19.04.1968
Efri deild: 97. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1470 í B-deild Alþingistíðinda. (1329)

187. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar 1968

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð út af þeim brtt., sem við í minni hl. fjhn. höfum flutt og hv. frsm. meiri hl. gat ekki fallizt á og taldi mjög fráleitar. Langar mig til þess að rökstyðja þær örlítið nánar frá mínu sjónarmiði.

Hv. 12. þm. Reykv. (ÓB) talaði um það í gamansömum tón, að stjórnarandstæðingar vildu allt eiga og ekkert borga, eins og einhvern tíma hefur verið sagt um vissa persónu, að við hefðum talið okkur hafa fundið upp lind, sem aldrei þyrfti að láta neitt í, en alltaf væri hægt að taka allt út úr. Ég held, að þetta sé skrýtla, sem ágætt er að hlæja að, en sé nú ekki annað, og ég tek það a.m.k. ekki alvarlega. En í sambandi við þessa innlánsbindingu hefur það auðvitað oft verið rifjað hér upp, að því meiri sem hún er, þeim mun meira rýrnar geta viðskiptabankanna, og þetta er spursmál, sem menn verða auðvitað að gera upp við sig, hvar þeir vilja láta ráðstöfun fjármagnsins vera. Hæstv. ríkisstj. og hv. 12. þm. Reykv. vilja, að þess ráðstöfun sé í Seðlabankanum. Svo eru aftur aðrir, sem telja það eðlilegt, að viðskiptabankarnir ráðstafi því fjármagni, sem þeim er fengið til varðveizlu, og við í minni hl. erum einmitt þeirrar skoðunar. Nú er ekki verið að gera því skóna, að Seðlabankinn skili aftur neinu af því, sem hann hefur fengið. Hann hefur fengið frá viðskiptabönkunum eftir þessum leiðum 1910 millj. kr. og notað það, eftir því sem hér er sagt, til þess í fyrsta lagi að endurkaupa afurðavíxla, til þess að lána fjárfestingarlánasjóðum og til þess að standa undir gjaldeyrisvarasjóðnum. Nú eru þessar fjárhæðir, sem sjóðurinn eða innlánsbindingin stendur undir, allmiklu hærri en innlánsbindingin, nokkrum hundruðum millj. kr. hærri. Ja, hæstv. utanrrh. sagði nú, að útlán Seðlabankans til banka og fjárfestingarlánasjóða væru 2500 millj. Samkv. þeirri tölu ætti Seðlabankinn þá að hafa lánað í þessar tvær greinar 500 millj. meira en bankarnir leggja honum til. Auk þess á þessi binding að standa undir gjaldeyrisvarasjóðnum, sem um s.l. áramót var 840 millj. kr. Svo að ef þessi kenning væri alveg rétt, sem hér er verið að halda fram, virðast fleiri en framsóknarmenn geta notað sömu peningana tvisvar. En til hvers er þessi innlánsbinding og það hagstjórnartæki, sem margsinnis hefur verið talað um? Var ekki upphaflegi rökstuðningurinn fyrir því sá, að það bæri að draga inn fjármagn, þegar þensla er í þjóðfélaginu? Er þá ekki rökrétt afleiðing af því sú, að það beri að láta út eða a.m.k. að hætta að draga inn, þegar samdráttur er? Þetta hygg ég, að margir telji, og ég tel það enga goðgá og engin gamanmál í raun og veru að halda því fram, að viðskiptabankarnir eigi að fá að hafa það fjármagn til ráðstöfunar, sem þeim er trúað fyrir.

Annars er kannske ástæðulaust að vera að bitast um þessi 30% af sparifjáraukningunni á þessu ári. Það er ekki víst, að það verði svo drjúgt í búi hjá hverjum, sem það hefur. Miðað við þá þróun, sem hefur átt sér stað undanfarna mánuði í sparifjárinnlögnum, verður þetta sjálfsagt ekki há fjárhæð. En mér finnst það engin goðgá og raunar alveg sjálfsagður hlutur, að um leið og verið er að leggja auknar byrðar á viðskiptabankana, eins og sannanlega er ráðgert í því frv., sem hér er til umr., þá sé, þegar svona er ástatt eins og við allir vitum og ástæðulaust er að rifja upp, komið til móts við þá t.d. á þann hátt að nota ekki heimildina í eitt ár, meðan þrengingarnar eru eins miklar og þær eru núna og útlit er fyrir, að þær verði á þessu ári. Ef þetta er eitthvað röng hagspeki, verður bara að hafa það. Þetta er sanngirnismál, sem ég hygg að a.m.k. flestir, sem nálægt atvinnurekstri koma og bankastarfsemi, telji eiga fullan rétt á sér.

