16.04.1968
Neðri deild: 98. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1427 í B-deild Alþingistíðinda. (1307)

187. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar 1968

Frsm. minni hl. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Eins og lög gera ráð fyrir, þá var 1. mál þessa þings frv. til fjárl. fyrir árið 1968. Nú er eitt síðasta mál, sem lagt er fyrir þingið, þegar líður fast að lokum þess, frv. til l. um heimild fyrir ríkisstj. til að taka lán vegna framkvæmdaáætlunar fyrir árið 1968. Þetta er eitt síðasta mál þingsins, en hefði raunverulega átt að leggjast fyrir Alþ. snemma á þingtíma og helzt í byrjun og þá í tengslum við fjárl. sjálf.

Þegar þetta mál var rætt í fjhn. þessarar hv. d., þar sem mættir voru fulltrúar frá ríkisstj., féllust þeir fyllilega á það, að þannig ætti þetta í raun og veru að vera og kváðu að því hafa verið stefnt í byrjun. Það hefði verið unnið að undirbúningi þessarar áætlunar þegar á liðnu sumri og hausti, og að eðlilegum gangi mála hefði hún átt að geta verið tilbúin miklu fyrr og raunar þegar við upphaf þings. 1. umr. um þetta frv., þessi lánafjárlög, fer fram 9. apríl. Þm. hefur verið sagt, að þingslit yrðu þann 20. apríl. Á þessum tíma, frá því, að 1. umr. fer fram um þetta mál og þangað til Alþ. á að ljúka störfum nú, þar til slíta á þinginu, á þeim tíma er öll páskahelgin, og virkir dagar, sem Alþ. hefur til umráða til þess að fjalla um þetta mál, eru ekki nema 6. Frv. fjallar þó um lántökuheimildir upp á fleiri hundruð millj., 5600 millj. trúi ég, og einnig um ráðstöfun þessa fjár. Og með frv. fylgir sjálf framkvæmdaáætlunin eins og í kaupbæti, og það er þó a.m.k. ekki óeðlilegt, þegar slíkt mál er lagt fyrir Alþ. á prentuðu þskj., að nokkurt tóm gefist til þess að ræða þær tölur einnig, sem þar eru birtar, um leið og frv. sjálft er rætt. Og ég spyr: Hvernig verður meðferð mála, þegar svona er að unnið, og hvernig verður meðferð þessa máls í hv. Alþ.? Ég hef ekki yfirlit yfir önnur verkefni þeirrar viku, sem til þess er ætluð að fjalla um þetta mál, en þau eru vissulega mörg. Það er raunar tóm endaleysa að ætlast til þess, að alþm. geti fjallað um svo viðamikil mál á jafnstuttum tíma og hér er um að ræða og undir þeim kringumstæðum, sem nú eru. Og ég verð að segja það, að mér finnst, að með þessum vinnubrögðum sé Alþ. sýnd óvirðing. Afgreiðsla Alþ. á þessu máli hlýtur að verða hrein sýndarmennska. Ég kem kannske örlítið nánar inn á þessa málsmeðferð síðar.

Í I. kafla þessa frv. er fjallað um útgáfu og sölu ríkisskuldabréfa. Í 1. gr. segir:

