17.04.1968
Efri deild: 93. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1372 í B-deild Alþingistíðinda. (1239)

20. mál, kosningar til Alþingis

Frsm. minni hl. (Karl Guðjónsson):

Herra forseti. Frv. um breyt. á l. um kosningar til Alþ., sem hér liggur fyrir, er að stofni til eitt af fyrstu málunum, sem lagt var fyrir þingið, og þá fjallaði frv. eingöngu um að breyta kosningal. að því marki, sem leiddi af þeim stjórnarskrárbreytingum, sem hér hafa verið samþ. um að færa kosningaaldurinn úr 21 ári niður í 20 ár, og það er ekki vitað, að um það hafi verið neinn ágreiningur á Alþ. Samt sem áður hefur afgreiðsla málsins dregizt, svo sem sjá má, að það kemur nú til afgreiðslu í Ed. á allra seinustu dögum þingsins, því að fyrirhugað er, að þinginu ljúki í lok þessarar viku. Það, sem gerir það að verkum, er, að ríkisstj. lýsti því yfir í haust, að hún vildi fyrir sitt leyti standa að breytingum á kosningal. í þá átt, að ekki yrði leyft, að fleiri listar en einn yrðu í kjöri fyrir neinn einstakan flokk í sama kjördæmi. Hún hefur í ræðum og tillöguformi látið koma fram þessa skoðun sína, en skoðunin hefur mætt mikilli andstöðu hjá þjóðinni og ekki minni í flokkum ríkisstj. sjálfrar en utan þeirra. Þannig hafa ungir sjálfstæðismenn snúizt gegn þessari hugmynd og réttilega. Það er hér um að ræða þrengingu á lýðræðinu í landinu. Þeir hafa talið, að með þessari hugmynd og yfirlýsingu ríkisstj. væri verið að færa lýðræði landsins í flokksræðisátt meira en orðið er.

Í stjórnskipunarl. og í kosningal. eru flokkunum gefin viss réttindi, einkanlega í sambandi við úthlutun uppbótarþingsæta til jöfnunar í þá átt, að hver flokkur fái þingsæti í sem mestu samræmi við það atkvæðamagn, sem hann hlýtur. Auðvitað eru þetta mikil réttindi fyrir fólkið í landinu, og þau eiga að tryggja það, að hvert sjónarmið, sem sett er fram af einstökum flokki, fái sinn fulltrúa á löggjafarsamkomu þjóðarinnar í sem nánustu samræmi við það kjörfylgi, sem fram kemur í hverjum kosningum. Það er eðlilegt, að í lýðræðisþjóðfélagi séu flokkar, sem marki stefnumið og birti þau og kjósendurnir geti valið um þau. Það er á hinn bóginn nokkur þrenging á lýðræðinu, að hinn skipulagði kjósendahópur, þ.e.a.s. flokkarnir, skuli geta ákveðið það, þannig að litlir sem engir möguleikar séu eftir skildir utan við flokksstjórnarvaldið sjálft til þess að ákveða, hverjir eigi að fylgja málunum fram eftir þeim stefnuskrám, sem út hafa verið gefnar. Nú vitum við það, að í landinu eru bæði flokksbundnir og óflokksbundnir menn, með ákveðnar skoðanir þó. Ekki get ég vitað, hvert hlutfall er þarna á milli. En víst er þó hitt, að sá hluti kjörfylgisins í landinu, sem ekki skipar sér undir nein flokkslög, er miklu stærri en hinn, sem skipulagsbundinn er í einstökum flokkum.

