17.04.1968
Efri deild: 93. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1460 í B-deild Alþingistíðinda. (1323)

187. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar 1968

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð í sambandi við nokkur atriði, sem hv. 11. þm. Reykv. sagði í sinni ræðu, sem ég að öðru leyti hef ekkert við að athuga. Hann talaði af reynslu og þekkingu um þessi mál, enda bankastjóri og þekkir vel öll þau vandamál, sem hér er við að glíma. Ég hef ekkert við það að athuga, sem hann sagði, að það er erfitt um lánamál almennt og því eðlilegt, að bankastjórar finni fyrir því, að það sé ekki þægilegt að standa í því starfi og auðvitað taka við kvöðum.

Hitt veit ég jafnframt, enda kom það fram í hans ræðu, að hann hefur fullan skilning á því, að það verður ekki hjá því komizt að leita að vissu marki eftir fé til opinberra framkvæmda, ekki sízt fjárfestingarlánasjóðanna, á hinum almenna lánamarkaði í landinu. Ég held hins vegar, að einmitt öflun hins erlenda fjár nú sé mjög veigamikið spor til að létta undir með bönkunum, vegna þess að auðvitað batnar aðstaða margra þeirra fyrirtækja í bönkunum, sem eiga að njóta góðs af þessu fé gegnum framkvæmdasjóðinn. Þeirra aðstaða í bönkunum batnar, því að með einhverjum hætti ná fyrirtækin í sitt fjárfestingarfé, það er komin reynsla á það undanfarin ár, þannig að auðvitað léttir það allverulega á bönkunum, að þessa fjár skuli nú vera aflað.

Ég skal ekki fara hér út í sparifjárbindinguna. Það er mál, sem vitanlega verður að athuga miðað við efnahagsþróunina í þjóðfélaginu, hvort hægt er með einhverjum hætti að draga úr henni eða hvaða stefnu þarf að hafa í þeim efnum. Það veit ég, að hv. þm. er mér einnig sammála um, að það verður að skoðast með hliðsjón af vandamálinu í heild, sem við er að glíma, bæði eftirspurn eftir lánsfé inn á við og svo aftur okkar gjaldeyrismöguleikum út á við.

Hv. þm. sagði, að þetta mál væri seint á ferðinni, og það var í samræmi við það, sem ég sagði í minni ræðu. Því miður hefur ekki reynzt auðið að bera það fram fyrr, og ég tek fyllilega við öllum ákúrum út af því. En eins og ég gat um í minni ræðu, var m.a. ákveðið í sambandi við það vandamál að leysa erfiðleika ríkissjóðs eftir þessar nýju kvaðir, sem á hann voru lagðar, að taka út úr fjárlögum verulegar fjárhæðir, sem varð þá að reyna að afla fjár til innan framkvæmdaáætlunarinnar, og það var auðvitað ekki hrist fram úr erminni, án þess að kanna það mál nánar. Það er eðlilegt. Það lán, sem upphaflega var ætlunin að taka, var töluvert lægra en það, sem við sjáum, að við neyðumst til að reyna að taka núna, og sú lánsfjáröflun var hugsuð meira til að „konvertera“ ýmsum stuttum lánaskuldbindingum, en ekki til að nota á þann hátt, sem hér er gert ráð fyrir, og öll þessi viðhorf, sem við höfum þurft að standa andspænis síðustu mánuðina og alltaf hafa verið breytingum undirorpin, hafa átt sinn þátt í, hvað þessu hefur seinkað.

