11.10.1967
Sameinað þing: 0. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 29 í B-deild Alþingistíðinda. (13)

Varamenn taka þingsæti - rannsókn kjörbréfa

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Við höfum nú oft hlýtt á hinn málglaða Hannibal, hv. 9. þm. Reykv., fyrr og síðar hér í þessari hv. d., en aldrei hef ég heyrt hann vera svona glaðan að munnhöggvast við sjálfan sig eins og í þessari ræðu, sem hann var nú að ljúka. Öll þessi ræða gekk út á það, að hann væri að berjast fyrir rétti fólksins gegn flokksstjórnunum. Hver er formaður Alþb. nema þessi sami maður, og var hann þá að berjast við sjálfan sig í sumar eða var hann að berjast við hv. 6. þm. Reykv., sem er oddamaður Alþb. hér í Reykjavík, og átti öll hans ræða að skiljast þannig, að þessi hv. þm. ætti að taka til sín sneiðina? Allt það, sem þessi hv. þm. vitnaði til um rétt fólksins og afstöðu þm. fyrr og síðar, kom þessu máli ekkert við að því er snertir okkur sjálfstæðismenn nú í þessum umr., fyrr eða síðar. Gerðu sjálfstæðismenn aths. við lista Hannibals Valdimarssonar, að hann yrði merktur GG í yfirkjörstjórn? Nei. Ég er hérna með fundargerð yfirkjörstjórnar. Það kom bara úr einni átt aths. við, að réttur fólksins fengi að njóta sín. Hann var hundsaður, formaður Alþb., og honum var sagt að þegja af sínum flokksbræðrum. Þeir sendu umboðsmenn til yfirkjörstjórnarinnar, og það voru þeir, sem gerðu sínar aths., Ingi R. Helgason og Ívar H. Jónsson fyrir hönd Alþb., fyrir hönd Magnúsar Kjartanssonar, elsku vinar og bróður. Og þeir lýstu því yfir fyrir hönd umbjóðenda sinna, að framboðslisti Hannibals Valdimarssonar o.fl. sé Alþb., sem Hannibal Valdimarsson er formaður í, kosinn af landsfundi, algerlega óviðkomandi. Aldrei hefur annar eins skrípaleikur verið leikinn hér á landi í kosningum eins og þetta, og fyrir þetta ættu þessir menn að skammast sín og reyna að láta svolítið minna hér á þinginu.

Ég skil hins vegar ósköp vel, að Hannibal Valdimarsson óskaði eftir því, að ég þegði hér í dag. Það get ég ósköp vel skilið. En sannleikurinn er bara sá, að það var ekkert í hans ræðu, sem sneiddi nokkurn skapaðan hlut eða gerði neinar aths. við það, sem ég hafði sagt í minni ræðu, heldur var það allt saman aths. við þann málflutning, sem fulltrúar hans flokks, því nú skilst mér, að sé búið að gefa út yfirlýsingu um, að hann sé í þingflokki Alþb., höfðu að athuga við hans framboð. Það er þessi loddaraleikur, sem við erum að fordæma hér, og svo koma menn fram með rembingi og þykjast vera málsvarar fólksins og hv. 6. þm. Reykv. hefur djörfung til þess að segja, að kjósendur eigi rétt á að vita í kjörklefunum, hvar atkv. lenda. Þessi maður, sem er oddamaðurinn í því að skapa allan þann loddaraleik, sem hlaut að leiða til þess, að fjöldi kjósendanna vissi ekki í kjörklefanum, hvar atkv. mundu lenda, eins og hv. 9. þm. Reykv., Hannibal Valdimarsson, var að lýsa hérna áðan.

Þeir verða að tala betur saman á heimilinu í Alþb., áður en þeir opna sig hérna í d.

