28.11.1967
Efri deild: 24. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 194 í B-deild Alþingistíðinda. (126)

65. mál, verðlagsuppbót á laun og vísitala framfærslukostnaðar

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Frv. þetta hefur hlotið greiðan framgang í hv. Nd., þó að um það sé eðli málsins samkv. mikill efnislegur ágreiningur og vona ég, að þó að slíkur ágreiningur sé vafalaust einnig fyrir hendi í þessari hv. d., þá greiði hún fyrir því, að málið fái skjóta afgreiðslu.

Undanfarnar vikur hefur verið um það mikill ágreiningur, hvort greiða ætti verðlagsuppbót vegna þeirra verðhækkana, sem urðu í októbermánuði, þegar ríkisstj. taldi sér óhjákvæmilegt að hætta við niðurgreiðslur á nokkrum landbúnaðarafurðum og gerði aðrar ráðstafanir til að tryggja hag ríkissjóðs og standa á móti óeðlilegum verðsveiflum í landinu. Nú hefur orðið samkomulag, ef svo má segja, um það, að þessi ágreiningur leysist nú, hinn 1. des., með þeim hætti, sem í fyrri hl. 1. gr. þessa frv. segir, að þessar verðhækkanir verði bættar upp hinn 1. des., en samkv. þeim reglum, sem liggja til grundvallar nýrri vísitölu, sem unnið hefur verið að að undanförnu og verkalýðshreyfingin hefur að athuguðu máli talið sér til frambúðar hagkvæmari en þá vísitölu, sem hingað til hefur gilt. Af hálfu ríkisstj. er því að vísu yfir lýst, að hún óttast að nokkru afleiðingar þeirra kauphækkana, sem með þessu móti verða, að þær muni skapa aukna hættu á verðþenslu og gera atvinnuvegunum erfitt fyrir. Hins vegar, eftir að vitað var, að gengisfelling var óumflýjanleg vegna þeirrar atburðarásar úti í heimi, sem við ekki réðum með nokkru móti við, þá má segja, að atvinnuvegunum hafi skapazt svigrúm til þess, a.m.k. um sinn, að geta greitt þessa kauphækkun, enda er á það að líta, að verðlag hefur staðið óbreytt frá því í ágúst 1966, og nú má segja, að tímamót séu, og er þá mikils um það vert, að hið nýja tímabil geti hafizt án þess að því séu samfara, a.m.k. þegar í upphafi, stórkostlegar deilur, sem mjög mundu draga úr líkum fyrir því, að þessi tilraun takist.

Með þeirri kauphækkun, sem hér er gerð till. um, skapast aftur á móti eins konar hlé, sem gerir mögulegt, að kannað sé til hlítar, hvort fram hjá stórátökum verði komizt. Að öllu athuguðu er ekki vafi á, að það er ekki einungis verjanlegt, heldur hyggilegt að gera þær ráðstafanir, sem í fyrri hl. 1. gr. segir. Eins hygg ég, að það sé enginn ágreiningur um 2. gr. frv., sem ætlast til þess, að áfram haldi útreikningur framfærsluvísitölunnar. Hvað sem verður um sjálfkrafa hækkun kaupgjalds, þá er það eðlileg hagfræðileg upplýsing, að gögn séu fyrir hendi um, hvílíkar verðlagsbreytingar séu í landinu og er þá ætlazt til, að fylgt sé þeim sömu meginreglum, sem ég gat áður um og segja má, að aðilar hafi nú komið sér saman um, að gefi réttari mynd en þær gömlu reglur, sem fylgt var.

Af því leiðir einnig ákvæði 3. gr., að hætt er við útreikninginn skv. þeim gömlu reglum.

Hins vegar er ágreiningur í sambandi við þetta frv. um síðustu málsgr. 1. gr. og það ákvæði 4. gr., að verðtryggingarlögin frá 1964 falli úr gildi. Það hefur verið hafður ýmislegur háttur á reglum um verðlagsuppbætur á undanförnum árum. Stundum hafa þær verið lögboðnar, í öðrum tilfellum hafa þær verið beinlínis lögbannaðar. En þegar þannig stendur á, að samningar um sjálft grunnkaupið eru frjálsir, þá virðast þessar sérreglur um verðlagsuppbæturnar sannast að segja vera þýðingarlitlar, vegna þess að þá geta aðilar komið sér saman um að draga mjög úr áhrifum þeirra, a.m.k. er það ljóst varðandi það, að þær eigi algjörlega að banna. Reynslan hefur sýnt, að ef slíkt bann er lögboðið, þá hafa aðilar því oftar samið um grunnkaupshækkanir og með þessu móti ýtt undir óstöðugleika í verðlagi, sem menn vildu koma í veg fyrir með þessu banni á sjálfkrafa hækkunum vegna vísitölu. Þess tjáir ekki að dyljast, að vegna gengislækkunarinnar fer í hönd mikill verðbreytingatími. Það er auðvitað mjög nauðsynlegt, að allt verði gert, sem hægt er, bæði til þess að halda niðri almennu verðlagi á þessu tímabili og eins að gera ráðstafanir, sem leiði til þess, að verðhækkanir komi eins lítillega niður á þeim, sem lakast eru staddir í þjóðfélaginu, og unnt er. Þvílíkar ráðstafanir vona ég, að samkomulag geti orðið um, en hins vegar hefur ríkisstj. talið, að á þessum tíma, meðan þessi verðbreytingaalda stendur yfir, væri það hættulegt að hafa ákvæði um sjálfkrafa kauphækkanir vegna vísitöluhækkunar, en eins væri þýðingarlítið að banna þetta, vegna þess að ef aðilar vilja ekki lúta slíku banni, þá geta þeir farið í kringum það. Þess vegna ber að leggja á það höfuðkapp, að aðilar geti komið sér saman um þetta mál, fundið með samningum einhverja þá lausn, sem báðum aðilum sé fullnægjandi. Vafalaust tekst það ekki örðugleikalaust, en sökum þeirrar nauðsynjar, sem fyrir hendi er, þá má engan veginn fyrir fram telja vonlaust, að slíkt geti tekizt.

Því hefur stundum verið haldið fram, að ef nú væru felld niður ákvæðin um verðtryggingu kaups, sem sett voru 1964, þá væri þar með verið að brjóta hið svokallaða júní-samkomulag. Þetta fær ekki með nokkru móti staðizt, bæði er það í ósamræmi við orðalag samkomulagsins sjálfs, sem undirritað var hinn 5. júní 1964, og eins brýtur það mjög í bága við þær yfirlýsingar, sem ég gaf, þegar ég mælti með verðtryggingarfrv. á Alþ. í okt. 1964. Hitt verður svo að játa, að það er auðvitað harðhent ákvörðun, sem menn taka ekki nema til knúnir, að fella slík ákvæði úr gildi varðandi liðinn tíma, eins og menn töldu sig að nokkru leyti til knúna með frv. um efnahagsaðgerðir, sem miklar deilur hafa staðið um að undanförnu. Ég tel það mikinn kost, að með þeim till., sem hér liggja fyrir, komast menn fram hjá þeim deilum, sem þá höfðu upp risið. Nú er ekki hægt að segja, að komið sé nokkrum að óvörum, heldur hafa aðilar það algjörlega í eigin hendi að gera þær ráðstafanir, sem þeir telja nauðsynlegar sjálfum sér til öryggis. Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fjölyrða meira um frv. Ég legg til, að því verði vísað til 2. umr. og hv. fjhn.