„Fjmrh. er heimilt fyrir hönd ríkissjóðs að gefa út til sölu innanlands ríkisskuldabréf eða spariskírteini að upphæð allt að 75 millj. kr.“. Á síðasta ári var einnig tekin í lög heimild til útgáfu slíkra skuldabréfa eða sparimerkjaskírteina. Þá var heimildin 125 millj. Hvers vegna skyldi hún vera þetta mikið lægri núna? Það er líklega ekki af því, að ríkissjóður sé síður févana nú en þá var, heldur speglast í þessu mat ríkisstj. sjálfrar á ástandinu fjárhagsástæðum þjóðarinnar eins og þær eru í dag. Þetta hefur áður verið gert, og það er þannig margítrekað búið að fara í þessa sömu slóð um fjárútvegun til handa ríkissjóði og vegna framkvæmdaáætlunarinnar, eða til þeirra verkefna, sem hún fjallar um. Um þetta má auðvitað deila, og það getur vel verið, að eitthvert fjármagn komi fram við slíkt útboð sem þetta, sem ekki er beint tekið frá hinu almenna bankakerfi eða hefði ella komið inn í það eftir venjulegum innlánaleiðum. Það má sjálfsagt deila um þetta atriði, en ég held, að það verði varla um það deilt, að að meginhluta er það fé, sem hér um ræðir, í raun og veru tekið af viðskiptabönkunum og öðrum innlánastofnunum landsmanna. Og þegar hér við bætast svo aðrar aðgerðir ríkisstj. á undanförnum árum í peningamálunum og í bankamálunum, frysting sparifjárins t.d. og einnig sá siður, sem nú hefur verið tekinn upp, að semja við bankana um það, að þeir leggi árlega tiltekinn hluta af sparifjáraukningu sinni inn í stofnlánastarfsemina, þá er ekki furða, þó að þröngt sé orðið á hinum almenna lánamarkaði og að bönkunum gangi erfiðlega að fullnægja því stóra verkefni að sjá atvinnuvegunum fyrir rekstrar- og starfsfé.

Það hefur ekki verið farið neitt dult með það af hálfu ríkisstj., að hún hefur ætlað að stjórna fjármálalífi landsins og peningamálunum gegnum aðgerðir í bankamálum. Með stefnu sinni í þeim málum hefur ríkisstj. ætlað sér að hafa hemil á verðbólguþróuninni og beina þróun efnahagsmálanna í farsælli farveg en verið hefur. En þegar hér er komið sögu, nú í dag, held ég að enginn — og ekki heldur stjórnarliðið — haldi því fram, að þetta hafi tekizt til neinnar hlítar. Aftur á móti fer það ekki á milli mála, að gegnum árin hefur með lánamálastefnunni verið þrengt tilfinnanlega að atvinnuvegunum á margan hátt. Það er áreiðanlega ekki með nokkrum rétti hægt að segja, að það sé eðlilegt, að fyrirtæki, allgóð fyrirtæki, sem hafa búið við uppgrip, séu svo til strand um leið og uppgripin eru búin. Það er einhver sérstök ástæða til þess, að þetta á sér stað víðs vegar í atvinnulífi þjóðarinnar. Og ein af meginástæðunum er áreiðanlega sú stefna, sem fylgt hefur verið í lánamálum, bæði varðandi stofnlán og rekstrarlán, og sú velta, sem ýmsar atvinnugreinar hafa búið við í þessu efni, bæði sjálfir undirstöðuatvinnuvegirnir og einnig ýmsar þær þjónustugreinar, sem starfandi eru í landinu og ómissandi eru fyrir undirstöðuatvinnuvegina.

Það er ástæða til þess í þessu sambandi að minna á það, sem segir í l. um Seðlabankann, að það sé m.a. hlutverk hans „að annast seðlaútgáfu og vinna að því, að peningamagn í umferð og framboð lánsfjár sé hæfilegt miðað við það, að verðlag haldist stöðugt og framleiðslugeta atvinnuveganna sé nýtt á sem fyllstan og hagkvæmastan hátt. Fyrr á þessu þingi var lögð fram till. til þál. um hlutverk Seðlabankans og var leitað umsagnar um þá till. hjá fulltrúum atvinnuveganna og þeir, sem svöruðu, voru ómyrkir í máli og hikuðu ekki við að láta í ljósi skoðun sína um það, hvernig staðið hefði verið að verkum hvað þetta atriði snertir. Það kom t.d. umsögn frá Landssambandi ísl. útvegsmanna einmitt um þetta atriði. Þar segir svo m.a. með leyfi hæstv. forseta:

„Samtökin hafa álitið, að undanfarin ár hafi hvergi nærri verið séð fyrir nægjanlegu rekstrarfé til útgerðar fiskiskipa né nægjanlegu láni út á unnar sjávarafurðir og lýsa sig því fylgjandi sérhverjum aðgerðum og till., sem miða til bóta í þessu efni. Þá viljum vér benda á, að rekstrarfjárskorturinn til útgerðar fiskiskipa hefur aldrei verið meiri en nú, einkum eftir gengisbreytinguna á s.l. hausti, og hafa rekstrarlán ekkert hækkað, þrátt fyrir eindregnar óskir samtakanna og ábendingar um mikinn kostnaðarauka við að hefja útgerð.“

