16.04.1968
Neðri deild: 98. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1434 í B-deild Alþingistíðinda. (1308)

187. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar 1968

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja mikið þessar umr. Hv. 5. þm. Austf. sagði, að það væri hættuleg þróun að lána til framkvæmda. Um þetta geta verið skiptar skoðanir, en þegar þessir sömu menn kvarta jafnframt undan háum sköttum og krefjast meiri framkvæmda, þá er auðvitað erfitt að mæta því nema með því að taka lán. Hins vegar get ég að sumu leyti verið sammála því, sem hv. þm. sagði í byrjun sinnar ræðu í sambandi við það frv., sem hér liggur fyrir, um heimild fyrir ríkisstj. til að taka lán vegna framkvæmdaáætlunar fyrir árið 1968. Mér er það alveg ljóst, að að baki slíku frv. liggur mikil vinna og það er kannske erfitt og ekki sanngjarnt að krefjast þess, að það liggi fyrir við afgreiðslu fjárl., en hitt verður þó að segja, að það er afleitt, að það skuli vera lagt fram, þegar komið er að þinglokum, og erfiðast af öllu finnst mér, og um það get ég ekki látið hjá líða að gera aths., að um ráðstöfun fjár samkv. ýmsum liðum 11. gr. frv. liggja ekki fyrir, þm. til glöggvunar, neinar sundurliðaðar upplýsingar. Og mér brá nú heldur í brún, þegar frsm. meiri hl. fjhn. mælti hér fyrir frv. og skýrði á engan hátt þessa liði. Hv. frsm. minni hl. var svo að burðast við að skýra lítillega liðina, maður fékk þó meginþorrann af vegunum út úr hans ræðu. Ég segi fyrir mitt leyti, að ég hef ekki hugmynd um, hvernig þessir liðir sundurliðast hér í frv. Ég tel, að þetta frv. beri alls ekki rétt að.

Í aths. við 11. gr. frv. segir, að nánari grg. um skiptingu lánsfjár á einstakar framkvæmdir verði gefin út í sambandi við framkvæmda- og fjáröflunaráætlun ríkisstj. árið 1968. Ég hefði talið, að slík skýrsla hefði átt að koma á undan, áður en þetta frv. er afgreitt hér út úr hv. þd. Ég get ekki látið hjá líða að gera þessar aths. Mér er það ljóst, að í 11. gr. eru ákveðnir liðir, sem skýra sig sjálfir, og það stórir liðir eins og Búrfellsvirkjun, 75 millj. kr. Þetta er auðvitað sjálfsögð og eðlileg heimild, og raunar eru kannske allar þessar heimildir það, en ég tel, að þdm. eigi að fá skýrslu um það, hvernig þessir liðir sundurliðast.

Mér leikur t.d. mikil forvitni á að vita nánar um efni 7. gr. frv. Þar er endurnýjuð heimild handa fjmrh. til að ábyrgjast fyrir hönd ríkissjóðs lán hjá Viðreisnarsjóði Evrópuráðsins, sem mun tekið af Framkvæmdasjóði Íslands, að fjárhæð 500 þús. dollarar. Þegar samgönguáætlun Vestfjarða var samþ. og ríkisstj. ákvað að hrinda þeirri áætlun í framkvæmd, sem var myndarleg áætlun og Vestfirðingar meta mikils, þá var reiknað með, að 50% kæmu á móti af innlendu fjármagni. Sá hluti hefur komið að verulegu leyti til hafnarframkvæmda, einnig hefur komið allmikill hluti, en þó engan veginn nóg, til vegaframkvæmda, en til þess að halda þessum framkvæmdum áfram, verður auðvitað það fé að koma allt. Í einum þætti þessarar áætlunar, flugmálunum, finnst mér, að lítið hafi komið af innlenda fjármagninu, og mér er það einnig ljóst, að framlögum, sem veitt eru til flugvalla- og flugstöðvabygginga hefur verið skipt af flugráði. Ég sé hér á töflunni 6 millj. kr. til flugmála. Á þetta að fara til flugráðs? Á það að skipta þessu? Eða er þetta einhver ákveðin framkvæmd, sem um er að ræða? Þetta hef ég talið, að þm. ættu kröfu til að fá að vita, fá gleggri skýrslu yfir, og ég tel, að þó áliðið sé þingtíma, eigi, ef þetta ber rétt að og skýrslur eru gefnar, að vera hægt að afgreiða málið, afgreiða bæði þessi mál og önnur á tiltölulega, stuttum tíma, því að ég hygg, að sem betur fer séu þm. almennt það fljótir að átta sig á hlutunum, þegar upplýsingar liggja fyrir, að það þurfi ekki að vera að fresta þingslitum þess vegna fram eftir öllu vori. Þing hefur nú staðið þegar nógu lengi að mínum dómi, en ég vildi sem sagt láta þetta koma hér fram, að ég lýsi yfir óánægju minni með það, að þessi skýrsla skuli ekki gefin á undan og það eigi að afgreiða þetta frv. út úr þd., án þess að gefa slíka skýrslu.