09.04.1968
Neðri deild: 95. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1419 í B-deild Alþingistíðinda. (1301)

187. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar 1968

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfáar upplýsingar, sem ég ætlaði að leyfa mér að leita hjá hæstv. ráðh., af því að hann mæltist heldur til þess, að menn kæmu með fsp. núna, ef þeir hefðu þær á takteinum og kvaðst reyna að svara þeim, eftir því sem hann gæti, á þessu stigi.

Ég sé, að í töflu II á bls. 5 í þessu frv. var greint frá hinum opinberu framkvæmdum, sem koma til samkv. þessu frv. Þar sé ég, að taldar eru 174.7 millj. til vega, en það eru ekki hinar raunverulegu framkvæmdir, heldur eru það 79.9 millj. Hitt eru skuldagreiðslur, 94.8 millj. Mér heyrðist hæstv. ráðh. segja í ræðu sinni áðan, að þessar framkvæmdir væru umfram það, sem vegáætlun segir til um. En svo segir neðanmáls í 7. lið: „Þar af fjárveitingar á vegáætlun 37,8 millj.“ og „Reykjanesbraut 14 millj.“, en hún er einnig á vegáætlun. Þarna eru 51 millj. kr. rúmar, sem eru óneitanlega á vegáætlun. Hvernig liggur í þessu? Það er öllum ljóst, að vegaframkvæmdir í landinu skv. vegáætlun eru fyrir miklu meiri upphæð en hér er greint, 174 millj., en samt eru hér taldir með liðir, sem eru í vegáætlun. Ég fæ ekki samhengi í þetta.

Annað er það, sem ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. ráðh. Hér segir, að skuldagreiðslur vegna vega séu 94.8 millj., en hæstv. samgmrh. hefur sagt okkur fyrir nokkrum dögum, að vextir og afborganir af öllum vegaskuldum verði 64.5 millj. á þessu ári. Þarna munar æði miklu eða yfir 30 millj. Hvernig stendur á þessu? Þá vil ég spyrja, hvort þessar vegaskuldir, sem á að borga á þessu ári, tæpar 95 millj., hvort þetta eru bæði vextir og afborganir af skuldum eða eru þetta bara afborganirnar? Og loks, á maður að skilja það svo, að þessar tæpar 95 millj. séu allar skuldagreiðslur á árinu vegna vegalána, þannig að vegasjóður þurfi þá ekki að borga neina skuldir vegna slíkra lána?