Þetta eru þeirra ummæli hjá Landssambandi ísl. útvegsmanna. Stéttarsamband bænda hefur einnig svarað varðandi þetta mál og minnt á það, að endurkaup vegna rekstrarlána eru hin sömu í krónutölu og þau voru 1959, og þarf ekki að fara mörgum orðum um það, hversu hagkvæmt það er fyrir þann atvinnurekstur, sem þar á hlut að máli. Það held ég, að sé ómótmælanlegt með öllu, að sú stefna, sem fylgt hefur verið í bankamálum og peningamálum yfirleitt, hefur ekki stöðvað verðbólguna. En hitt hefur tekizt, að þröngva mjög kosti atvinnulífsins í mörgum greinum. Og það er ekki sjáanleg nein breyting á þeirri stefnu.

Í umr., sem áttu sér stað á milli fulltrúa bændastéttarinnar og ríkisstj. fyrir nokkrum vikum síðan, var skýrt frá því, að ákvæðin um bindingu sparifjár væru í ýtarlegri endurskoðun og að því er ég bezt gat skilið, með tilliti til þess að athuga sérstaklega, hvort ekki væri rétt og tímabært að draga úr bindingunni. Um það hefur maður síðan ekkert frétt meira. Og það er ekki annað að sjá af því frv., sem hér liggur fyrir og þeim upplýsingum, sem fram hafa komið í sambandi við það, heldur en halda eigi bindingunni áfram í óbreyttri mynd. Við í minni hl. fjhn. flytjum brtt. varðandi þetta efni, að efni til líka þeim brtt., sem áður hafa verið fluttar varðandi sams konar mál hér í Alþ.

Í 3. gr. þessa frv. er nú eins og áður ákvæði um það, að ríkisskuldabréfin og spariskírteinin, sbr. l. gr., og svo vextir af þeim og verðbætur skuli undanþegin ekki einungis skattlagningu, heldur einnig framtalsskyldu. Við í minni hl. fjhn. erum

andvígir þessu ákvæði. Við teljum það nauðsynlegt, ef hægt á að vera að halda uppi eðlilegu og réttmætu eftirliti með skattaframtölum, að ekki sé heimilt að fella eignir niður úr framtali. Það sé ekki heimilt, jafnvel þótt það kunni að þykja réttmætt að undanþiggja þær skatti í vissum tilfellum. Og við teljum það óeðlilega þróun og viðsjárverða að auka á þetta og gefa mönnum oftar og oftar og í ríkara mæli kost á að telja ekki fram eignir sínar. Og við sjáum ekki, að það sé nein frambærileg ástæða fyrir því að halda slíku ákvæði í frv. og l. um ríkisskuldabréf og sölu spariskírteina og flytjum brtt. varðandi það.

Í II. kafla þessa frv. eru svo lántökuheimildirnar sjálfar, erlendu lánin fyrst og fremst. Þar er um fernar heimildir að ræða. Í fyrsta lagi er það almenn heimild um 275 millj. kr. lántöku. Það er heimild til að ábyrgjast lán hjá Viðreisnarsjóði Evrópuráðsins upp á 500 þús. dollara vegna Vestfjarðaáætlunar, þ.e.a.s. vegna framkvæmda í samgöngumálum á Vestfjörðum. Það er í þriðja lagi vörukaupalán að upphæð 1 millj. 426 þús. dollarar, og í fjórða lagi er svo heimild til 10 millj. kr. lántöku vegna tækjakaupa fyrir flug og rafmagn. Hér er vissulega um stórar fjárfúlgur að ræða, og ég held, að það geti ekki með réttu kallazt neitt óeðlilegt við það, þó að alþm. telji sig þurfa að fjalla um mál, sem eru þetta stór í sniðum, á annan hátt en unnt verður að gera, eins og nú er allt í pottinn búið.

