19.04.1968
Efri deild: 97. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1475 í B-deild Alþingistíðinda. (1331)

187. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar 1968

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Það er aðeins örstutt fsp. til hæstv. fjmrh. Ég tók svo eftir, að hann talaði í gær um það, að gera þyrfti ráðstafanir til sérstakrar fjáröflunar vegna Vestfjarðaáætlunar. Ég hef verið að athuga þetta frv. og hlustaði á þá grg., sem hæstv. ráðh. flutti í gær, og hef ekki getað fundið í þessu frv. og gat ekki heldur heyrt á ræðu hans í gær, að hann minntist einu orði á Norðurlandsáætlun. Nú skal það sízt eftir talið, að Vestfjarðaáætlun sé fjármögnuð. En það hefur líka mikið verið talað um Norðurlandsáætlun, og ég hygg, að það sé tími til kominn að sinna henni. Ég ætla ekki að fara langt út í að rekja aðdraganda hennar, en vil þó minna á, að það var á miðju án eða fyrri hluta árs 1965, sem samið var um þessa Norðurlandsáætlun, að hún skyldi gerð. Og það var þá fljótlega, að því er segir í svarbréfi, sem hæstv. fjmrh. sendi okkur þm. Norðurlands, fljótlega þar á eftir farið að hefjast handa um gerð eða undirbúning slíkrar Norðurlandsáætlunar og ákveðinni stofnun falið það verkefni, og síðan var farið að vinna að henni þannig, að fulltrúar þessarar stofnunar ferðuðust um Norðurland og höfðu fundi með mönnum. Síðan er alllangur tími liðinn, og ekki hefur Norðurlandsáætlun enn þá sézt. Því er borið við, að Efnahagsmálastofnunin hafi svo mikið að gera, að hún komist ekki yfir að sinna þessu verkefni. Á því var sú bót ráðin, að sérstakur maður var ráðinn með aðsetri á Norðurlandi, á Akureyri, til þess að sinna þessari Norðurlandsáætlun. Ég vona, að hann sé tekinn til starfa og að það sé farið að vinna að þessari Norðurlandsáætlun. Það er mikil þörf á því, og það hafa margir bundið vonir við þessa Norðurlandsáætlun.

Ég hef að vísu litið svo á, að fyrst og fremst ætti verkefni Norðurlandsáætlunar að vera atvinnuuppbygging á Norðurlandi. En ég man það, að í umr. hér í vetur kom það fram hjá hæstv. fjmrh., að hann leit ekki alveg sömu augum á það efni, heldur nefndi hann í fyrstu röð hafnir, skóla og aðrar slíkar framkvæmdir. Og það vill svo til, að það vantar náttúrlega fé í slíkar framkvæmdir á Norðurlandi, hafnir, skóla og rafmagnsmál, rafmagnsframkvæmdir. Ég veit t.d., að það hefur sérstaklega verið leitað eftir því af hálfu Siglufjarðarbæjar, sem sér fram á verulega hættu, ef ekki tekst að gera endurbætur á þeirri stöð, sem séð hefur Siglufirði fyrir rafmagni, að rafmagnsveitunni verði veitt sérstök fyrirgreiðsla í því sambandi. Þarfirnar eru þess vegna miklar, líka til þessara framkvæmda, sem mér skildist, að hæstv. fjmrh. vildi setja efst á blað.

Það má vel vera, að þeim manni, sem ráðinn hefur verið til þessa starfs, hafi enn ekki unnizt tími til þess að ganga frá Norðurlandsáætlun, það skil ég. En ég tók svo eftir í gær hjá hæstv. fjmrh., að þannig hefði verið staðið að Vestfjarðaáætlun, að þar hefði nú ekki verið búið að skoða endinn alveg í upphafi, þegar byrjað var á henni. Það hefðu verið byrjaðar þar framkvæmdir, þó að framkvæmdaáætlunin hefði þá ekki legið svo nákvæmlega fyrir í öllum atriðum. Mér sýnist nú, að það væri ráð að hafa sama hátt á á Norðurlandi, því að það er enginn vandi að finna þær þarfir, sem knýja á. Þess vegna er mín fsp. þessi til fjmrh.: Er ekki gert ráð fyrir neinni fjáröflun vegna Norðurlandsáætlunar í þessari framkvæmdaáætlun? Ég hef mikinn áhuga fyrir að fá svar við þessu. Mér sýnist af áætluninni, að það sé ekki gert ráð fyrir því. En til þess að vera alveg viss í minni sök og ganga alveg úr skugga um þetta vil ég heldur fá alveg hrein og ótvíræð svör fjmrh. um það efni. Ég veit, að fólk á Norðurlandi óskar eftir að fá að vita um þetta.