09.04.1968
Neðri deild: 95. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1407 í B-deild Alþingistíðinda. (1298)

187. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar 1968

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Ég held, að það sé ekkert of mikið sagt, að þetta frv., þó að ekki sé það fleiri greinar eða lengra meginmál, sé eitt hið flóknasta mál, sem Alþ. fær til meðferðar og gangi næst fjárl. í því tilliti. Í þessu máli er fólgin í raun og veru áætlun, framkvæmdaáætlun fyrir opinberar framkvæmdir og hvernig fjár skuli aflað til þeirra umfram það, sem gert er á fjárl.

Ennfremur er í þessu frv. í raun og veru mótuð fjárfestingarlánastefna stofnlánasjóða atvinnuveganna, eins og þeir leggja sig, og hvernig þess fjár skuli aflað til þeirra, sem þeir hafa ekki tryggt með föstum ákvæðum í löggjöfinni eða á annan hátt.

Hér er sem sé um framkvæmdaáætlun að ræða fyrir opinberar framkvæmdir og fjárfestingarlánasjóði atvinnuveganna. Verður að telja það mjög miður farið, að hæstv. ríkisstj. skuli leggja þetta mál fram jafn flókið og það er, alveg á síðustu dögum þingsins, ef maður á að trúa því ótrúlega, að það sé ætlun hæstv. ríkisstj. að ljúka þingi á laugardaginn í vikunni eftir páska, — ég segi trúa því ótrúlega, því að það munu vera tugir mála, sem þurfa afgreiðslu fyrir þinglok.

Má nærri geta, hvernig aðstaða hv. Alþ. er til þess að kryfja þetta stórflókna mál til mergjar, sem hér liggur fyrir, og t.d. nefndanna, sem eiga að fjalla um þetta efni. Ég álít, að það sé rík ástæða til að finna að þessu og láta í ljósi þá ósk, að menn leggi sig fram um, að framvegis verði þessu ekki háttað á þessa lund.

Í raun og veru þyrfti mál af þessari gerð að fylgja sjálfum fjárl., vegna þess að þetta er í raun og veru eins konar viðauki við þau. Þetta eru eins konar lánafjárlög fyrir ríkið og þyrftu að fylgja sjálfum fjárl. í afgreiðslunni, til þess að menn fengju þá heildaryfirlit um, hvað ætti að gera, sumpart fyrir þær tekjur, sem ríkissjóður aflar sér, og sumpart fyrir það lánsfé, sem skrapað yrði saman. Þá fyrst væri hægt að segja, að hér væri afgreiðsla gerð af fullu yfirliti.

Ef þetta reyndist ekki ætíð fært, væri æskilegt, að þetta mál, lánafjárlögin, yrði þá lagt fram strax þegar þingið kæmi saman að afloknu jólahléi, þannig að hægt væri að vinna að hinum venjulegu fjárlögum fram að áramótum og ljúka þeim af, en síðan hægt að taka til við lánafjárl. og framkvæmdaáætlunina í þinginu strax eftir áramótin. Ég vildi skjóta því fram, að reynt yrði að koma því til vegar, að þessi venja skapaðist framvegis.

Auðvitað afsaka menn sig með því, að það sé í mörg horn að líta og í mörgu að snúast og betra að sjá fleira en færra af því, sem á eftir að gerast allra fyrstu mánuði ársins, áður en lánafjárl. eða lánastefnan er ákveðin. En slíkt er ekki hægt að telja frambærilega afsökun vegna þess, hversu mikið er í húfi, að þetta málefni geti fengið skynsamlega athugun í þinginu, ekki síður en fjárl. sjálf. Þessu má ekki kasta á þessa lund inn á Alþingi, því að enginn veit þá í raun og veru upp né niður um það, hvað verið er að afgreiða, því að það er alveg víst, að þó að menn leggi alla þá vinnu, sem hægt er að koma við, eins og nú er háttað um þinghaldið, í þetta mál, munu flestir verða nokkurn veginn jafnnær um suma þýðingarmestu þætti þess. Svo margslungið er þetta eins og hv. þm. geta séð með því að lesa greinargerðina, því að þá vaknar spurning nálega við hverja línu, sem lesin er, því að hér er víðast hvar í frv. um að ræða viðbótarfjáröflun í einhverja stofnlánadeild eða einhverja stofnun og til þess að hafa nokkurn möguleika til að skapa sér skoðun á því, hvort hún sé skynsamleg eða ekki eða réttmæt samanborið við annað, þyrftu menn að hafa sem frumgagn heildarlánaáætlun þeirrar stofnunar, sem þar á hlut að máli, eða framkvæmdaáætlun þeirrar greinar, sem við er átt.

