19.04.1968
Efri deild: 97. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1472 í B-deild Alþingistíðinda. (1330)

187. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar 1968

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Ég ætla nú ekki að fara að hefja neinar almennar umr. um þetta mál, enda hafa allir hv. þm., sem um það hafa rætt, haldið sér innan mjög þröngra marka með hliðsjón af því, að tími er naumur, þó að hægt væri að sjálfsögðu, eins og þeir hafa sagt, að ræða ýmis atriði þess mjög ýtarlega, því að vitanlega er málið efnismikið. En það voru aðeins örfá atriði, sem ég vildi minnast á. Í fyrsta lagi það atriði, sem hv. frsm. minni hl. n., 3. þm. Vestf., vék að í sambandi við fjármunamyndunina, sem hann taldi vera uggvænlega, og byggðist sú skoðun hans á því, að gert væri ráð fyrir minni fjármunamyndun í atvinnuvegunum, hinum eldri atvinnugreinum, en

vaxandi fjármunamyndun í stórframkvæmdunum við Búrfell og í Straumsvík. Þessi ummæli hv. þm. kynnu að geta skilizt sem svo, að hér væri ríkisstj. að hafa áhrif á fjármunamyndunina og færa hana frá atvinnuvegunum og yfir til þessara framkvæmda. En það er vitanlega ekkert slíkt, sem hér á sér stað. Framkvæmdaáætlunin að þessu leyti er byggð á athugunum, sem gerðar hafa verið á horfum varðandi framkvæmdir í þessum atvinnugreinum á þessu ári, og tölurnar, sem koma fram í framkvæmdaáætluninni, eru niðurstöður þessarar athugunar, en þar er ekki um að ræða nein áhrif frá opinberum aðilum til þess að skerða fjármunamyndun í þessum greinum, heldur sýnir það sig, sem er ósköp eðlilegt, þegar að þrengir hjá atvinnuvegunum, að þá vitanlega draga þeir úr framkvæmdum og fjármunamyndun. Þarna er t.d. mestur samdráttur ráðgerður hjá sjávarútveginum, sem byggist á því, að gert er ráð fyrir, að bæði dragi stórlega úr skipakaupum og framkvæmdum í fiskiðjuverum, ekki hvað sízt síldarverksmiðjum, og vitanlega væri það fjarri öllu lagi að fara að gera sérstakar ráðstafanir til fjáröflunar í þessu skyni, vegna þess að aðilar málsins mundu ekki óska eftir, miðað við það ástand sem er, að leggja út í slíkar framkvæmdir. Það, sem hér því gerist og er það jákvæða í efninu eins og allar sakir standa, er, að með hinni stórauknu fjármunamyndun í stórframkvæmdunum við Búrfell og í Straumsvík tekst að koma í veg fyrir samdrátt í heildarfjármunamyndun í landinu og þar af leiðandi vinna gegn atvinnuleysi. En þetta má með engu móti skiljast þannig, að það sé sérstök ósk ríkisvaldsins, að þarna verði dregið úr framkvæmdum, heldur kemur á daginn, að mat atvinnuveganna sjálfra miðað við allar aðstæður er það, að ekki sé fært að leggja út í meiri framkvæmdir á þessu ári, sem er eðlileg niðurstaða og sjálfsögð, þegar að þrengir, og væri vitanlega fjarri öllu lagi, að þá yrði ekki einhver samdráttur í fjárfestingu, þegar ráðstöfunarfé minnkar.

Þetta tel ég aðeins nauðsynlegt, að komi fram til að valda ekki misskilningi. Hér eru það beinlínis stórframkvæmdirnar, sem koma á móti og taka við vinnuafli, sem undir öðrum kringumstæðum er mjög vafasamt, að hefði verið hægt að nýta, og þessi vinnuaflsráðstöfun er ekki til frambúðar. Þetta vinnuafl verður til staðar aftur, eftir að þessum stórframkvæmdum lýkur, og þá verður það vissulega mikið álitamál, eins og á hefur verið bent, hvort núverandi atvinnuvegir geta tekið við þessu vinnuafli eða hvort þarf að gera sérstakar ráðstafanir sem allra skjótast til þess að reyna að finna þessu vinnuafli stað, þannig að ekki skapist beinlínis atvinnuleysi hjá öllum þessum fjölda fólks, sem þarna vinnur.

Hv. 11. þm. Reykv. taldi, að framkvæmdaáætlunin fæli í sér auknar byrðar á viðskiptabanka. Byrðarnar eru að vísu auknar miðað við það, að þær væru engar lagðar á þá. En miðað við byrðar síðastliðins árs hafa þær minnkað. Það held ég, að sé alveg ljóst, og það veit ég, að við munum verða sammála um, því að bæði er gert ráð fyrir minni skuldabréfasölu og jafnframt er það engum efa bundið, og það veit ég, að hann gerir sér mjög vel ljóst sem reyndur bankastjóri, að erlenda fjáröflunin til fjárfestingarlánasjóðanna léttir vitanlega á þeim atvinnufyrirtækjum með ýmsum hætti, sem njóta góðs af þessu fé. Og hefði þetta erlenda fé ekki komið til, hefði annaðhvort orðið að þrengja að atvinnufyrirtækjunum með minni lánum úr fjárfestingarlánasjóðunum eða þá að bankakerfið hefði beinlínis sjálft orðið að taka á sig þessar byrðar.