Í III. kafla frv. eru svo ákvæði um það, hversu ráðstafa skuli því fé, sem ræðir um í I. og II. kafla. Þar er í fyrsta lagi um það að ræða að endurlána framkvæmdasjóði allt að 113 millj. kr. af láni skv. 5. gr., þ.e.a.s. af almenna 275 millj. kr. láninu.

Það er einnig augljóst, að ráðstöfun þessa fjár er mikið mál. Og það er óhætt að segja það, að mörgum hv. alþm. mundi áreiðanlega þykja það miklu varða, að eiga um það nokkurn tillögurétt, hversu Framkvæmdasjóður Íslands deilir því fé, sem hann fær til umráða, á milli hinna ýmsu stofnlánasjóða. En það er með það eins og fleira, að til þess gefst lítið tóm hér í Alþ. eða annars staðar.

Ein sú lánastofnun, sem framkvæmdasjóðurinn leggur til fé, er stofnlánadeild landbúnaðarins. Um þau verkefni, sem henni er ætlað að sinna, er það t.d. vitað, að mjög miklar og dýrar framkvæmdir eru nauðsynlegar í hinum ýmsu vinnslustöðvum landbúnaðarins. Þar er um að ræða bæði mjólkurbúin, því að eins og mönnum er kunnugt, er orðið langt um liðið síðan þau voru reist í fyrstunni, sum er að vísu búið að endurbyggja, en önnur þurfa endurbyggingar við, og sums staðar stendur endurbygging yfir. En þó er enn meiri og enn brýnni þörf átaka á þeirri hliðinni, sem viðkemur kjötframleiðslunni. Endurbygging margra sláturhúsa er nú mjög aðkallandi, bæði vegna þess að þau fullnægja ekki þeim kröfum, sem innlend heilbrigðisþjónusta og vandlátir erlendir markaðir gera til þeirra, og einnig vegna hins, að þau þarf að endurbyggja af hagkvæmniástæðum, til þess að hægt sé að koma við nýjustu vinnubrögðum, sem að áliti þeirra, sem skoðað hafa þessi mál nákvæmlega, gætu orðið til mjög verulegs sparnaðar og lækkunar á vinnslukostnaði kjötsins. Ég nefni þetta rétt svona sem dæmi um þau atriði, sem þarna er um að ræða, því að þetta eins og skýrir það, hversu margt það er og stórt í sniðum, sem hér er fjallað um, og mikil ástæða til þess að skyggnast nánar undir yfirborðið en hægt er að gera, eins og málið ber hér að.

Í 11. gr. frv. er svo fjallað um það, hvernig því lánsfé, sem aflað er með sölu ríkisskuldabréfa og með almenna erlenda láninu o.fl., skuli varið, því, sem ekki fer gegnum framkvæmdasjóðinn og út í stofnlánakerfið. Í þessari gr. eru liðir eins og Rafmagnsveitur ríkisins, sérstakar framkvæmdir í raforkumálum, gufuveita í Reykjahlíð, jarðborun á Reykjanesi, landshafnir, vegir, m. a. Hafnarfjarðarvegur í Kópavogi o.s.frv. Og upphæðirnar, sem nefndar eru, eru allt upp í 82.6 millj. kr. á einum og sama lið.

