28.11.1967
Efri deild: 24. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 202 í B-deild Alþingistíðinda. (128)

65. mál, verðlagsuppbót á laun og vísitala framfærslukostnaðar

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Það frv., sem hér er til umr., fjallar um verðlagsuppbót á laun og um vísitölu framfærslukostnaðar. Þar eru settar fram aðallega tvær till. hæstv. ríkisstj. um hreyt. á gildandi l. um verðtryggingu launa.

Það er í fyrsta lagi lagt til, að verðlagsuppbótum á laun og öðrum vísitölubundnum greiðslum verði breytt á þann hátt, að 1. des. n.k. miðist þær við nýjan vísitölugrundvöll að mestu leyti. Samkv. þessum till. á verðlagsuppbótin að hækka um 3.39%. Ef hins vegar eldri vísitalan hefði verið notuð, þá skilst mér, að hækkunin hefði orðið rúmlega 6%.

Hin aðalbreytingin í þessu frv. er sú, að eftir þessa tímasetningu, eftir 1. des., verði hætt að reikna út kaupgjaldsvísitölu og fellt úr lögum ákvæði um vísitölubætur umfram það, sem nú er tekið inn. En í staðinn fyrir lögákvörðun þess er gert ráð fyrir því, að stéttarfélögin og atvinnurekendafélögin geti gert samninga, bæði um breytingar á grunnkaupi, eins og verið hefur, og einnig á vísitöluuppbótum. Hér er sem sagt, eins og bent hefur verið á, lagt til að fara inn á nýjar brautir í þessum málum og hverfa frá þeirri skipan, sem lengst af hefur verið við lýði frá því 1939, að ég held, að fyrst var sett á tenging milli kaupgjaldsins og verðlagsins. Allan tímann frá 1939 og til 1960 hygg ég, að þetta fyrirkomulag hafi gilt, að kaup hækkaði eftir því sem framfærslukostnaður hækkaði eftir þar til gerðri vísitölu. En með gengisbreytingunni eða efnahagsráðstöfunum 1960 var, eins og kunnugt er, horfið frá þessu ráði í samræmi við þá yfirlýstu stefnu hæstv. ríkisstj., að hún mundi ekki hafa afskipti af kaupgjaldsmálum, að launamál ættu að vera samningsatriði milli vinnuveitenda og launþega. Þar ætti enginn annar nálægt að koma, hvorki með lagasetningu né á annan hátt. Því hefur verið lýst hér, m.a. af hv. síðasta ræðumanni, og raunar viðurkennt af hæstv. forsrh. í framsöguræðu hans hér áðan, að aldrei hefðu verið örari breytingar á vinnumarkaðinum, aldrei meiri ófriður og aldrei meiri hækkanir. Og ég tók svo eftir, að hv. 4. þm. Norðurl. e. lýsti því þannig áðan, að á árinu 1963 eða um það bil sem þetta fyrirkomulag var að ganga sér til húðar, voru þrenn erfið verkföll, eins og hann orðaði það, og endaði með allsherjarverkfalli í lok þess árs.

Þetta er sú reynsla, sem við höfum fyrir framan okkur af því fyrirkomulagi, sem nú er lagt til að taka upp.

Með margrómuðu júní-samkomulagi var breytt hér til, þá var á nýjan leik tekið upp sambandið milli kaupgjaldsins og verðlagsins. Þeir, sem að þessu samkomulagi stóðu, hafa fram undir þetta a.m.k. mjög keppzt um að róma ágæti þess og þá ekki sízt hæstv. ríkisstj. Hún telur það eitt af sínum allrabeztu verkum. Má vera, að það sé, það er nú kannske ekki svo erfið samkeppnin í því tilliti. Og forustumenn verkalýðshreyfingarinnar hafa einnig lýst því yfir, nú síðast í þessum umr., að síðan horfið var frá skipulaginu, sem gilti samkvæmt I. síðan 1960 og tekið upp sambandið milli kaupgjalds og verðlags, hafi orðið meiri friður á vinnumarkaðinum en áður var, og ekki einungis það, heldur líka að kaupmáttur launanna hafi þá farið nokkuð að jafna sig, en hann hafði hríðlækkað á viðreisnartímabilinu allar götur þangað til.