Í lögum er nú og hefur lengi verið, að ekki sé nauðsynlegt, að viðkomandi flokksstjórnir hafi goldið samþykki við þeim framboðum til Alþ., sem fram koma og telja sig vilja framkvæma ákveðnar flokksstefnuskrár. Þannig hefur það iðulega komið fyrir, að fleiri en einn einstaklingur í einmenningskjördæmum og fleiri en einn listi í kjördæmum, þar sem listakosning er, en það er í þeim öllum á síðari árum, efni til framboðs og hefur þá kjörfylgið, hvort sem það var flokksbundið eða óflokksbundið, ráðið því, hvorir fulltrúarnir hafa komizt lengra eða náð kosningu á hverjum stað hverju sinni. Þetta er þess vegna rúmt lýðræði, og ég hef ekki heyrt neinn halda því fram, að þetta hafi á einn eða neinn hátt gefizt illa. En sem sagt, ríkisstj. gaf út þá fyrirætlun í haust, að þessu vildi hún breyta og gefa flokkunum meira vald en þeir áður höfðu. Þess vegna er komin hér í þetta frv., sem allir virtust áður sammála um, ný grein, sem kveður svo á, að ef ein flokksstjórn eða ef sá aðilinn í einhverjum flokki, sem þar hefur hlotið umboð til þess að framkvæma uppstillingar eða framboð, koma fram framboðum, mótmæli einhverju öðru framboði, skuli það dæmast utan flokka og vera þannig sett út af sakramentinu, ef svo mætti segja, við úthlutun uppbótarþingsæta. Enginn vafi er á því, að hér er um þrengingu á lýðræðinu að ræða. Hér er tilfærsla á því, að hið óbundna kjörfylgi geti notið sín, og valdið fært í hendur flokksstjórnanna eða þeirra stofnana í einum flokki, sem eftir lögum hans hafa með framboðin að gera. Þessu er ég mótfallinn og sé enga ástæðu til þess að skerða lýðræðið í landinu á þennan hátt. Annað er það í þessari gr., sem nú er 4. gr. frv., eins og það liggur fyrir, sem ég tel með öllu ósæmilegt, en það er það atriði, að Alþ. afhendi einstökum stjórnmálaflokkum vald til þess að ákveða um framboð, og það er engin trygging fyrir því, að það muni ekki verða framkvæmt á mismunandi máta í hinum einstöku flokkum. Ég tel það skyldu Alþ. að ákveða, hvernig kosningar skuli ákveðnar, hvernig kjörreglur skuli ákveðnar, og þetta eigi að gera með landslögum og þetta eigi ekki að vera mismunandi eftir því, sem ákveðið verður í hinum einstöku stjórnmálaflokkum. Mér finnst það fráleitt, að Alþ. gefi þannig einstökum flokkum óbundnar hendur með að ákveða það, hvernig staðið verður að framboðum, en í þessari frvgr., 4. gr., segir: „Ef sá aðili, sem samkvæmt reglum flokks er ætlað að ákveða framboðslista, eða staðfesta framboðslista endanlega, ber fram mótmæli gegn því, að listi sé í framboði fyrir flokkinn, skal úrskurða slíkan lista utan flokka og landskjörstjórn úthluta uppbótarþingsætum í samræmi við það.“ Auðvitað þýðir þetta það, að þeir flokkar, sem kunna að vilja lofa einnig hinum óflokksbundna hluta kjörfylgisins að njóta sín, eins og verið hefur, geta sleppt öllum slíkum reglum. Aðrir flokkar geta sett þær, og þá er aðstaðan milli flokka orðin mismunandi. Ég vil benda hv. alþm. á, að mjög getur það orkað tvímælis, að sæmilegt sé af Alþ. að fara þannig að, að óflokksbundið kjörfylgi, sem þó styður stefnuskrá einhvers ákveðins flokks, skuli hafa mismunandi möguleika til þess að gera álit sitt gildandi eftir því, hvort það er stefnuskrá Sjálfstfl., Alþb., Framsfl. eða Alþfl., sem hún styður. Áður en hv. alþm. taka ákvörðun um þetta, að Alþ. gefi þetta atriði frá sér og eftirláti það flokkunum, vildi ég brýna þá til þess að hugleiða málið, hugleiða það, hvort það samrýmist þeirra skyldu sem löggjafa að gefa atriði eins og þetta alveg laust og eiga það á hættu, að um þetta gildi mismunandi reglur í hinum einstöku flokkum, eins og þær gera nú. En með því að lögfesta gr. eins og hún er, þá er visst löggjafaratriði og hreint ekki lítilvægt gefið upp af Alþ. og fengið flokkunum, og þeir geta ráðskað með það og hagað því eftir vild sinni. Og það er engin trygging fyrir því einu sinni, að þeir myndi neina hefð í þessu. Þeir geta breytt lögum sínum og reglum, eftir því sem þeim hverju sinni finnst bezt henta.

Þessi tvö atriði eru það, sem ég vil vekja athygli á, og mín skoðun er sú að Alþ. eigi hvorkí að þrengja lýðræðið í landinu né heldur að gefa frá sér til flokkanna ákvörðun um það, með hverjum hætti skuli staðið að kosningum, og þess vegna hef ég lagt til, að 4. gr., sem nú er í frv., verði felld.