Ég sé ekkí ástæðu til þess að fara út í hugleiðingar um notkun Seðlabanka. Ég veit að vísu, að okkur mundi ekki greina mjög mikið á í því efni, að meginreglum þarf að fylgja í sambandi við útlán Seðlabanka, það efast ég ekki um. Hann þekkir þær grundvallarreglur áreiðanlega allt of vel til þess. Seðlabanki út af fyrir sig er ekki nein uppspretta fjár, sem verður til án þess að nokkuð standi þar á bak við. Það vita auðvitað allir. Og þegar hv. 12. þm. Reykv. minntist á, að það kæmi þá til álita, að Seðlabankinn hætti endurkaupum afurðalána, er það vitanlega alveg rétt, að þar hefur Seðlabankinn tekið að sér milligöngu um ráðstöfun fjár. Hann hefur bundið féð og dreift því aftur út í afurðalánum, og vitanlega kemur það mjög til álita, hvort Seðlabankinn á að hafa þessa milligöngu, hvort viðskiptabankarnir eiga ekki að halda þessu fé og sjá svo um afurðalánin að öðru leyti sjálfir, því að hitt er auðvitað jafnljóst, að það er ekki hægt fyrir Seðlabankann að halda áfram að endurkaupa afurðalánavíxla, ef hann hefur ekkert fjármagn með neinum hætti til þess. Slíkt verður ekki gert bara með því að auka seðlaveltu. Það veit ég, að við erum sammála um. En ástæðan til þess, að mönnum hefur þótt eðlilegt að hafa þennan hátt á er sú, að afurðalánin deilast auðvitað ákaflega misjafnlega niður á viðskiptabankana í þjóðfélaginu, þannig að sumir þeirra losna algerlega við öll afurðalán, en aðrir bera meginþungann af þeim. Og þarna er um milligöngu að ræða hjá Seðlabankanum til þess að ná inn fé með sparifjárbindingu frá bönkum, sem í rauninni lána ekki nein afurðalán, og létta þannig undir með afurðalánabönkum. Það má vafalaust færa rök bæði með þessu og móti, en þetta er sjónarmið, sem viss sanngirni er í, það verður að játast. Þó að þetta valdi því, að bankar, sem annars mundu vera lausir við þessa kvöð, verða auðvitað þarna fyrir nokkrum áföllum, þá veit ég, að það er auðvitað öllum mönnum ljóst, að fyrst og fremst þarf að tryggja það, að hægt sé að lána út á framleiðsluna.

Um breytingu á þessu og hugleiðingar um Seðlabanka að öðru leyti skal ég ekkert orðlengja. Það er auðvitað sjálfsagt, að það komi til endurmats, eins og hv. þm. sagði, miðað við aðstæður á hverjum tíma, hvort binding innlánsaukninga í bönkum á að vera meiri eða minni. Það er alveg ljóst mál, og Seðlabankanum er ætlað það hlutverk að meta það hverju sinni, miðað við ríkjandi efnahagsástand í þjóðfélaginu. Hitt er svo aftur annað mál, að það er auðvitað ekki eingöngu það, sem þarf að taka til greina, hvort þrengir að viðskiptabönkunum í þessu efni, heldur þarf líka að gera sér grein fyrir því, ef við ætlum að halda frjálsum viðskiptaháttum, að útlánin verði ekki meiri eða kaupgetan í landinu, skulum við segja, meiri en svarar því framboði, sem er á erlendum gjaldeyri. Ef fjármagnið, sem er í umferð innanlands, er miklum mun meira en því svarar og leiðir til kaupgetu, sem er langt umfram það, sem gjaldeyrisöflunin leyfir, veit ég, að við erum sammála um það, að það leiðir að sjálfsögðu af sér, að stórkostlega gengur á gjaldeyrisforðann og mun það þá innan tíðar geta valdið því, að taka verði upp gjaldeyrishöft.

Um þessar grundvallarreglur veit ég, að enginn ágreiningur er okkar í milli, þó að menn að öðru leyti geti haft sínar skoðanir um það, hvernig efnahagsþróunin eigi að vera og hvernig eigi að stjórna þessum málum að ýmsu leyti. Út í það skal ég ekki fara hér, það hefur verið rætt mikið og síðast í útvarpsumræðum nú í gærkvöld. Ég sé ekki þörf á, að við förum að orðlengja um það í sambandi við þetta mál.