Hv. þm. Eðvarð Sigurðsson lýsti þessu greinilega í hv. Nd. í gær. Hann sagði, — ef ég hef tekið rétt eftir, — að kaupmáttur tímakaups hafi oftast nær verið lægri á viðreisnartímabilinu en hann var 1959, en nú væri hann orðinn svipaður, og hann vildi þakka það júní-samkomulaginu. Menn hafa viljað gera mikinn greinarmun á því, og hæstv. forsrh. gerði greinarmun á því hér áðan, hvort í lögum væri bann við því að semja um verðlagsálag á laun eða hvort það væri leyft. Í mínum huga er ekki verulegur munur á þessu. Eftir þessa breytingu, verða verkalýðsfélögin að semja við atvinnurekendurna, bæði um grunnkaupshækkanir, sem má hugsa sér, að leitt gætu af auknum þjóðartekjum, skulum við segja, eða aukinni framleiðni, sem mikið er nú talað um, eða einhverju slíku, í einhverri tiltekinni atvinnugrein, og auk þess þær afleiðingar, sem fram hafa komið vegna almennrar verðhækkunar í landinu.

Fyrir launþega er enginn munur á því, hvað af kaupi hans er kallað grunnlaun og hvað er kallað verðlagsuppbót. Það, sem hann hlýtur að keppa að í sínum samningum, er ekkert annað en það að hafa nægilegt til sinnar framfærslu. Og ég held, að það hljóti að leiða af hlutarins eðli, að því meira sem á milli ber, því meira sem launþeginn þarf að sækja undir vinnuveitandann í samningum, þeim mun erfiðari verði þeir samningar. Enda er það samhljóma álit þeirra forustumanna verkalýðsfélaganna, sem hér hafa sagt álit sitt um þetta frv., að það muni síður en svo verða til þess að treysta vinnufrið. Ég tók svo eftir, að hæstv. forsrh. talaði um samkomulag við verkalýðsfélögin eða Alþýðusambandið um þetta frv., að einhverju leyti a.m.k., en því var nú mótmælt af hv. síðasta ræðumanni, og ég hygg, að það sé mála sannast, að hér sé því miður alls ekki neinu samkomulagi til að dreifa. Krafa sú, sem ASÍ og BSRB settu fram í viðræðum sínum við hæstv. ríkisstj. um efnahagsmálafrv. eða efnahagsaðgerðafrv. hæstv. ríkisstj., sem nú hefur verið lagt til hliðar, í bili a.m.k., var, að tengslin milli kaupgjalds og verðlags héldust óbreytt. Það var grundvallarkrafa og augljóst er, að þetta frv., sem hér um ræðir, uppfyllir ekki þá kröfu, heldur þvert á móti fellir niður þessi tengsl, gerir ráð fyrir því að afnema þau að öllu með lögum. Hins vegar er það auðvitað rétt, að ASÍ hefur í bili frestað eða fallið frá þeim verkfallsboðunum, sem búið var að ákveða, miðað við 1. des. Og hv. síðasti ræðumaður orðaði það svo, að þetta frv. fullnægði í bili þeim kröfum, sem ASÍ setti fram.

Ég verð nú að segja það, að ég tel, að stjórn ASÍ hafi sýnt ákaflega mikinn samningsvilja, þegar hún getur lýst því yfir, að þetta frv. fullnægi kröfum hennar, og ég tel þá, að þeir séu búnir að slá verulega af sínum kröfum vegna þess, eins og ég sagði áðan, að þær bætur, sem ákveðið er að reikna á launin, eru aðeins 3.4% í stað þeirra 6%, sem eldri vísitölureikningur sýnir, að launþegar eiga kröfu til. Auk þess upplýsti hv. 4. þm. Norðurl. e., að eftir væri að koma u.þ.b. 1% verðhækkun sem afleiðing af verðhækkun undanfarinna vikna eða mánaða, og ekki verður hún bætt. Það er sjáanlegt.