Hér gætu áreiðanlega verið deildar meiningar um það, hversu með þetta fjármagn skuli fara, en það er hvort tveggja, að málið er þá fyrst lagt fram, þegar búið er að setja það upp lið fyrir lið, og að tími til skoðunar er nálega enginn, svo að útilokað má kalla að setja fram veigamiklar brtt. En það er vissulega ekki af því, að þarna sé ekki um mörg atriði að ræða, sem menn kynnu að vilja skoða nánar. Hér er t.d. einn eða tveir liðir um raforkumál, og þá fer ekki hjá því, að menn leiði hugann að því, hvernig búið hefur verið að þeim málum á undangengnu góðæristímabili. Hvað hefur verið gert í orkuvinnslumálunum, í byggingu nýrra orkuvera, á þessu tímabili? Það er næsta lítið. Allt Austurlandssvæðið og Hornafjarðarsvæðið með býr nú að mjög miklu leyti við olíuorku, sem er mjög dýr, miklu dýrari en á orkuveitusvæðum vatnsorkuvirkjana og auk þess ótrygg. Og á þessu árabili hefur verið hrúgað upp dísilstöðvum á dísilstöðvar ofan, á meðan eitthvert bezta og auðvirkjanlegasta vatnsfall á landinu, Lagarfljót, rennur óbeizlað til sjávar. Á Hornafirði, sem ekki er á Austfjarðaveitusvæðinu, hefur alveg sama sagan gerzt. Þar hefur dísilrafmagnið verið notað á Höfn og því hefur verið veitt út um sveitirnar á sama tíma og Smyrlabjargaá fellur óbeizluð fram á sandinn, á meðan hluti af virkjanaefninu liggur þar í sandinum í 8-9 ár og rústar. En annar hluti af efni til þessarar virkjunar, vélarnar, eru geymdar innsmurðar í vörugeymsluhúsum suður í Reykjavík. Það er einnig möguleiki að nýta betur þá vatnsorku, sem þó er fyrir á sumum svæðum, með því að tengja inn á þau svæði staði, sem enn þá búa við dísilrafmagn, og mér er kunnugt um það, að í till. framkvæmdastj. Rafmagnsveitna ríkisins um framkvæmdir á þessu ári voru a.m.k. tvö atriði, sem fjölluðu um það að tengja slík svæði við vatnsorkuver, annars vegar kauptúnin á Melrakkasléttunni við Laxárvirkjunarsvæðið og hins vegar Dalasýslusvæðið og Búðardal við virkjanirnar norður í Strandasýslu.

Það er augljóst hversu vanrækt hefur verið að beina orkuvinnslunni að vatnsaflinu á þessu undangengna árabili, en í stað þess hlaðið upp með gífurlegum kostnaði dísilstöðvum, sem framleiða svo rafmagn, sem stöðugt hækkar í verði vegna hækkana á brennsluefninu. Þarf því nokkurn að undra, þó að þm. kynnu að vilja skoða hluti eins og þessa nokkru nánar en hægt er að gera á fjórum annríkisdögum eða svo. Og það er þannig um ýmislegt fleira hér í frv. og þeim skjölum, sem því fylgja.

Hér er t.d. einhvers staðar gert ráð fyrir fjárveitingu eða lánsfé til að gera tilraunagufuvirkjun norður við Mývatn. Þetta er sjálfsagt ágætt mál og nauðsynlegt að kanna það, hverjir möguleikar hér eru fyrir hendi, en það breytir ekki því, að það er óeðlilegt, að Alþ. fjalli um það á þann hátt, sem hér er gert.

Það eru vissulega fleiri þættir, sem menn kynnu að vilja skoða nánar, ef tóm væri til. Það eru t.d. hafnarmálin. Hér er gert ráð fyrir að nota í þrjár landshafnir 40 millj. kr., og það er langdregið sú fjárhæð, sem ætluð er á fjárl. til allra annarra hafna á landinu. Það er ekkert með ólíkindum, að menn vildu athuga þá hluti örlítið nánar. Og það er raunar eins með það fé, sem hér er ætlað til vega. Sennilegt þykir mér þó, eftir þeim upplýsingum, sem við fengum í fjhn., að um vegamálin megi segja það, að flest þau atriði, sem fjallað er um hér, séu einnig í vegáætlun. En þá kemur það líka til athugunar, sem áður hefur verið rætt hér um og gagnrýnt, að í vegáætlun, sem er þó vissulega áætlun um framkvæmdir, hvernig þeim skuli raðað og hvað skuli gert það og það árið, í vegáætluninni eru lántökuheimildir fjölda margar, en síðan er í framkvæmdaáætlun ríkisins valið úr og þar með skekkt sú mynd, sem Alþ. var búið að setja upp af því, í hvaða röð verkefni í vegamálum skyldu unnin. Allar stærstu upphæðirnar í þeim 82 millj. kr., sem hér um ræðir, fara í skuldagreiðslur. Langsamlega hæsta upphæðin er til þess að greiða af skuldinni vegna Reykjanesbrautar, 43.7 millj. kr., 10 millj. vegna vega til Búrfellsvirkjunar og 11.6 millj. vegna Kísilvegarins norður frá.