Hannibal Valdimarsson, hv. 9. þm. Reykv., sagði í sinni ræðu, að ég hefði átt sem dómsmrh. að kveða upp dómsúrskurð á milli yfirkjörstjórnar og landskjörstjórnar og segja, hvor úrskurðurinn væri réttur. Hv. 6. þm. Reykv. var að lýsa því hér fyrir hv. þm. áðan, eins og allir vita, að það er Alþ.,sem á endanlega úrskurðarvaldið um það, hvor þessara úrskurða er réttur. Hannibal Valdimarsson skrifaði dómsmrh. bréf 17. maí, þar sem hann fór fram á þetta m.a. Og hann sagði í sínu bréfi, með leyfi hæstv. forseta, að hann færi fram á það, að séð verði um, að gengið verði svo frá kjörseðli í Reykjavík, að I-listinn verði ekki talinn utan flokka, eins og stendur í auglýsingu yfirkjörstjórnar, heldur verði þess getið á kjörseðlinum, að samkv. úrskurði landskjörstjórnar og yfirlýsingu form. hennar teljist atkv. greidd I-listanum til atkv. Alþb., er til úthlutunar uppbótarþingsæta kemur. Og þegar þessi hv. þm. hafði sett fram þessa kröfu, bætir hann við: „Verði þetta ekki gert, tel ég kjósendur blekkta með formi kjörgagna.“ Hann telur kjósendur blekkta með því formi kjörgagna, sem vinir hans í Alþb. gerðu kröfur um, að skyldi vera þannig, eins og varð. En að svo miklu leyti, sem þessi hv. þm. telur, að ég hafi ekki notað rétt mitt ráðherravald, þá er það mín skoðun, að ég hefði misbeitt ráðherravaldi mínu og farið út fyrir mín embættistakmörk, ef ég hefði skorizt í leikinn þarna á milli kjörstjórna, og þessa skoðun mína lét ég þessum hv. þm. í té í bréfi þann 23. maí, sem mér þykir ástæða til að mega gera hinu háa Alþingi grein fyrir og sem hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Með vísun til bréfs yðar, hr. alþm., (þ.e. Hannibals Valdimarssonar dags. 17. þ. m.) varðandi merkingu framboðslista í Reykjavík við í hönd farandi alþingiskosningar, skal tekið fram, að samkv. 42. og 52.–53. gr. kosningalaga nr. 52 1959 ber kjörstjórnum að annast auglýsingu framboðslista, svo og gerð og prentun kjörseðla við alþingiskosningarnar, og er ekki á valdi dómsmrn. að taka ákvarðanir í því efni. Þetta leiðir jafnframt af því, að yfirkjörstjórnir og landskjörstjórn eru kosnar af Alþ., sem á síðasta úrskurðarvald um lögmæti kosninga og kjörbréfa.“

Ég held, að það hefði hvinið jafnvel hærra í þessum hv. þm. í annan tíma, ef ég hefði í vissum tilfellum leyft mér að fara þannig út fyrir embættistakmörk mín, eins og hann ætlast til, að ég geri í þessu bréfi, sem ég vitnaði áðan til, og þegar hann beinir þeim tilmælum til mín, sem þar getur.

Nei, þessum þætti málsins er rétt að ljúka með því að vitna hér til fundargerðar yfirkjörstjórnar, sem er dags. 12. maí og sýnir, að það voru ekki aðrir, sem stóðu í veginum fyrir „umboðsmanni fólksins“, heldur en flokksbræður núv. eða fyrrv. Alþýðubandalagsmanns, ég veit ekki hvort heldur er, — eða svo kallaðir flokksbræður Hannibals Valdimarssonar, hv. 9. þm. sjálfs, en þar segir í 7. lið:

„Umboðsmenn lista Alþb. í Reykjavík og lista Hannibals Valdimarssonar o.fl. lýstu því yfir, að þeir héldu fast við fyrri kröfur sínar um merkingu listanna og lýstu því yfir, að grundvöllur til samkomulags um þetta atriði væri ekki fyrir hendi og engar breytingar eða leiðréttingar hugsanlegar til samkomulags á milli þessara tveggja aðila.“