Ég ætla ekki í sambandi við þetta mál að setja upp sérstakan eldhúsdag á hæstv. ríkisstj., allra sízt þar sem bráðlega verður rætt almennt um landsmálin og hennar stefnu og framkvæmdir. En óneitanlega er sú yfirlýsing hæstv. fjmrh. mjög athyglisverð, sem hér kom fram, að ríkisstj. sér nú engin úrræði til þess að halda uppi venjulegum almennum opinberum framkvæmdum önnur en þau að taka erlend lán til þeirra í stórum stíl. En þetta var stefnuyfirlýsing og niðurstaða hæstv. ráðh. Stjórnin sæi engin önnur ráð, eins og nú væri komið fjármálum landsins og efnahag, sæi engin önnur ráð til þess að halda uppi almennum verklegum framkvæmdum. Þetta kemur raunar ekkert á óvart miðað við þá þróun, sem hér hefur verið á undanförnum árum, þegar þess er gætt, að opinberar framkvæmdir hafa í sívaxandi mæli, ár frá ári, í mestu góðærum, sem við höfum lifað, verið pillaðar út af fjárl. og hætt að fjármagna þær með venjulegum tekjum ríkissjóðs, en tekin lán til þeirra, sem síðar þurfti vitaskuld að borga. Það hlaut að koma að skuldadögunum.

Þessa fjármálapólitík hefur ríkisstj. rekið ár eftir ár í mestu góðærum, sem við höfum nokkurn tíma lifað. Hún hefur ekki fundið pláss á fjárl. sínum, þó að þau hafi hækkað árlega um 700—800 millj. eða eitthvað svoleiðis, hefur ekki fundið pláss fyrir þessar framkvæmdir. Því hefur í vaxandi mæli orðið að tína þær út af fjárl. og fjármagna þær með lánum, og það sumpart til stutts tíma. Spegilmyndin er svo að dálitlu leyti í þessu frv., eins og sést á því, að af þeim 330 millj., sem ríkisstj. ætlar að afla með lánsfé til þess að greiða með inn í opinberar framkvæmdir, eiga 156 millj. að fara til þess að höggva eitthvað í þessar skuldir, sem sagt til þess að greiða þær framkvæmdir, sem á undanförnum árum hafa verið unnar, — eða nálega helmingur af því lausafé, sem meiningin er að afla í svokallaðar opinberar framkvæmdir. Nú hygg ég, að flestir hljóti að vera sammála um, að hvað sem tautar verður að halda uppi framkvæmdum, m.a. vegna þess, að ef það verður ekki gert, munum við búa hér við dynjandi atvinnuleysi. Og má vel vera, að það verði hlutskiptið að búa við atvinnuleysi, þó að hæstv. ríkisstj. fái þetta erlenda lán til þess að fleyta með opinberu framkvæmdunum í bili. Það gæti svo farið, að hér yrði atvinnuleysi eigi að síður. En það er alveg víst, að úr framkvæmdunum má ekki draga og vafalaust sízt of í lagt í því sambandi í þessum lánafjárlögum hæstv. ríkisstj.

Ef við lítum á þessi lánafjárlög, sem ég kalla, þann þátt þeirra, sem fjallar um opinberar framkvæmdir, vakna svo ýmsar spurningar, og væri æskilegt að fá svör við þeim, ef ekki við þessa l. umr., þá í sambandi við störf þeirrar n., sem fjallar um þetta málefni. Ég vil nefna hér aðeins fjögur atriði. Það eru fyrst framkvæmdir Rafmagnsveitna ríkisins. Hvaða framkvæmdir eru þetta á vegum Rafmagnsveitna ríkisins, sem þarna er gert ráð fyrir upp á 52 millj.? Það þarf að fá upplýsingar um það. Eru þetta framkvæmdir, sem heimilaðar eru einhvers staðar í l. áður, sérstökum l. eða t.d. 22. gr. fjárl. eða hafa þær ekki verið heimilaðar neins staðar í l. og því verið að leita lagaheimildar fyrir einhverjum framkvæmdum í þessari grein í þessu frv.? Þetta þarf að liggja alveg ljóst fyrir um þennan lið og um aðra þá framkvæmdaliði, sem greindir eru í þessari áætlun. Sannast að segja eru þessi málefni öll orðin svo flókin, að það er tæpast nokkrum manni fært að botna í þessu lengur. Málin eru afgreidd í mörgu lagi í mörgum bútum, og það þarf orðið sérfræðinga til þess að finna út úr þeirri flækju. T.d. er það alveg augljóst af þessu frv., sem hér liggur fyrir og grg. með því, að það getur enginn maður í þessum gögnum séð hvað af þeim framkvæmdum, sem hér er gert ráð fyrir, hefur verið ákveðið áður í löggjöf af Alþ. eða heimilað og því alls ekki, hvort verið er að leita nýrra heimilda eða ekki. En auðvitað hefðu þessu máli þurft að fylgja í grg. skýringar á þessu til fullrar hlítar, þannig að hv. alþm. gætu séð, án þess að spyrja hvaða framkvæmdir það eru á vegum ríkisins, sem meiningin er að greiða með því lánsfé, sem stjórnin sækist eftir, og eins og ég hef margtekið fram, hvort þær eru áður heimilaðar eða ekki.

