24.10.1967
Neðri deild: 8. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1481 í B-deild Alþingistíðinda. (1341)

8. mál, sala Setbergs o.fl.

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Í sambandi við frv. til l. á þskj. nr. 8 vil ég taka það fram, að ég mun styðja þetta frv. Mér er kunnugt um það í sambandi við þá prestssetursjörð, sem er í mínu kjördæmi og ég þekki vel til, að þar hagar nú svo til, að presturinn hefur flutt þaðan fyrir nokkrum árum. Þá tókst svo vel til í sambandi við þau skipti, að ungur og efnilegur maður, sem þá átti íbúðarhús úti í Grafarnesi, gerði skipti við prestinn á Setbergi og settist á jörðina, en prestur fór í hans íbúðarhús.

Þessi ungi og efnilegi bóndi hefur gert umbætur á jörðinni, síðan hann kom þangað og hefur fullan hug á því að búa á henni áfram. Ég vil undirstrika það, að ég treysti kirkjumálastjórninni, sem með þetta mál fer síðar, til þess að sjá svo um, að þessum unga manni verði gefinn kostur á því að eignast þessa jörð, og ég er viss um, að þá er vel fyrir henni séð. Þetta er að vísu ekki mikil jörð, Setberg, en hefur alla tíð verið vel setin og er svo enn, og ég treysti því, að þessi eignaskipti megi vel til takast.

Ég vil svo taka það fram, að það er mín skoðun, að eins og nú er komið með búskap presta í þeim sveitum a.m.k. flestum, þar sem ég til þekki, færi betur á því, að bændur sætu jarðirnar heldur en prestar eins og högum þeirra er nú háttað. Þess vegna styð ég og þessa breytingu.