16.04.1968
Neðri deild: 98. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1447 í B-deild Alþingistíðinda. (1315)

187. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar 1968

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hæstv. fjmrh. fyrir svör við tveimur fsp., sem ég bar fram fyrr á fundinum, enda þótt ég sé ekki ánægður með svör hans. Ég spurði um Vestfjarðaáætlunina og gerði grein fyrir því, hvers vegna ég spyrði um hana. Það var ekki eingöngu vegna Vestfirðinga, enda hafa hv. þm. af Vestfjörðum rætt það mál frá sínu sjónarmiði. Ég fékk það svar, að hæstv. fyrrv. fjmrh., ef ég tók rétt eftir, hefði gert grein fyrir Vestfjarðaáætluninni. Það hlýtur að hafa verið í ræðu, og lítt minnist ég nú þeirrar grg. og nokkuð langt er nú orðið síðan. En það, sem ég var að spyrja um, var það, hvort ekki væri hægt að birta þessa áætlun á prenti, áður en þessu þingi lyki.

Hitt var það, að ég spurði um áætlunaratriði úr hinni endurskoðuðu vegáætlun fyrir 1967—1968 varðandi nokkrar upphæðir, sem þar er áætlað að taka að láni á árinu 1967—1968. Mér virtist svar ráðh. við þessu fullglöggt, þó að ég hefði litla ánægju af því. En nú vil ég aðeins láta það koma fram, að ég vil mega vænta þess, að síðasta umr. þessa máls fari ekki fyrr fram en svo, að ráðrúm sé til þess að bera fram brtt. einmitt í tilefni af þessu máli og þá athuga í því sambandi, hvort möguleikar mundu vera til þess að fá slíka brtt. samþykkta.