Þá talaði hv. frsm. meiri hl. um framtalsskylduna og taldi hana fráleita, fyrst og fremst af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi vegna þess, að bréfin mundu, ef þau væru framtalsskyld, verða óseljanleg. Þessa röksemd skil ég ekki. Ég hef heyrt hana margsinnis hér í þingsölum, en mér er hún enn jafnóskiljanleg eftir málflutning hv. 12. þm. Reykv. eins og hún hefur áður verið. Hvaða ástæða er til þess fyrir menn, sem vilja verja sparifé sínu til þess að kaupa spariskírteini, að hafa á móti því að kaupa þau, ef þeir þurfa að telja þau fram? Ja, það er kannske ein ástæða, en er ástæða til þess að viðurkenna þá ástæðu? Ég fyrir mitt leyti tel það ekki vera. Ef það er þannig fjármagn, sem ekki má draga fram í dagsljósið, sem gengur fyrst og fremst til þessara sparifjárskírteinakaupa, á ekki að vera að opna leið til þess að skjóta því undan. Þar að auki held ég, að bréfin verði, vegna þeirra kjara, sem þau eru boðin út á, fyllilega auðseljanleg eins hér eftir sem hingað til. Þetta er eina leiðin, sem menn hafa til þess að fá fulla vísitölutryggingu á sparifé sitt auk allhárra vaxta. Það er að vísu talað um það núna að taka upp verðtryggingu á sparifé, en sú verðtrygging verður einhvern veginn með þeim hætti, að það verða fastir vextir og auk þess fá sparifjáreigendur greiddan þann mismun, sem verður á vísitölu og þessum háu vöxtum. En hér er ekki því til að dreifa, að menn eigi einungis að fá vísitöluna, heldur eiga menn að fá allháa vexti og vísitöluhækkunina að auki. Þar af leiðandi verða þessi kjör miklu betri, þrátt fyrir það, sem verið er að gera til þess að auðvelda bönkunum samkeppnina um spariféð, sem er ágætt, að gert skuli vera. En þessi bréf verða eftir sem áður langsamlega bezta leiðin fyrir sparifjáreigendur til þess að fá sannvirði fyrir sparifé sitt.

Hv. þm. talaði um það, að menn hugsuðu sig um, áður en þeir afsöluðu sér ráðstöfunarrétti sínum yfir þessu fjármagni í 10 ár. Það er nú svo, að talsverður hluti af sparifé landsmanna er þegar bundinn á 10 ára bókum, sem ekki er hægt að segja upp í 10 ár, þannig að ýmsir virðast nú geta hugsað sér að binda sparifé í 10 ár. Þar að auki er það alls ekki tilfellið í þessu dæmi, að menn bindi eða afsali sér afnotarétti sparifjárins í 10 ár, vegna þess að þessi bréf eru innleysanleg eftir þrjú ár. Það hélt ég, að allir hv. þm. vissu. Það er svo oft búið að veita heimildir til þessarar bréfaútgáfu og hefur alltaf verið með þeim skilmálum og er enn. (ÓB: Á lægri vöxtum.) Á lægri vöxtum, en fullri vísitölu, og ég minnist þess, að í fyrra, — ég hef ekki þær tölur hjá mér núna, gerði ég grein fyrir því hér eða rifjaði það upp, hvað þessi bréf hefðu borið háa vexti. Það var margfalt á við það, sem spariféð hefur getað skilað í bönkunum. Ég ætla ekki að fara að gizka á þessar tölur, ég man þær ekki, en það er verulegur munur á því, eins og ég veit, að hæstv. fjmrh. a.m.k. hefur gert sér grein fyrir.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að hafa þessi orð fleiri.