Varðandi það, að bankastjórar hafi fengið þetta fyrst sem trúnaðarmál, veit ég ekki, hvort er hægt að lasta það, að ríkisstj. gerði það, vegna þess að ég hygg, að þeim hefði líka þótt það nokkuð súrt í brotið, ef farið hefði verið að gera grein fyrir því hér í hv. Alþ., að það væri beinlínis gengið út frá því, að þeir legðu fram fé í þessa framkvæmdaáætlun, án þess að búið væri að ræða við þá, náttúrlega í trúnaði, á því stigi málsins og leita eftir því, hvort það væru líkur til, að bankarnir mundu fallast á að hjálpa til með þetta eins og þeir hafa gert að undanförnu. Að leggja það fyrst opinberlega fyrir þingið, held ég, að hann muni nú geta verið mér sammála um, að hefði ekki verið sérstaklega drengilegt gagnvart bönkunum. En það skiptir nú auðvitað ekki neinu meginefni í þessu máli.

Varðandi örfá atriði, sem hann vék að, vildi ég segja þetta: Hann gat um, að það væri 15 millj. kr. munur á lánsfjáröfluninni og því, sem talin væri þörf á, þ.e.a.s. það stæðu út af í hinn endann rúmar 12 millj. kr., sem gert væri ráð fyrir, að þyrfti að taka bráðabirgðalán til. Ástæðan fyrir þessu er sú, að það eru um 15 millj. kr. af erlenda láninu, sem ekki er reiknað með, að geti komið til úthlutunar, og það byggist á því í flestum tilfellum, að þegar boðin eru út erlend lán, verður að borga einhverja vexti fyrirfram, þannig að við reiknum með, að það geti farið allt upp í þessa fjárhæð, sem óumflýjanlegt verði að borga í fyrirframvexti og ýmsan kostnað í sambandi við þá lántöku.

Skiptingu lána framkvæmdasjóðsins hef ég ekki rætt hér,vegna þess að það er gert ráð fyrir því I. samkvæmt, að sjóðstjórnin skipti fé framkvæmdasjóðsins milli hinna einstöku fjárfestingarlánasjóða og þó að menn hafi að vísu gert sér hugmynd um það og drög hafi legið fyrir um það, hvernig þetta yrði gert, hygg ég, að stjórn framkvæmdasjóðsins sé ekki enn þá búin að leggja síðustu hönd á það verk, þannig að það væri ekki viðeigandi að fara að skýra frá því hér, hvernig hún hugsar sér endanlega ráðstöfun fjárins, og það er ekki löggjafaratriði í sambandi við þetta mál, þar eð það er beinlínis á hennar valdi, hvernig þetta verði gert, heldur er eingöngu aflað hér heimildar til að endurlána framkvæmdasjóðnum, eins og sagt er, vissa fjárhæð, sem svo verði notuð til þessara þarfa ásamt öðru fé sjóðsins.

Mismunur á vegafé Vestfjarða skil ég nú ekki, hvernig getur hafa átt sér stað, nema hugsanlegt er, að nokkur mismunur sé vegna fjárhæðar, sem ætluð hefur verið til Bolungarvíkurvegar og áformað var, að yrði notuð til hafnargerðar í Bolungarvík. Nú er við það vandamál að glíma að Bolungarvíkurhöfn hefur fyllzt af sandi, og það þarf að gera vissar breytingar á fjárveitingum vestra, sem nú eru í athugun, m.a. í samningum við Ísafjarðarhöfn, hvort hægt er að fresta framkvæmdum þar og nota féð til Bolungarvíkur, og það hefur jafnvel verið talað um í því sambandi að nota 1 millj. kr., sem á að renna til Bolungarvíkurvegar, til hafnargerðarinnar, því að það er ekki fyrirfram ákveðið, hvernig þetta Vestfjarðafé nákvæmlega skuli skiptast, þannig að þetta mundi þá verða heimilt í samráði við aðila þar heima fyrir. En ég hygg ekki, að það geti verið um mismun að ræða á milli þessara talna, sem neinu nemur. Ég hef að vísu ekki mínar tölur, en þær voru ekki lesnar upp í hundruðum þús., þannig að það getur fljótt munað kannske 0.5 millj. eða 1 millj. að öðru leyti á þann veg.