Það er auðvitað mikilsvert, að vinnufriðurinn er tryggður í bili, sízt ætla ég að gera lítið úr því, en ég hef oft sagt, að lögfesting þessa frv. tryggi það ekki til frambúðar, heldur öðru nær. Og ég hygg, að það sé mjög rétt, sem hér var sagt áðan, að einhvers konar samband milli framfærslukostnaðarins og kaupgjaldsins sé óhjákvæmilegt í kaupsamningum, ekki einungis fyrir launþegann eða fyrir vinnusalann, heldur einnig fyrir atvinnurekandann, fyrir vinnukaupandann. Það eru ákaflega fljótar að tapast fjárhæðir, sem jafngilda einhverjum lágum prósentuálögum á laun, ef til vinnustöðvunar kemur. Það hygg ég, að reynslan hafi þráfaldlega sýnt og að vinnustöðvanir eru sjálfsagt, þegar til lengdar lætur, hvorugum til góðs, hvorki þeim, sem telur sig fara með sigur úr þeim hildarleik, þaðan af síður hinum, sem bíður lægra hlut. Þjóðhagslega eru þau óæskileg, og afnám sambandsins milli kaupgjalds og verðlags eykur líkurnar, að ekki sé meira sagt, á því, að til þessara óhappaverka kunni að koma.

Þessi 3.4%, sem frv. fjallar um, eiga að bæta þær verðhækkanir, sem orðið hafa frá 1. ágúst til 1. nóv. Það er afnámið af niðurgreiðslum á landbúnaðarvörum og ýmsar aðrar hækkanir, sem í þess kjölfar hafa fylgt. Eftir sem áður eru því allar afleiðingar gengislækkunarinnar óbættar. Nú segja sumir, að hækkun á verðlagi vegna gengisbreytingarinnar verði rúmlega 6%, 7% segja aðrir. En ég veit ekki um neinn, sem hefur séð þá útreikninga, sem liggja til grundvallar því, að þessum tölum er slegið föstum. A.m.k. hef ég ekki séð þá. Vafalaust eru þeir til. Vafalaust hefur hæstv. forsrh. þá undir höndum. En mér leikur nokkur forvitni á því að vita, hvernig þessi verðhækkun er reiknuð. Eins og kunnugt er, hafa löngum fylgt í kjölfar gengisbreytingar margs konar svokallaðar hliðarráðstafanir, sem hafa átt að jafna byrðarnar, draga úr óþægindunum, þar sem þau voru sárust, og færa gjöldin yfir á aðrar herðar, sem í bili a.m.k. voru betur til þess fallnar að bera þær. Þessar hliðarráðstafanir hafa enn þá ekki að nokkru marki séð dagsins ljós, og ég skil ekki, hvernig hægt er að reikna út verðhækkun af gengislækkun, nema að vita þessar hliðarráðstafanir. Ef sérfræðingar hæstv. ríkisstj. hafa talið sig geta reiknað út þessa hækkun, þá hlýtur það að liggja í því, að þeir viti um þessar hliðarráðstafanir, þó að þær séu enn ekki látnar uppi. Hvað verður t.d. um tollana? Hvernig verður verðtollsákvörðunin, sem í kjölfar þessarar gengisfellingar fylgir? Það hlýtur að vera grundvallandi atriði um útreikning á verðhækkun vegna breytingarinnar. Ætlar ríkissjóður að ætla sér allar þær auknu tekjur eða verða þær notaðar til þess að draga úr sárustu áhrifum gengisbreytingarinnar? Manni sýnist nú, ef sú tilhögun á að gilda, þá sé nú hlutur ríkissjóðs sæmilega tryggður, en í tilefni af því, sem var rætt hér áðan um verðstöðvun og ýmislegt í því sambandi, þá minnist ég þess nú, að fyrir nokkrum dögum var t.d. afsagnarkostnaður af víxlum hækkaður talsvert. Það bendir ekki til þess, að ríkissjóði eða hæstv. ríkisstj. finnist hlutur ríkissjóðs enn þá vera nægilega góður. Ég á alls ekki von á því, að afsagnarkostnaður hækki vegna erlendra áhrifa, ég get ómögulega fundið sambandið þar á milli. Þess vegna hlýtur það að vera af öðrum ástæðum, og spurningin, sem vaknar t.d. í þessu sambandi, er þá, hvort ráðgert er að hækka aðrar aukatekjur ríkissjóðs eða ekki. Einnig þetta, þó að í smáum stíl sé, hefur áhrif á það, hver verðhækkunarafleiðingin af gengisbreytingunni verður, og svo margir, fjöldamargir aðrir liðir.

