19.04.1968
Efri deild: 97. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1398 í B-deild Alþingistíðinda. (1291)

89. mál, verslunaratvinna

Frsm. (Sveinn Guðmundsson):

Herra forseti. Allshn. hefur haft til meðferðar frv. til l. um verzlunaratvinnu, 89. mál Nd. Umsögn n. liggur fyrir á þskj. 657. Hefur n. orðið sammála að mæla með frv. óbreyttu, eins og Nd. hefur gengið frá því, en Nd. gerði breytingu á 4. gr., sem miðar að því að létta skilyrði til verzlunarleyfa, sbr. þskj. 524.

Núverandi lög um verzlunaratvinnu eru frá árinu 1925, eða 33 ára gömul. Er því ekki að undra, að nokkrar breytingar séu nú æskilegar. Í lok ársins 1964 skipaði hæstv. dómsmrh. n. til endurskoðunar á l. um verzlunaratvinnu. Formaður þeirrar n. var Jón Sigurðsson ráðuneytisstjóri, en aðrir í n. voru skipaðir eða tilnefndir skv. eftirfarandi: Frá Félagi íslenzkra stórkaupmanna, Sambandi íslenzkra samvinnufélaga, Kaupmannasamtökum Íslands og Neytendasamtökunum. Frv. það, sem hér liggur fyrir, er samið af þessari n., og virðist takmarkið í þessu lagafrv., að neytendum sé veitt betri þjónusta, að íslenzk verzlunarstétt sé búin sem beztum hæfileikum til starfa sins og í sambandi við það, að verzlunaratvinna sé af löggjafa viðurkennd frekar en áður sem nauðsynlegur atvinnurekstur. Enda þótt verzlunarrekstur sé samkvæmt frv. í fastara formi en áður, þá eru þó undanþáguákvæði ráðh., svo að ekki ætti að vera hætta á, að slíkt torveldi þeim, sem þessa atvinnu stunda, að halda henni áfram, einnig þá aðra, sem stunda þessa atvinnu og hafa nokkra aðra menntun, t.d. tæknimenn eða löglærðir.

Skv. 14. gr. er gengið út frá, að öll eldri leyfi til verzlunarrekstrar þurfi að endurnýja við gildistöku þessara laga. Er þetta í beinu samhengi þess, sem 11. gr. ákveður, að Hagstofa Íslands haldi skrá yfir alla þá, sem fá leyfi til verzlunarrekstrar. Gjald fyrir slíka endurnýjun verzlunarleyfa mun vera óverulegt, eða aðeins 200 kr.

Eitt er það nýmæli, sem telja má mikilsvert, þ.e. að samkvæmt 4. gr. er kveðið svo á í 1. lið um rétt til útgáfu verzlunarleyfa, að viðkomandi þurfi að vera íslenzkur ríkisborgari og vera heimilisfastur á Íslandi. Mjög hefur farið í vöxt, að erlendir menn stundi hér verzlunaratvinnu án þess að hafa hér fast heimilisfang. Þannig hefur íslenzka ríkið misst skatta og skyldur af slíkum atvinnurekstri.

Samkv. 12. gr. er gert ráð fyrir því, að þeir, sem stunda verzlunaratvinnu, hafi fasta starfsstöðu á Íslandi.

6. gr. frv. kveður á um takmarkanir og bann opinberra starfsmanna til verzlunarrekstrar. Er hér mjög hert á gildandi ákvæðum, og er slíkt án efa til góðs. Ekki er hægt að horfa upp á ríkjandi ástand, að opinberir starfsmenn tollstjóra eða ríkisbankanna, svo að eitthvað sé nefnt, stundi samhliða fullu starfi hjá ríkinu umfangsmikla verzlunarstarfsemi og jafnvel noti sér þá vitneskju, sem þeir afla sér í opinberu starfi.

Aðfluttir vörumarkaðir hafa verið tízkufyrirbrigði víða úti á landi nú á síðustu árum. Með 9. gr. frv. er leyfi til slíkra verzlunarhátta nokkuð takmarkað og bundið samþykki viðkomandi lögreglustjóra.

Eitt nýmæli er það í frv. þessu, sem áður var undanþegið lögum um verzlunaratvinnu, en það er sala mjólkur- og mjólkurafurða, sala á fiski og brauðvörum. Hér er um að ræða brýnustu nauðsynjavörur almennings, og vissulega er alveg sjálfsagt, að tryggja almenning sem bezt varðandi góða þjónustu við sölu á slíkri nauðsynjavöru.

Samkv. 17. gr. er gengið út frá, að lög þessi öðlist gildi 1. júlí n.k. Verður að vænta þess, að þetta frv. verði samþykkt á yfirstandandi þingi og undirbúningur undir framkvæmd laganna hefjist nú þegar, en eins og fyrr greinir, þá er gert ráð fyrir, að Hagstofa Íslands skrái öll verzlunarleyfi framvegis.

Herra forseti. Allshn. mælir með samþykkt þessa frv. með þeirri breytingu, sem gerð var í hv. Nd.