08.04.1968
Efri deild: 84. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1397 í B-deild Alþingistíðinda. (1289)

89. mál, verslunaratvinna

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Í fjarveru hæstv. dómsmrh. vildi ég með örfáum orðum gera grein fyrir þessu frv.

Ákvæðin um verzlunaratvinnu eru nú orðin allgömul og miða að nokkru leyti við annað þjóðfélagsástand heldur en við búum nú við. Aðalfyrirmælin eru frá 1925, sum frá 1907 og árunum þar á milli. Þess vegna var það, að á árinu 1964 skipaði atvmrn. n. til þess að endurskoða þessa löggjöf, og áttu í henni sæti fulltrúar Félags íslenzkra stórkaupmanna, Sambands ísl. samvinnufélaga, Neytendasamtakanna og Kaupmannasamtaka Íslands og svo deildarstjóri í atvmrn. Þessir aðilar hafa orðið sammála um það frv., sem hér liggur fyrir. Vegna gamallar verkaskiptingar, sem. hefur tíðkazt alllengi, er það svo, að þó að málið formlega heyri undir atvmrn., hefur þessi grein í starfi atvmrn. verið lögð undir dómsmrh., bæði í núv. ríkisstj. og nokkrum fyrri ríkisstj.

Um þetta varð, eins og ég segi, samkomulag í n. og ekki verulegur ágreiningur um það í hv. Nd., og vildi ég mælast til þess, að frv. fengi vinsamlega athugun einnig hér í þessari hv. d. Ég hygg, að það hafi verið hjá allshn. í Nd., ekki þori ég að ábyrgjast það, vegna þess að málið hefur ekki heyrt undir mig, þó að ég geri hér grein fyrir því í fjarveru dómsmrh. En ég vil samt mælast til þess, að frv. verði vísað til 2. umr. og þá hv. allshn.