Þá vil ég næst gera sams konar fsp. um 5. liðinn. Það eru hafnirnar. Hvaða hafnir eru það, sem gert er ráð fyrir að vinna við samkvæmt þessum lánafjárl., og hafa þau framlög, sem þarna er gert ráð fyrir af ríkisins hendi verið heimiluð áður eða er þar um nýjar heimildir eða nýjar fjárveitingar í raun og veru að ræða til hafna? Það kemur alls ekki fram af frv. eða fskj. þess, að ég fái séð, hvernig þessu er farið.

Þá kemur 6. liðurinn. Það eru vegirnir, og þeim eru ætlaðar hér á þessari áætlun 174 millj., og 94 millj. af því eða meira en helmingur er til þess að greiða vegalán, vegagerðarlán, 79 millj. til nýrra vega. Og kemur þá enn þessi sama spurning: Hvaða vegir eru þetta? Eru þetta eingöngu þeir vegir, sem eru á vegáætlun? Það er vafalaust ekki. Þar eru sjálfsagt einhverjir vegir sem heimilað hefur verið að vinna í fyrir lánsfé. En þá spyr ég: Hverjir eru þeir? Hvaða vegir eru ráðgerðir í þessari framkvæmdaáætlun eða þessum nýju fjárl.? Hvaða vegir eru í þessari tölu? Eru það þá vegir, sem búið er að heimila lántöku til, eða er þarna verið að sækja um lántökuheimild í einhverja vegi, sem ekki hafa áður verið teknir inn á vegáætlun eða vegalánaáætlun?

Alveg nákvæmlega sams konar spurninga má spyrja í sambandi við 8. liðinn, um flugmál, 9. liðinn, um skólana og 10. liðinn, um sjúkrahúsin. Allir þessir liðir eru sama eðlis og ómögulegt að sjá, hvort hér er eingöngu um fjárveitingar að ræða, sem áður hafa verið heimilaðar sérstaklega, eða hvort hér er um nýjar ákvarðanir að ræða varðandi einstakar byggingar. Og yfirleitt sýna þessar spurningar, sem ég hef sett hér fram, og það sem ég hef sagt um þetta mál, hversu nauðsynlegt það er, að mál eins og þetta fylgi fjárl. Þetta eru hreinlega viðbótarfjárl. Eða a.m.k. er nauðsynlegt, að það komi í kjölfar fjárl. og að skýrt sé nákvæmlega samhengi þessara mála, þannig að menn vaði ekki gjörsamlega í villu og svima um það, hvað er að gerast, eins og menn hljóta að gera, þegar menn kynna sér þetta frv. og það, sem því fylgir.

Vandann, sem við er að fást í okkar efnahagslífi, og í hvert óefni komið er í okkar fjárhagsmálum, má svo m.a. sjá af því, sem hæstv. fjmrh. rifjaði upp, að það er alveg nýlega búið að taka 60 millj. af þeim litlu verklegu framkvæmdum, sem voru á fjárl., út af þeim, vegna þess, að því er sagt er, að það séu ekki peningar til að borga með af fjárlagafé, þó að þau séu komin á 6. milljarð og er þá ráðgert, að þetta verði unnið fyrir lánsfé. Síðan er búið að vera að leita að lánsfé hér innanlands, að því er stjórnin segir, og það finnst ekki, og þá verður að bjarga með erlendri lántöku á þá lund, sem hæstv. ráðh. gerði grein fyrir. Og um það er ekkert að efast, að okkar málum er þannig komið, að það er brýn þörf á erlendri lántöku til þess að fleyta okkur á næstunni, ef eðlilegar framkvæmdir eiga að eiga sér stað. En þá þyrfti að sjálfsögðu, ef vel væri, að nota þann tíma, sem menn fleyta sér yfir með stórfelldum erlendum lántökum, eins og verður okkar hlutskipti á næstunni, til þess að koma fram stefnubreytingu í fjármálum og efnahagsmálum og fitja algjörlega upp á nýjan leik. Reyna að koma sér inn á einhverja heppilegri leið en þá, sem menn hafa farið undanfarið og endar með þessum ósköpum eftir þau mörgu góðu ár, sem við höfum óneitanlega lifað.

