17.01.1968
Neðri deild: 50. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1481 í B-deild Alþingistíðinda. (1346)

8. mál, sala Setbergs o.fl.

Frsm. meiri hl. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Frv. þetta fjallar um heimild til handa ríkisstj. til að selja fjórar eignir, prestssetursjörðina Setberg í Eyrarsveit á Snæfellsnesi og húseignir í Reykjavík, Hafnarfirði og Grindavík.

Það kom fljótlega í ljós í menntmn., er hún fjallaði um frv. þetta, að undir prestssetursjörðina Setberg heyri eyja nokkur, sem Melrakkaey heitir og er í mynni Grundarfjarðar. Þessi eyja er talin vera mikil fuglaparadís, og mun leit að annarri slíkri við landið, bæði hvað snertir fjölda fuglategunda, sem þar verpa, og þá miklu fuglamergð, sem þar lifir. Hefur raunar komið í ljós áður, að eyjan er þar að auki sérstaklega vel fallin til ýmiss konar rannsókna á fuglalífi og hefur verið notuð í því skyni. Hingað til hefur ekki þótt ástæða til að friða þessa eyju, vegna þess að presturinn, sem setið hefur að Setbergi, hefur haft mikinn áhuga á að vernda eyjuna og hefur gætt hennar mjög vel. Enda þótt menntmn. hafi klofnað í þrennt út af frv. þessu, held ég, að mér sé óhætt að fullyrða, að nm. séu allir á þeirri skoðun, að þessa eyju beri að friða. Meiri hluti n. leggur til þá breyt. við 2. málsl. l. gr., að þar bætist við orðin „að undanskilinni Melrakkaey“. Nýting á þessari eyju hefur verið mjög lítil undanfarin ár að öðru leyti en því, að þar er dálítil dúntekja.

Um hinar húseignirnar er það fyrst að segja, að Tómasarhagi 15 er hús, er hefur verið notað sem biskupsbústaður undanfarið, en nú hefur verið keypt nýtt hús, sem á að verða biskupsbústaður. Um Brekkugötu 18 í Hafnarfirði er það að segja, að presturinn þar byggði þetta hús sjálfur fyrir eigin reikning fyrir meira en aldarfjórðungi, seldi það síðar ríkinu og óskar nú eindregið eftir því að fá það keypt aftur. Loks er það um húseignina í Grindavík að segja, að þar hefur verið byggt nýtt prestssetur og er því ekki ástæða til annars en selja það gamla.

Meiri hl. menntmn. leggur til, að frv. verði samþ. með þeirri breyt., sem fram kemur á þskj. 111.