Það er auðvitað tilgangslaust að fara að rekja í einstökum atriðum hina ýmsu liði varðandi ráðstöfun þessa fjár. En meðferð þessa máls hér nú, sem afgreitt verður á 6 dögum, máls, sem með eðlilegum hætti hefði átt að fylgja fjárl. og fá líka afgreiðslu og fjárlög fá, er enn þá eitt áberandi dæmi um það, hversu raunverulegt fjárveitingavald er dregið úr höndum Alþingis eftir ýmsum leiðum. Annars er það mjög eftirtektarvert, að nú er svo komið, að fjölmargar þær framkvæmdir, sem áður voru á fjárl., fjölmargar almennar framkvæmdir er nú fyrirhugað að vinna með lánsfé, annaðhvort erlendu eða innlendu. Þetta er vissulega viðsjárverð þróun, en hún er hins vegar alveg dæmigerð fyrir þá stefnu og þá starfsaðferð, sem núv. hæstv. ríkisstj. temur sér í vaxandi mæli. Það eru kunn dæmin frá því fyrir síðustu kosningar, hversu reynt var að velta á undan sér hlutunum og enn þá er þessu haldið áfram að nokkru leyti, þó að menn hafi þegar orðið að taka til við að greiða suma þá „víxla“ sem þá voru gefnir út.

Ég ætla ekki að rifja þau mál upp í einstökum atriðum. Það er ástæðulaust við þessa umr. En ég vil þó rétt minna á það, að við vorum ekki fyrr teknir til við þingstörf í haust en komið var með frv. til l. um efnahagsaðgerðir, sem fól það í sér að klóra saman um 400 millj. kr. til þess að Ijúka við að ná saman endum á þeim fjárl., sem höfðu verið afgreidd fyrir kosningar.

Erlendar lántökur eru ekki nýtt fyrirbæri. En það hefur löngum þótt góð latína — og er það vissulega enn — að nota erlent lánsfé fyrst og fremst til þess að efla arðbærar atvinnugreinar eða hrinda áleiðis framkvæmdum, sem eru þjóðhagslega mikilvægar og nokkuð stórar í sniðum. En hér eins og víðar í ferli ríkisstj. hefur verið brotið blað, og það er kannske skiljanlegt, þegar athugað er, hvernig allt er nú komið á kaf hjá þessari hæstv. ríkisstj.

Minni hl. fjhn. flytur aðeins tvær brtt. við frv. að þessu sinni. Fyrri brtt. er við 1. gr. frv. og er þess efnis, að útgáfa ríkisskuldabréfa og spariskírteina sé því aðeins leyfð, að Seðlabankinn hverfi frá frystingunni. Hin brtt. er um það atriði, sem ég gerði að umtalsefni hér áðan, framtalsskylduna, að fella niður úr 3. gr. orðin „framtalsskyldu og“, því að eins og ég þá gerði grein fyrir, teljum við það atriði alveg óeðlilegt. Það er vissulega ýmislegt fleira en ég hef gert að umtalsefni, sem athugunarvert er við þetta frv. að okkar dómi í minni hl. fjhn., en til þess er tíminn allt of naumur. Og það er áreiðanlega ekki til þess ætlazt af hæstv. ríkisstj., að um þessi mál sé fjallað á venjulegan hátt eða farið með neinni nákvæmni ofan í málið. Ég held, að nál. meiri hl. um þetta stóra mál sanni það betur en mörg orð, því að það hefur rúmazt hér í tveimur línum.