Þá vil ég víkja aðeins örfáum orðum að því, hvernig hæstv. ríkisst. hyggst snúa sér að útvegun lánsfjár innanlands. Ég hef rætt aðeins um erlendu lántökuna og skal ekki fjölyrða meira um hana. Við sjáum, að það er gert ráð fyrir því að bjóða út innanlands sparifjárskírteini fyrir 75 millj. kr. og enn fremur vitum við, sem erum í stjórn framkvæmdasjóðs, sem kemur inn í þessa mynd, að í þessum útreikningum um fjármagnsþörf framkvæmdasjóðsins er gert ráð fyrir því, að viðskiptabankarnir leggi 50 millj. af sínu fé í fjárfestingarlán á þessu ári. Við getum því í raun og veru sagt, þegar þess er gætt, að þessar 75 millj. í sparifjárskírteinum verða annaðhvort sparifé, sem tekið er út úr bönkunum til þess að breyta í sparifjárskírteini, eða þá menn leggja það fé í sparifjárskírteini, sem þeir ella hefðu farið með í bankana, — getum í raun og veru sagt, að hæstv. ríkisstj. ætlist til þess, að viðskiptabankakerfið, sem ég stundum kalla rekstrarlánabankana, því að þeir eru það nú að mestu leyti, það er þeirra hlutverk að hafa rekstrarlánastarfsemina með höndum, en fjárfestingarsjóðirnir hafa stofnlánastarfsemina og svo ríkið sjálft, — getum við sagt, að ætlazt sé til þess, að viðskiptabankarnir eða rekstrarlánabankarnir leggi inn í þetta 125 millj. kr., sumpart beint af því fé, sem þeir fá inn til sín, og sumpart af því, sem þeir ella hefðu fengið, ef sparisjóðsskírteinin hefðu ekki verið seld.

Ég vil segja það alveg hiklaust, sagði það í fyrra og segi það enn, og ég vil segja það með enn meiri þunga í ár, að það er komið þannig fyrir viðskiptabönkunum, að það er ekki hugsanlegt, að þeir geti tekið þetta á sig að óbreyttum öðrum ástæðum. Það er með öllu óhugsanlegt, að þeir verði píndir til þess að gera þetta án þess að stórslys verði af. Ef þeir verða píndir til þessa verður afleiðingin einfaldlega sú, að þeir munu klemma enn meira en gert hefur verið að atvinnuvegunum með rekstrarfé, og er þó sízt á það bætandi, því að árum saman hefur það verið ein helzta meinsemd í íslenzkum þjóðarbúskap og íslenzku atvinnulífi, hvað viðskiptabankarnir hafa verið vanmegnugir þess að leggja atvinnuvegunum lífsnauðsynlegt rekstrarfé. Það hefur kveðið svo rammt að þessu, að það hefur tæpast verið hægt að reka nokkurt fyrirtæki á Íslandi með fullri ráðdeild árum saman vegna skorts á rekstrarfé. Þess vegna mundi það vera að fara algjörlega úr öskunni í eldinn í þessu efni, ef nú á enn að klemma að viðskiptabönkunum.

Mín skoðun er sú, að þetta sé með öllu óhugsandi að gera, án þess að stóróhöpp hljótist af, nema því aðeins að jafnframt verði minnkuð hin árlega sparifjárbinding eða felld niður, sparifjárbindingin til Seðlabankans. Stjórnvöldin ættu að viðurkenna, að hvað sem líður eldri deilum um þessa sparifjárbindingu, þá er núna orðið þvílíkt neyðarástand hjá viðskiptabönkunum í sambandi við rekstrarfjárþörf atvinnuveganna, að þessari bindingu er ekki hægt að halda áfram eins og verið hefur. Það er að mínu viti með öllu óhugsandi að láta viðskiptabankana halda áfram að leggja inn í fjárfestingarlánin, nema með því að minnka þá á móti sparifjárbindinguna og auka eitthvað endurkaup Seðlabankans á afurðavíxlum frá því, sem verið hefur. Það er alveg tvímælalaust, að þetta hvoru tveggja verður að ske í verulegum mæli.

