17.01.1968
Neðri deild: 50. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1484 í B-deild Alþingistíðinda. (1348)

8. mál, sala Setbergs o.fl.

Frsm. 2. minni hl. (Sigurvin Einarsson):

Herra forseti. Eins og drepið hefur verið hér á, er efni þessa frv. það að heimila ríkisstj. að selja prestssetursjörðina Setberg, jafnframt að selja biskupshús í Reykjavík og tvö prestsseturshús, annað í Hafnarfirði, hitt í Grindavík. Ríkissjóður á nú eins og sakir standa tvö biskupshús í Reykjavík. Lagt er til, að annað verði selt, og ég tel það ekki nema sjálfsagt, því að lítið hefur ríkið að gera með tvö biskupshús í Reykjavík. Fyrst tvö voru keypt er sjálfsagt að selja annað.

Sóknarpresturinn í Hafnarfirði byggði sér íbúðarhús þar fyrir 26 árum, en seldi það ríkinu nýbyggt til embættisbústaðar. Nú óskar sóknarpresturinn eftir því að fá þetta hús keypt aftur og býður fyrir það mjög sæmilegt verð miðað við aldur hússins. Með réttu má að því finna, hvernig er háttað kaupum og sölum á embættisbústöðum, en ég vil samt segja það um þetta atriði, að ég verð að telja það ekki nema verðuga tillitssemi við þennan embættismann, sem hefur þjónað vel og lengi, að orðið sé við þessari ósk hans, enda er hún ekki gerð í gróðaskyni fyrir hann.

Í Grindavík hefur verið byggt nýtt prestsseturshús og af því leiðir, að það er eðlilegt að selja hið gamla prestshús eins og hér er lagt til. Ágreiningur milli mín og meiri hl. menntmn. er því ekki út af þessum þremur atriðum. Við erum alveg sammála um þau. Hann er út af sölu prestssetursins Setbergs, þar er ég á nokkuð annarri skoðun. Ég tel, að sala jarða og það gamalla höfuðbóla sé annars eðlis en sala íbúðarhúsa í kaupstöðum, og jafnan hefur það verið svo, að þar hefur nokkuð annar háttur verið hafður á. Prestssetursjörð hvers byggðarlags er venjulega bezta jörðin í sveitinni, höfuðbólið, og prestssetrin eiga flest langa og að mörgu leyti merka sögu. Við prestssetrin eru tengdar ýmsar minningar og þau eru sannarlega meira en dvalarstaður prests um einhvern ákveðinn tíma. Þau eru mörg hver gömul menntasetur. Það má jafnvel segja, að prestssetrin sum í landinu hafi verið fyrstu héraðsskólarnir, sem þjóðin eignaðist. Saga prestssetursjarðanna og saga prestanna, sem þar þjónuðu kynslóð eftir kynslóð, verður ekki aðgreind og því vil ég fara nokkuð öðrum höndum um þessar eignir en sumar aðrar, þar sem ekki er slíku til að dreifa.

Mér virðist, að niðurlögð prestssetur séu nokkurs konar minjar, það má segja minjar sveitanna, og svo að segja þær einu, sem þar eru til. Við fleygjum ekki frá okkur kirkjulegum minjum úr tré eða kopar, og við teljum okkur meira að segja skylt að varðveita þær, eins og aðrar þjóðir gera. En er þá prestssetursjörðin minna virði en þessir fornu hlutir úr tré, málmi eða vefnaði? Á þessum prestssetrum mörgum eru enn þá jafnvel sýnileg handaverk fjölmargra þeirra manna, sem við viljum heiðra, en mér virðist, að virðing okkar fyrir þessum gengnu mönnum sé helzt til lítil, ef við erum að auglýsa þessi prestssetur til sölu handa einhverjum, sem vilja nýta þau. Melrakkaey er hluti prestssetursjarðarinnar Setbergs. Þetta er óvenjulega fjölskrúðug eyja af fuglalífi, og við vorum allir einhuga um það í menntmn., að þessi eyja, þessi hluti jarðarinnar, yrði ekki seldur, heldur verði eyjan friðlýst. En ég vil ekki vera með í því að hluta þessa gömlu prestssetursjörð þannig í sundur, að ríkið eigi þennan hluta hennar, en seldur verði svo hinn hlutinn, ef einhver vill hann. Mér finnst þetta óvirðuleg meðferð á höfuðbóli. Ég er því andvígur því, að þessi jörð sé seld. Ég sé enga þörf á því, og þar sem menntmn. er nú einhuga um, að nokkuð af henni verði ekki selt, má varla minna vera en að tún sé þá í heilu lagi í eign ríkisins. En hver er svo tilgangurinn með sölunni? Það er mér algerlega óljóst. Varla getur það verið það, að ríkið vanti svona aura, að það þurfi að reyna að selja þessa jörð fyrir eitthvað handa einhverjum og m.a.s. hluta hana í sundur fyrst. Ég flyt því brtt. við þetta frv. á þskj. 120. Ég legg til, að frv. verði samþ. með þeirri breytingu að fella niður þennan lið, sölu Setbergs.