo óskýr, að þar verði um að bæta með breytingu lagaákvæða, sem er út í bláinn. Það er eins skýrt og verða má í gildandi kosningal., að ef fleiri en eitt framboð kemur fram í kjördæmi fyrir sama flokk, þarf þar ekkert til, til þess að það sé löglegt framboð, annað en að frambjóðendurnir sjálfir og meðmælendur framboðslistans lýsi því yfir, að listinn sé borinn fram fyrir ákveðinn flokk. Þá skal merkja listann eins og þar segir, A eða AA, B eða BB, eða G eða GG, og þannig var skýrt, að yfirkjörstjórn í Reykjavík átti að merkja þennan lista. Það var ekkert úrskurðaratriði fyrir hana, það voru skýr fyrirmæli í l. um það, að svona skyldi hún merkja listann, því að hann fullnægði öllum ákvæðum kosningal. Þessar yfirlýsingar fylgdu, bæði frá frambjóðendum og meðmælendunum með tölu, að þessi listi væri borinn fram fyrir Alþb., og þá átti að merkja hann á þann hátt, sem lögin segja, það er ekki hægt að misskilja.

Hér er kannske að því stuðlað, að minni hl. megi ekki verja sig fyrir ofríki og einstrengingsskap meiri hl. í flokkunum, þá skuli þeir fara úr flokkunum og að hér sé því verið að stíga það skref, sem neyði menn til að segja skilið við flokka, ef þeir verða fyrir slíku ofríki sem tilraun var gerð til þess að beita innan Alþb. s.l. vor. Og það er ekkert víst, að Sjálfstfl. eða Framsfl. sleppi betur frá þeim leik, þó að þeir nú stofni til hans. En verði þeim að góðu.