Það er býsna fróðlegt að athuga það, hvernig búið hefur verið að viðskiptabönkunum undanfarin ár í sambandi við þá nýju lánastefnu, sem tekin var upp 1960 og var fólgin í því að reyna að draga úr þenslunni með því að láta Seðlabankann leggja sífellt minna og minna af sinni hálfu inn í almenna lánakerfið, sérstaklega inn í almenna rekstrarlánakerfið. Þessi tilraun til þess að draga úr þenslunni með því að þjarma þannig að rekstrarlánabönkunum eða viðskiptabönkunum, hefur að mínu viti verkað eins og eitur fyrir atvinnulífið á undanförnum árum, og það er ekki sízt af þessum ástæðum, að svo er komið sem komið er fyrir mörgum íslenzkum fyrirtækjum. En þó að rekstrarlánaklemman hafi verið okkur erfið á undanförnum árum, þá hefur hún aldrei verið verri en nú. Í því sambandi langar mig til þess að vitna í þskj. sem hér hefur nýlega verið lagt fram, en þar er umsögn um þetta efni frá Landssambandi íslenzkra útvegsmanna, sem hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Samtökin hafa álitið, að undanfarin ár hafi hvergi nærri verið séð fyrir nægjanlegu rekstrarfé til útgerðar fiskiskipa né nægjanlegu láni út á unnar sjávarafurðir og lýsa sig því fylgjandi sérhverjum aðgerðum og till., sem eru til bóta í þessu efni.“ Enn fremur segja forráðamenn þessara samtaka: „Þá viljum við benda á, að rekstrarfjárskorturinn til útgerðar fiskiskipa hefur aldrei verið meiri en nú, einkum eftir gengisbreytinguna á s.l. hausti, og hafa rekstrarlán ekkert hækkað, þrátt fyrir eindregnar óskir samtakanna og ábendingar um mikinn kostnaðarauka við að hefja útgerð.“

Þetta segja forráðamenn útgerðarinnar og segja áreiðanlega satt. Aldrei hefur verið verr ástatt í þessu efni en einmitt nú. Í sama streng tekur Stéttarsamband hænda, enda er það kunnugt mál, að rekstrarlánum til landbúnaðarins hefur verið haldið óbreyttum að krónutölu í nálega 9 ár, þeim sem út eru látin í marz-júní. Geta menn ímyndað sér, hvernig ástandið muni vera orðið í þeim herbúðum.

Og iðnaðurinn hefur í raun og veru nokkuð sömu sögu að segja varðandi rekstrarlán, enda er sannleikurinn sá, að mörg af myndarlegustu fyrirtækjum landsins og bezt stæðu eru nú í svo ferlegum greiðsluvandræðum, að liggur við stöðvun, jafnvel stælt og efnuð fyrirtæki. Þess vegna vil ég taka mjög kröftuglega undir það, sem hér kemur fram frá LÍÚ, að hér er mikið í hættu. Sannleikurinn er sá, að það gagn, sem getur orðið að gengisbreytingunni og ýmsum ráðstöfunum til stuðnings atvinnugreinum, sem gerðar hafa verið á undanförnum mánuðum, getur bókstaflega orðið að engu eða verra en það, ef menn gera ekki einhverjar skynsamlegar ráðstafanir til þess að bæta úr þessu.