Hér er sagt, að verkamönnum, sjómönnum og iðnaðarmönnum og öðrum, sem taka kaup samkvæmt sérstökum samningum við atvinnuveitendur, sé svo sem enginn vandi á herðum, enginn sérstakur vandi. Þeir hafi alltaf samningsréttinn. Þeim er vísað á atvinnurekandann til þess að ná fram nauðsynlegum kaupbótum.

En það eru ýmsir fleiri, sem gengislækkunin og verðhækkanirnar af hennar sökum snerta illa, þ. á m. sumir, sem alls ekki hafa þó þennan verkfallsrétt, þennan samningsrétt og verkfallsrétt. Hver á t.d. að verða hlutur opinberra starfsmanna, starfsmanna ríkisins, starfsmanna bæjanna og sveitarfélaganna? Þeir hafa engan samningsrétt um sín kjör. Þeir hafa engan verkfallsrétt. Og þeir eiga ekki einu sinni að fá fulltrúa í nýrri verðlagsnefnd til þess að gæta hagsmuna sinna. Jafnvel svo lítilli bón ætlar hæstv. ríkisstj. að neita. Og mig furðar mjög á því, að hæstv. viðskmrh. skyldi vera svo óbilgjarn hér áðan að neita þeim hógværu tilmælum, sem fram hafa komið frá þessum stóra og þýðingarmikla starfsmannahópi, 5000 manns, að neita honum um alla aðstöðu til þess að hafa áhrif á verðlagið og á þann hátt að bægja frá sér helztu agnúum gengislækkunarinnar, þegar það liggur fyrir, að þessir menn hafa enga möguleika til þess að koma sínum málum sómasamlega fyrir. Að vísu er hér kjaradómur eða hvað hann er kallaður. En reynslan af honum er, eins og allir vita, sú, að launabætur þessara manna koma langt á eftir og eru yfirleitt heldur smátt skammtaðar. Það kemur ekki þessu máli við, má segja, það frv. sem hér var til umr. áðan um nýja skipun á verðlagsnefndinni. Ég get tekið undir það, sem hér var sagt, að það er auðvitað engin frágangssök að breyta skipan verðlagsnefndarinnar á þann hátt, sem þarna er ráðgerður. En þó er þar að vísu ein tilhneigingin enn til þess að taka valdið af Alþ., og ég vil nú segja það fyrir mitt leyti, að mér finnst vera allt of langt gengið í því nú á síðustu tímum að minnka vald Alþ. Það er meira að segja svo langt gengið, að n., sem kosin er af Alþ. fyrir viku síðan, er á einum sólarhring gerð óvirk, hún fær frí, henni er lagt við stjóra eins og í eitt ár til að byrja með og þessum málum skipað með öðrum hætti. Og svo kemur það þar að auki, að sanngjarnri kröfu frá mjög stórum hópi launþega BSRB, er vísað frá. Mér finnst þetta ekki skemmtileg vinnubrögð, og mér finnst það ekki sýna góðan hug hjá hæstv. ríkisstj. til þessara undirmanna sinna að ætla þeim ekki betri hlut en hér er um að ræða.

