16.04.1968
Neðri deild: 98. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1444 í B-deild Alþingistíðinda. (1312)

187. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar 1968

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Ég vil þakka hæstv. ráðh. fyrir þær upplýsingar, sem hann lét nú í té. Þær voru að verulegu leyti mikils virði fyrir mig, því að þarna greindi hann frá því, hvernig ætlunin væri, að unnið yrði fyrir lánsfé í vegum á Vestfjörðum á yfirstandandi sumri. Og þá kemur það í ljós samkv. þessum upplýsingum hæstv. ráðh.; að þessi skýrsla, sem fylgir frv., er röng. Þar segir skýrum stöfum, að vegaframkvæmdir á Vestfjörðum eigi að nema 19.7 millj. kr. og þar að auki skuldagreiðslur þeirra vegna 2.1 millj., eða 21.8 millj., en hæstv. ráðh. segir, að þetta verði ekki nema 16 millj. kr. Þarna er strax farið að leiðrétta skýrsluna, sem fylgir frv., og munar þó nokkru, plöggin taka skyndilega breytingu nú á tímum.

Það kemur einnig fram í svari hans, þó að óbeint sé, að ákvörðun Alþ. frá í fyrra um vegagerð fyrir lánsfé er fallin úr gildi eða réttara sagt er felld úr gildi með þessu frv., og þó ekki með frv. sjálfu, heldur með ákvörðun ríkisstj., þegar hún skiptir fénu, sem þarna er tilgreint í frv. Þó að Alþ. hafi í fyrra ákveðið fjármagn í tiltekna vegi á þessu ári, gildir það ekki. Ég sé hvað snertir Vestfjarðavegina, að sumir eru hækkaðir, aðrir eru lækkaðir. Nýir vegakaflar eru teknir upp og einn a.m.k. er algerlega felldur niður. Það er Gemlufallsheiði, sem átti að fá tæpar 2 millj. á þessu sumri, en fær nú ekkert. Þetta þykja mér dálítil tíðindi, og mér finnst það nokkurs virði að fá þessar upplýsingar, þótt seint sé.

Hæstv. ráðh. nefndi framlög til hafna á Vestfjörðum, en ég kynni mér það seinna, ég náði því ekki alveg. Til flugvalla nefndi hann 1.2 millj. í Ísafjarðarflugvöll og annað væri það ekki þar. En um rafmagnsframkvæmdir nefndi hann ekki neitt, svo að ég tek það svo, að það eigi ekkert að vinna fyrir lánsfé á Vestfjörðum að rafmagnsframkvæmdum. (Gripið fram í.) Fyrir lánsfé á ekkert að vinna þar eftir þessu að dæma.

Hæstv. ráðh. tók því með lítilli ánægju, að ég gerði aths. við það orðalag í þessu frv. að nefna Reykjanes og taldi, að það væru harla litlar upplýsingar. Hann segir, að ég hefði þó átt að geta vitað þetta, ef ég hefði hlustað á sig um daginn, því að hann hefði sagt, hvaða Reykjanes þetta væri í framsöguræðu sinni fyrir þessu frv. En það er ekki framsöguræðan, sem Alþ. á að samþ., heldur frv. Þess vegna á þetta að standa í frv., jafnvel þótt það stæði ekkert í framsöguræðunni, því að Alþ. greiðir ekki atkv. um hana.

Að öðru leyti skal ég ekki orðlengja þetta meira. Ég heyri, að hæstv. ráðh. hefur viðurkennt, að það mætti mjög að þessari málsmeðferð finna, og það er heldur ekki ofsögum sagt. En ég endurtek það, sem hann sagði sjálfur: Þetta er ekki til fyrirmyndar.