Menn segja kannske sumir, að þetta séu innantómar hugleiðingar, því að það séu ekki peningar til þess að leysa úr þessum vanda. Og þess vegna sé í raun og veru ekki til neins að vera með tómar vangaveltur um þetta. Það væri gott að geta gert meira, en það sé ekki hægt. Í þessu sambandi vil ég upplýsa hv. þm. um það, hvernig þróunin hefur verið undanfarin ár, þ.e.a.s. hvernig búið hefur verið að viðskiptabönkunum, hvernig viðskipti þeirra hafa verið við Seðlabankann. Í árslokin 1959 skulduðu viðskiptabankarnir Seðlabankanum umfram inneignir 920 millj. Það var það fé, sem viðskiptabankarnir fengu til sín til þess að standa undir rekstrarlánum og almennum lánaviðskiptum. Þeir höfðu sem sé um 920 millj. frá Seðlabankanum þá. Þetta lagði Seðlabankinn til í rekstrarlánakerfið af sinni hendi. En núna hefur þetta gjörsamlega breytzt, að sjálfsögðu vegna þess, að Seðlabankinn hefur dregið úr endurkaupum og enn fremur vegna þess, að Seðlabankinn hefur dregið inn verulegan hluta af sparifjáraukningunni ár frá ári og skapað þannig inneignir viðskiptabankanna hjá sér. Með því hefur hann tekið fé úr umferð frá viðskiptabönkunum og þannig er þetta komið um áramótin síðustu 1967-'68, að viðskiptabankarnir hafa að láni frá Seðlabankanum, — endurkaupin að sjálfsögðu alltaf talin með, — 1 milljarð 734 millj., en eiga inni 2 milljarða og 60 millj. M.ö.o. að í staðinn fyrir að Seðlabankinn lagði inn í rekstrarlánakerfið 920 millj. 1959, þá hefur hann nú dregið út úr þessu kerfi 300 millj. nettó. Þetta er breyting upp á 1200 milljónir á þessu tímabili. Hér er því um byltingu að ræða, þegar þess er gætt, hversu mjög rekstrarkostnaður hefur aukizt á þessu tímabili, og gerir það áhrifin af þessu enn stórfelldari en menn skyldu álykta af þessum tölum. Það er þess vegna ekki hægt að deila um það, og er barnalegt að deila um það, að Seðlabankinn hefur verið látinn gjörbreyta um stefnu gagnvart rekstrarlánakerfinu og viðskiptabönkunum, og í staðinn fyrir að leggja þessu kerfi stórfé leggur hann því ekki neitt fé, þvert á móti dregur til sín fé frá því. Og það er vitaskuld þetta, sem skapar þessa ofboðslegu rekstrarlánakreppu, sem við búum við. Og þess vegna endurtek ég það, að það er náttúrlega algjör fjarstæða að ætla sér ofan á þetta að láta rekstrarlánabanka lána til fjárfestingar að óbreyttum aðbúnaði. Það verður auðvitað til þess, að þessi mál komast öll í enn verra öngþveiti en nokkru sinni áður. Ef það ætti að gerast, yrði að koma þar á móti að breyta bindingarreglunum, minnka fjármagnsbindinguna, minnka það, sem tekið er frá viðskiptabönkunum, dregið frá þeim inn í seðlabankakerfið, og auka endurkaupin. Að öðrum kosti að hætta við að láta viðskiptabankana láta nokkuð í fjárfestinguna, hætta við útboð sparifjárskírteina og láta Seðlabankann í ríkara mæli leggja fé beint í fjárfestingaráætlunina með eitthvað auknar erlendar lántökur að baki, ef þess er talin þörf vegna gjaldeyrisstöðunnar. En það hljóta allir að sjá, að þessi stefna, sem hér er mörkuð í þessu frv. er með öllu óframkvæmanleg.

Ég sagði það í fyrra, þegar verið var að ræða þessi mál, að sala sparifjárskírteinanna og framlag viðskiptabankanna í fjárfestingaráætlunina mundi verða viðskiptabönkunum algjör ofraun, enda hefur sú orðið raunin á og af því stafar ekki svo lítið af þeim fjárhagsvandræðum, sem atvinnulífið á við að búa, enda sagði hæstv. fjmrh. það hér áðan, að ef ekki hefði komið til óttinn við gengislækkunina, hefðu sparifjárskírteinin alls ekki selzt öll.

Það er enginn vafi á því, að það þarf að endurskoða þessi mál frá rótum í þessu ljósi, sem hér er brugðið upp, ekki aðeins af mér, heldur einnig af fjölmörgum forráðamönnum atvinnulífs og áreiðanlega þeim, sem standa fyrir viðskiptabönkum landsins, því að engum eru ljósari þau vandkvæði, sem orðin eru, en þeim, sem í þessu standa daglega og sjá, hvernig algjörlega óviðráðanleg vandamál og illkynjuð hlaðast upp sem afleiðing af þessari rekstrarlánapólitík.

Ég ætla ekki að rifja upp þrætur þær, sem um þetta hafa gengið undanfarin ár. Við getum algjörlega látið þær liggja milli hluta og í þess stað snúið okkur að því að skoða þetta eins og það liggur fyrir núna, en svo blindir mega menn ekki vera, að þeir neiti að sjá þær upplýsingar, sem liggja fyrir, um stefnubreytinguna í lánamálunum, sérstaklega rekstrarlánamálunum, sem orðið hefur og ég gaf upplýsingar um áðan, og berji þannig höfðinu við steininn að halda því fram, að það hafi hreint engin áhrif haft á rekstrarlánaveitingar í landinu til atvinnulífsins, að Seðlabankinn hefur snúið blaðinu algjörlega við og í stað þess að leggja inn í rekstrarlánakerfið gífurlegar fjárhæðir á hann nú orðið inneignir hjá viðskiptabönkunum.