Varðandi endurgreiðslu spariskírteinalána er það að segja, að það er í rauninni algerlega ómögulegt að gera sér grein fyrir þessu. Það er gert ráð fyrir því, að það geti þurft að greiða allt þetta, eins og hv. þm. sagði. Fólkið, sem á þessi skírteini, á kröfu til þess að fá þau greidd, og það er þess vegna reiknað raunverulega með þeim til útgjalda á þessu ári og gert ráð fyrir því, að það verði að afla fjár, ef þau verða innleyst. Það er alveg rétt, þannig að það kann að vera, að það þurfi að selja skírteini. Og það kann að vísu að koma fram sem nýtt álag á bankana, vegna þess að auðvitað getur verið, að menn eyði því fé í annað en leggja það í banka. Það er ekki gott að segja. En almennt á peningamarkaðinn leggur það ekki auknar álögur, vegna þess að þessu er þá skilað aftur í endurgreiðslum lánanna. Og í þessu sambandi vil ég benda á, að þetta hefur í rauninni ekki áhrif á samanburð áranna í ár og í fyrra, vegna þess að í fyrra var þessi upphæð 61 millj., sem var reiknað með, að væri þá í endurgreiddum spariskírteinalánum. Ég hef því miður ekki þá tölu, hvað raunverulega þurfti að selja, en ég hygg, að meginhlutann af þessu hafi ekki þurft að selja, heldur hafi menn framlengt þessi bréf sín, en ekki hirt um að innleysa þau. En ég held, að það sé ekki neinn möguleiki til þess á þessu stigi að svara því, hvað raunverulega muni þurfa að selja af þessum bréfum. En það breytir, held ég, ekki í meginefnum þeirri staðreynd, að þarna er um að ræða 50 millj. kr. minni heildarsölu og raunar kannske heldur meira, sem er ætlazt til að selja spariskírteini, ef við tökum endurgreiðslurnar 50 millj. núna og 61 millj. í fyrra, þannig að það hafi ekki áhrif á meginefni málsins.

Varðandi það, sem hv. þm. sagði um framtalsskyldu þessara bréfa, þá er ég honum efnislega alveg sammála, og ég held, að ég hafi látið það í ljós hér í fyrra líka. Það var hins vegar tekinn sá háttur upp um þessi bréf að láta gilda um þau sama og spariféð, sem ekki er heldur framtalsskylt, og ég skal játa, að hvort tveggja tel ég ákaflega vafasamt og álít, að það þurfi að taka það mál til sérstakrar athugunar, þegar endurskoðun fer fram á skattal., sem væntanlega verður nú á næstunni í sambandi við staðgreiðslukerfið. Þá verður þetta mál allt tekið til heildarathugunar. Ég mundi hins vegar telja það dálítið vafasamt, enda hefur það nú enga úrslitaþýðingu fyrir þetta mál, ef farið yrði að breyta því í sambandi við þessi spariskírteini, sem nú eru gefin út, og ég hygg, að þessi vandi sé ekki meiri með spariskírteini og ekki meiri hætta á undanskoti þeirra en þá beinlínis sparifjárins, og svo er náttúrlega þess líka að gæta, að ef bréfin eru ekki framtalsskyld og þau eru ekki skattskyld heldur, þá má segja, að þetta skipti ekki kannski öllu máli. Allavega er hér um alveg sambærilega hluti að ræða eins og spariféð í bönkunum, og það var ætlunin, að um þetta giltu sömu reglur. Þó að ég telji ekki fært að breyta þessu núna, þá er síður en svo, að það sé í andstöðu við það sjónarmið, sem hv. þm. lýsti. Ég tel nauðsynlegt, eins og ég sagði, að taka það til rækilegrar athugunar að breyta þessu í heild og hætta þessu framtalsskyldufrelsi, vegna þess að það leiðir af sér stórfelld vandræði, og varðandi skoðun ríkisskattstjóra á því held ég, að það sé ekkert efamál, að hann er bæði andvígur þessu og framtalsfrelsi sparifjár líka, þannig að það fari ekkert á milli mála.