En það eru fleiri, sem gengislækkunin snertir en félagar í ASÍ og BSRB. Það eru allir þeir, sem taka bætur samkv. almannatryggingalögum. Þeirra bætur, þeirra kaup er einnig miðað við verðlagið og verður að vera það af ástæðum,sem allir hljóta að sjá. Hér mun vera um að ræða í mörgum tilfellum þá, sem allraminnst hafa fyrir sig í þjóðfélaginu að leggja. Þeirra kjör hafa verið látin fylgja vísitölunni, að vísu með sérstökum hætti, en sú trygging, sem þeir hafa fyrir því að verða ekki undir í lífsbaráttunni að þessu leyti, fellur niður. Ég get ekki trúað því, að hæstv. ríkisstj. ætli sér að láta þau mál þannig skipast. Hér hlýtur að vera um að ræða eina af þessum hliðarráðstöfunum, sem hæstv. ríkisstj. ætlar sér að gera. Það er eitt af góðu áformunum, sem gengur svona hægt að koma í framkvæmd. En það er alveg ljóst, að við svo búið geta bótaþegar ekki unað, og hér hljóta að verða til að koma miklar lagfæringar.

Það er náttúrlega margt, sem gæti verið ástæða til að ræða í sambandi við þetta mál, því að vísitalan hefur áhrif svo ákaflega víða, og uppbæturnar hafa verið trygging svo margra fyrir því að kaffærast ekki í verðbólguflóðinu. En með því að tíminn er, eins og löngum, þegar leita þarf til Alþ., næsta takmarkaður, þá skal ég reyna að takmarka mál mitt við mjög fá atriði og nánast einungis þau, sem þegar hafa verið nefnd.

Þó er það eitt atriði, sem mig langar til þess að geta um, áður en ég lýk máli mínu að þessu sinni og beina þá þeirri fsp. til hæstv. ráðh., hæstv. forsrh. eða annarra þeirra ráðh., sem því kunna að vilja svara, hvað fyrirhugað mun vera með húsnæðismálalánin. Er áformað að halda áfram að láta afborganir og vexti miðast við einhverja framfærslukostnaðarvísitölu, eða verður breyting þar á gerð? Það má segja, að hægt sé að réttlæta það, að afborganir og vextir af þessum lánum hækki með hækkandi verðlagi, meðan launin hækka sjálfkrafa um jafnháa upphæð eða jafnháa prósentu. En eftir að sambandið milli kaupgjaldsins og verðlagsins er skorið í sundur, þá er augljóst, að hér er um stórkostlegt ranglæti að ræða, ekki sízt þar sem ekki hefur enn þá tekizt, þrátt fyrir lög frá Alþ. þar að lútandi, að koma á verðtryggingu annarra fjárskuldbindinga. Þeir, sem byggja nú og taka lán úr almenna veðlánakerfinu, eru eins og sakir standa hinir einu og hafa verið það síðan 1964, sem hafa orðið að borga vísitöluálag á vexti og afborganir af lánum sínum, og ég hygg, að það sé nú augljóst mál, að margir þeirra a.m.k. flestir, mundi ég vilja segja, eru mjög illa undir það búnir að mæta því, jafnvel þó að verðlagsuppbót væri greidd á laun, hvað þá heldur þegar á að taka hana af, og skella á 24.6% gengislækkun, hækka erlendan gjaldeyri um 33% í verði með þeirri stórkostlegu verðhækkun, sem af því hlýtur að leiða. Sérfræðingar ríkisstj. segja 7%, en allir aðrir draga þá tölu í efa og telja víst, að hækkunin verði miklu hærri.

Af þeim fáu orðum, sem ég hef hér sagt, er það auðvitað ljóst, að ég er algjörlega andvígur þessu frv. og mun greiða atkv. á móti því. Í frv. eru þó viss atriði, sem eru til bóta, þ.e.a.s. frá þeim fyrirætlunum, sem uppi hafa verið um ráðstafanir þessara mála, og fengið er samþykki ASÍ a.m.k. fyrir því að sætta sig við þessa verðlagsuppbót 1. des., sem þarna er ráðgerð. Þó að hún sé nú að mínum dómi engan veginn fullnægjandi, þá mun ég freista þess að flytja við frv. nokkrar brtt. til þess að reyna að koma því í það horf, að það sé viðhlítandi vegur að fylgja því. Þær brtt., hygg ég, að muni vera eitthvað svipaðar og minni hl. fjhn. hv. Nd. flutti, en það mun nú koma í ljós að skammri stundu liðinni.