04.03.1968
Efri deild: 65. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1490 í B-deild Alþingistíðinda. (1361)

8. mál, sala Setbergs o.fl.

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Ég hafði látið setja í nál., að ég áskildi mér rétt til að fylgja frv. ekki að öllu leyti, og vil ég aðeins gera nánari grein fyrir minni afstöðu til þessa máls.

Ég tel, að gæta eigi allrar varúðar, er um sölu prestssetursjarða er að ræða, og fyrirvari minn er meira bundinn við það mál almennt heldur en þetta tilfelli, sem hér um ræðir. Mér virðist, að þeir aðilar, sem hlut eiga að máli, hreppsnefndir, sóknarnefndir og aðrir opinberir aðilar séu sammála um sölu á Setbergi og Völlum í Svarfaðardal, og ég mun því ekki greiða atkv. gegn sölu þessara jarða, en læt nægja í þessu tilfelli að sitja hjá við atkvgr. um sölu þessara prestssetursjarða, en að öðru leyti er ég frv. samþykkur. Ég tel, að því opinbera beri að gæta fyllstu varúðar eins og ég sagði áðan, um sölu prestssetursjarða. því að tímarnir breytast, og við vitum aldrei, hvenær kann að koma að því, að það opinbera þurfi á þessum eignum að halda. En meðan svo er ástatt, að prestar telja sig ekki geta sinnt búskap á þessum prestssetursjörðum, á að leigja þær með þeim hætti, að þeir bændur, sem vilja taka þær á leigu, geti setið þar nokkuð tryggir í ábúð og búið þar sómasamlega þeirra hluta vegna. En ástæðan fyrir því, að ekki hefur verið hægt að leigja þessar jarðir, þannig að ábúð hafi verið með eðlilegum hætti, er sú, að jarðirnar hafa yfirleitt verið leigðar frá ári til árs, og því ekki þess að vænta, að bændur sæju sér mikinn hag í að leggja í framkvæmdir á þessum jörðum. Ég tel, að þessu þurfi að breyta, en ég er því ekki fylgjandi, að prestssetursjarðir séu seldar, með tilliti til framtíðarinnar. Þeir tímar geta komið, að ríkið þurfi á þessum eignum að halda. En varðandi þetta mál og þær jarðir, sem hér um ræðir, þá mun ég ekki greiða atkvæði gegn heimild til sölu þeirra, en læt nægja að sitja hjá við þá atkvgr.