Varðandi það atriði, sem menn stundum eru að kasta á milli sín, hálfpartinn eins og krakkar, að það séu ekki peningar til, og því verði þetta að vera svona, þá er náttúrlega hægt að leika sér með alls konar orðasukki, en það hefur enga praktíska þýðingu í þessu sambandi, því að við vitum, að það er ekkert algilt lögmál til um það, hversu mikla peninga skuli setja í umferð. Það er álitamál hverju sinni, og ber að hafa þar margt í huga, bæði gjaldeyrisstöðuna og þarfir atvinnulífsins fyrir rekstrarfé, og það hefur aldrei komið fyrir á Íslandi, að ekki hafi verið lánað meira út en nemur innstæðum í bankakerfinu. Það hefur aldrei neinum dottið annað í hug en svo þyrfti það að vera, en það hefur verið mismunandi mikið fram yfir það, sem seðlabankakerfið hefur lagt inn í rekstrarlánastofnanirnar, og það er álitamál auðvitað, hvað það á að vera mikið á hverjum tíma. En sú pólitík, sem rekin hefur verið í lánamálum undanfarið, fær ekki staðizt, eins og nú er komið fram.

Menn geta hér um bil gert sér í hugarlund, hvaða breytingar hafa orðið á þessu, þegar nokkrar staðreyndir eru skoðaðar. Fyrir 1960 var ekki nein binding, og rekstrarlánabankarnir lánuðu út það, sem þeir fengu inn. Endurkaupin voru þá 67%, Seðlabankinn endurkeypti 67% út á afurðir og rekstrarlán til landbúnaðarins voru þá jafnhá eins og þau eru nú í krónutölu í heild, og þá voru almennar ríkisframkvæmdir yfirleitt greiddar með sköttum og tollum. Hvað hefur svo gerzt? Hvernig er þetta núna?

Nú er þetta þannig, að sparifjárbindingin hefur verið innleidd, eins og menn kannast við, og inndregnar í því sambandi nálega 2 þús. millj., sem eftir gamla laginu hefðu verið í útlánum hjá viðskiptabankakerfinu. Endurkaupin hafa verið lækkuð niður í 53-55% úr 67%, og rekstrarlán til landbúnaðarins hafa verið látin standa í stað í krónutölu. Í stað þess að áður voru nálega allar almennar ríkisframkvæmdir greiddar af sköttum og tollum, þá er nú verulegur hluti af þeim orðinn fjármagnaður með lánsfé og hefur verið undanfarin ár, og það lánsfé hefur að sumu leyti verið tekið frá rekstrarlánabönkunum ofan á annað. Þurfa menn nokkuð að vera hissa á því, að við búum við rekstrarlánserfiðleika? Áreiðanlega ekki. Í þessu sambandi þýðir ekkert að benda á, að heildarútlánatölur bankanna hafa hækkað. Það væri nú skárra, ef svo væri ekki, þar sem verðlag og rekstrarkostnaður hefur líklega fimmfaldazt á þessum árum. Þessi stefnubreyting sem ég hef verið að lýsa, hefur verkað eins og seigdrepandi eitur fyrir íslenzkt atvinnulíf. Um það er ekkert að villast.