En meðferð þessa máls í Alþ. er í samræmi við aðra meðferð mála hér í þingi í vetur. Frá því að Alþ. kom saman í haust og fjárlög voru lögð fram og þangað til þetta frv. er lagt fram, þá telst mér svo til, að ríkisstj. sé búin að leggja fram 20 frv. um alls konar fjármálaráðstafanir og flest einhvers konar vandræðaráðstafanir. Þetta byrjaði með efnahagsmálafrv., sem dagaði hér uppi í þinginu í þann mund, sem Bretar felldu sterlingspundið, og síðan hefur straumurinn haldið áfram nær óslitið, svolítið mismunandi hratt að vísu. Það munu hafa orðið ein sjö frv., sem fylgdu gengislækkuninni, og það vildi svoleiðis til, að síðasta frv. í þessum flokki, þ.e. frv. um breytingu á tollskránni, var ekki búið að vera nema nokkra daga fyrir Alþ., þegar ríkisstj. lagði fram frv. til bjargar sjávarútveginum, sem hún hafði verið að hjálpa með gengisbreytingunni við áramót. En þó tókst ekki verr til en svo, að frv., sem beint fylgdu gengisbreytingunni, voru komin fram aðeins á undan, svo að þetta varð allt í réttri röð! Ég hygg, að frv. vegna erfiðleika sjávarútvegsins séu orðin ein fjögur a.m.k. Og „fjárlaga“-frv. eru orðin mörg. Fyrst kom fjárlagafrv. sjálft, síðan efnahagsmálafrv., sem var viðbætir við fjárl. 1967. Síðan kom gengisbreytingin með öllu tilheyrandi og vissulega hafði hún stórkostleg áhrif á fjárreiður ríkissjóðs. Svo koma sérstök vegafjárlög, þá sparnaðarfjárlög og svo koma loks þau lánafjárlög, sem hér er fjallað um núna. Ég held, að það sé ekkert ósanngjarnt, þó að maður segi, að í þessum málum hafi á þessu Alþ. frá hálfu ríkisstj. ríkt alger ringulreið. Ég held, að það sé bara ekkert of djúpt tekið í árinni. Og ég held, að það sé varla hægt að búast við því, að nokkur ríkisstj. komist þá öllu lengra en að leggja fram að jafnaði eitt vandræðafrumvarp á viku. Svo fylgir það langoftast með í kaupbæti, að málin á að afgreiða sem allra, allra fyrst, núna t.d. á sex dögum. Og þannig hefur þetta verið æ ofan í æ, að það hefur verið óskað eftir afgreiðslu með hraði.

Svo er rekið smiðshöggið á verkið hvað snertir vinnubrögðin á Alþ. þessa síðustu daga, því að nú er hér allt í einni bendu. Ég hef ekki haft aðstöðu til þess að telja þau stjfrv., sem nú liggja fyrir til afgreiðslu, en þau eru mörg. Hitt er ég viss um, að það skiptir mörgum tugum, sem fyrir Alþ. liggur nú af nál. um mál, sem búið er að afgreiða í nefndum og ekki hefur verið tóm til að ræða. Mér er sagt, að það standi til, að utanrrh. flytji hér skýrslu um utanríkismál. Sennilegt er, að hún verði eitthvað rædd. Mér skildist á tali manna í fjhn. á skírdag, því að þá var þar síðasti fundur í fjhn., að það væri von á skýrslu frá fjmrh. E.t.v. vildu þm. segja eitthvað um hana. Svo eru útvarpsumr. tvö kvöld. Allt á þetta að ljúkast á 4 dögum. Það er ekki furða, þó að það séu ýmis mál, sem erfitt er að fá rædd hér á þingi undir lokin, þegar svona er að unnið. Og ég spyr: Hvers vegna þarf að vinna svona að málum á síðustu dögum þingsins og hvað er það, sem liggur á bak við þá ákvörðun, að Alþ. skuli ljúka á laugardaginn kemur, eins og okkur hefur verið tjáð, hvað sem tauti og rauli, — hvað er það, sem þarna er á bak við?

Varðandi frv., sem hér liggur fyrir, vil ég aðeins segja það að lokum, að minni hl. fjhn. lætur sér nægja að flytja við það þær brtt. tvær, sem ég hef lýst, enda þótt að hans dómi séu þar mjög mörg atriði, sem þurft hefði að athuga nánar.