Það er upp úr þessari deilu, sem yfirkjörstjórnin kveður svo upp sinn úrskurð og landskjörstjórn tekur svo einnig afstöðu til málsins, og ég sagði í minni ræðu áðan, að ég skyldi láta álit mitt liggja á milli hluta, frá lögfræðilegu sjónarmiði, mismuninn á þessum tveimur úrskurðum, en hvað sem þeim líður og það lagði ég áherzlu á og því verða hv. þm. að gera sér grein fyrir, þá fór kosningin fram á grundvelli úrskurðar yfirkjörstjórnar, þannig að listi Hannibals Valdimarssonar var I-listi, utanflokkalisti, og hann er hér með kjörbréf sem utanflokkamaður, eins og gerð var grein fyrir hér áðan. Og í þeirri kjördeild, sem hann var í, var engin aths. gerð um það, að hann væri utan flokka.

Það var dálítið broslegt að hlýða á ræðu hv. 6. þm. Reykv., og ég hef nú ekki í annan tíma séð kysst eins mjúklega á vöndinn eins og hjá þessum hv. þm. Hann heldur hér langa ræðu og segir: Landslögin eru æðri lögum Alþb., og við verðum bara að sætta okkur við það, að landslögin eru æðri Alþb.- lögunum. En ég hafði einmitt nýlokið við að gera hv. þingi grein fyrir því, að Alþb. í umboði 1. manns listans, í umboði þessa hv. þm., gerði kröfu til þess, að listinn væri merktur l-listi, utan flokka, af því að það væru landslög, alls ekki vegna þess að það væru lög Alþb. Það kom bara ekkert málinu við, og við skulum bara líta svolítið á þetta betur, því að þar fer ekkert á milli mála.

Þeir segja, umboðsmenn Magnúsar Kjartanssonar, að það, að þessi listi eigi að merkjast sem utan flokka en ekki GG-listi, eigi sér rætur í grundvallarreglum laga, en ekki flokksreglum Alþb. Þeir segja, að hér sé um að ræða að brjóta stjórnarskrárbundinn rétt á stjórnmálaflokkunum. Það er ekki verið að tala um stjórnarskrá Alþb., ef hún er einhver til. Nei, það er stjórnarskrá ríkisins. Það er það, sem um er að ræða, ef ekki verður farið að þeirra kröfu, svo að allur þessi málflutningur og rökstuðningur hv. 6. þm. Reykv. um það, að nú verði að sætta sig við að fara að landslögum, en ekki lögum Alþb., stangast gersamlega á við allt það, sem áður er búið að halda fram í efni hans sem 1. manns á lista Alþb. fyrir kosningarnar. Og það er með þessum og öðrum ráðum, með þessum loddaraleik innan Alþb., sem verið er að reyna að blekkja kjósendurna, og það er það, sem við höfum verið að gera okkar aths. við. Ég vil hins vegar taka það skýrt fram, að ég beindi alls ekki sérstaklega geiri mínum í því sambandi gegn hv. 9. þm. Reykv., Hannibal Valdimarssyni. Því að hann er að þessu leyti ekki ásökunarverður, enda sagði ég það, þegar ég lauk ræðu minni með nokkuð þungum orðum, að ef Alþb.- menn greiddu nú atkv. hér sem stjórnmálaflokkur á þingi með þessum lista, eru það svik við sjálfa sig, flokksfélaga og kjósendur. Ég sagði, að þetta ætti við um suma þeirra, og ég get undanþegið hv. 9. þm. Reykv. að þessu leyti. En það er þessi flokksbróðir hans, sem situr þarna hinum megin, sem hefur ekki jafngóða samvizku í þeim efnum.

Það getur vel verið, að þeir, sem stóðu að því að smíða kosningalögin 1959, og ég átti nokkurn hlut að því og ekki svo lítinn, hafi ekki gert sér grein fyrir því, að annar eins loddaraleikur gæti átt sér stað innan íslenzkra stjórnmálaflokka eins og í sumar innan Alþb. Og það má vel vera, að það sé okkar eina afsökun, og við erum að reyna að setja undir þann leka með þeim yfirlýsingum, sem við höfum gefið, að svona svik við fólkið verði oftar framin.