Hvort þessi lánastefna, sem áður var, hefur verið réttmæt, þori ég ekki að fullyrða. Það má vera, að það hafi verið rekin fullógætileg útlánastefna á þeim árum, en menn neyddust til að hafa þetta svona, því að annars var ekki hægt að halda framleiðslu gangandi, og gjaldeyrisstaðan var náttúrlega oft léleg, það skal ég játa. En menn neyddust til að hafa þetta svona, því að annars var ekki hægt að halda atvinnuvegunum gangandi, það vantaði fjármagn til þess að öðrum kosti og hjólin verða þó að geta snúizt. Nú hafa sumir sagt, að menn hafi lagt svona ofboðslega á sig, á atvinnulífið og þjóðarbúið til þess að byggja upp gjaldeyrisvarasjóðinn, og sjálfsagt hafa þessar ráðstafanir eitthvað hjálpað til þess að laga gjaldeyrisstöðuna í bili. En menn verða á hinn bóginn að gæta þess, að áhrif í þá átt standa ekki til lengdar, ef of langt er gengið, þannig að framleiðslan lamast. Þá hefnir þetta sín, og þá hverfur gjaldeyrissjóðurinn eins og dögg fyrir sólu, jafnvel þótt lánsfjárbindingin haldi áfram. Það er ekki hægt að tryggja góða afkomu landsins út á við með því einu að binda spariféð í Seðlabankanum. Það sjáum við núna þessa mánuðina og misserin, þegar bindingin heldur áfram, en gjaldeyrissjóðurinn er að verða að engu samt sem áður. Þetta er ekki svona einfalt. Þetta er ekki eins og bókhald, þar sem menn geta fært í debet og credit og leikið sér með tölur á ýmsar lundir. Þetta er miklu flóknara en svo, því að hér er ekki aðeins um að ræða sjálfar lífæðar peningakerfisins, heldur einnig lífæðar sjálfs þjóðarbúsins. Það þarf að hafa fjármagn í umferð, til þess að hægt sé að nota vinnuaflið og vélaaflið og ekki aðeins nota það, heldur nota það skynsamlega og hægt sé að reka fyrirtækin skynsamlega. Það eru engin fyrirtæki rekin af neinu viti, sem þjást af rekstrarfjárskorti. Það er alveg öruggt. Og þjóð, sem ætlar að halda því ástandi við, sem hér er nú varðandi þessi efni, til frambúðar, hlýtur að grafa grunninn undan sinni eigin afkomu. Hún hlýtur að grafa hann undan, hvernig sem menn rembast við að binda spariféð og telja sig með því vera að vernda leifar af gjaldeyrissjóði.

En sem sagt, við skulum ekki deila um það, sem liðið er í þessu. Við skulum snúa okkur að því að horfast í augu við ástandið, eins og það er, og þá sjáum við þetta, sem við höfum verið að ræða hér, ég og hæstv. fjmrh. Hann hefur sem sagt lýst þessu þannig, að eina leiðin, sem nú sést til þess að halda uppi almennum verklegum framkvæmdum, hliðstæðum framkvæmdum og áður voru borgaðar af tollum og sköttum, sé stórfelld erlend lántaka. Þetta eru út af fyrir sig alvarleg tíðindi, sem hæstv. fjmrh. segir okkur, og samt sem áður er viðskiptabankakerfinu ætlað að leggja inn í púkkið 125 millj., sem það getur ekki lagt fram af þeirri einföldu ástæðu, að það getur ekki einu sinni sinnt brýnustu þörfum sjálfra atvinnuveganna fyrir rekstrarfé.

Þess vegna verður annaðhvort að ske, eins og ég hef margtekið fram: Að hætt verði við þessar fyrirætlanir um, að viðskiptabankarnir leggi þetta inn í fjárfestingaframkvæmdir, eða þá að linað verði á bindingunni, eða að Seðlabankinn auki endurkaup afurðavíxla, þ.e.a.s., að Seðlabankinn hlaupi meira undir bagga áður. Vilji menn ekki gera þetta, verður að taka meira af erlendum lánum í framkvæmdirnar, því að þetta lánsfé er ekki hægt að taka frá atvinnuvegunum. Það er ekki hægt að klemma enn meira að varðandi rekstrarlánin. En framkvæmdirnar verða auðvitað að eiga sér stað, eins og nú er komið í okkar atvinnumálum, því að það væri þó verst af öllu, ef við gæfumst upp við það að hafa fulla atvinnu fyrir alla, og vitanlega verðum við að nota okkar lánstraust erlendis, ef svo er komið, að við getum ekki sjálfir kostað það, sem þarf að gera til þess.

Við verðum að reyna á okkar lánstraust erlendis til fullrar hlítar, til þess að nota allt okkar vinnuafl og vélaafl. Þá veltur mikið á því, að það séu skynsamlegar framkvæmdir, sem í er ráðizt, og ekki sízt á hinu, að þau góðu fyrirtæki, sem við höfum nú þegar, geti notið sín, en séu ekki hálflömuð vegna skorts á rekstrarfé. Það er ekki hægt að skilja rekstrarlánavandamálið frá og láta eins og það sé ekki til og snúa sér að öflun fjárfestingarlána. Þetta hangir allt saman, eins og raunar kom fram hjá hæstv. fjmrh.

Ég skal ekki eyða meiri tíma, en vildi koma þessum bendingum að við 1. umr. málsins, og sérstaklega vil ég í lokin skírskota til þeirra spurninga, sem ég bar fram. Ekki til þess að gera ráð fyrir því, að hæstv. ráðh. svari þeim endilega núna, heldur treysti ég því, að n. fái upplýsingar um þetta og þá sé hægt í nál. að gefa svörin og þm. fái þá vitneskjuna, svo að allt sé þá öruggt varðandi það, hvað verið er að samþykkja.