18.04.1968
Neðri deild: 101. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1494 í B-deild Alþingistíðinda. (1368)

8. mál, sala Setbergs o.fl.

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Í fjarveru hæstv. dómsmrh. vil ég fara um þetta mál örfáum orðum. Í morgun hafði ég samráð við dómsmrn. um það, hvort það teldi skaðlaust, að málið dagaði uppi, eins og mér skildist helzt vera líkur til samkv. afstöðu hv. n., en ráðuneytisstjórinn þar tjáði mér, að það mundi koma sér mjög illa, ef ekki yrði veitt heimild fyrir sölu á þeim fasteignum, sem hér eru taldar, og þó aðallega húseignunum, sem ég skal ekki fara að lesa hér upp. Eins var búið að taka ákvörðun um að selja Setberg í Eyrarsveit og deila um það áður hér í d. Ráðgert hafði verið að ráðstafa andvirði a.m.k. sumra þessara fasteigna til annarra eignakaupa og mundi þá skorta fé til þeirra ráðstafana, ef málið drægist nú á langinn, svo að ég verð að láta það koma fram, að ég mundi telja það miður farið, ef frv. dagaði uppi eða fengi ekki afgreiðslu, hvað þá ef það yrði fellt, þó að hér sé að sjálfsögðu ekki um neitt verulegt stórmál að ræða.

Um mótmælin gegn því að land verði látið af landi Saurbæjar á Hvalfjarðarströnd til Bandalags starfsmanna ríkis og hæja, þá er rétt að rifja það upp, að það er búið að ráðstafa þessu landi. Með samþykki allra þingflokka var þessum samtökum í fyrra fyrir rúmu ári tilkynnt þessi ráðstöfun sem gjöf í tilefni af stórafmæli, sem samtökin áttu. Nú hefur það að vísu komið upp eftir á, að samtökin eru fús til þess eða a.m.k. fáanleg til að taka annað land í staðinn. Það er allt annað mál, en ég hygg, að sú hugmynd, að þeir geti fengið land í Stóru-Drageyrarlandi, sem mér hefur skilizt að hafi komið upp, sé fráleit, það sé búið að athuga hana og það þyki ekki fært. Hér er því einungis um að ræða staðfestingu á því, sem búið er að ákveða með vitund og samþykki alls þingheims í fyrra. Einungis þótti formlega nauðsynlegt að fá þessa heimild og ég fæ ekki séð, að það fái staðizt að neita um hana nú. Þá sé þingið eða þm. réttara sagt að ganga á bak orða sinna, hverfa frá því umboði, sem stjórninni í fyrra var veitt til þess að gera þessa ráðstöfun. Ef hins vegar verður samkomulag um það við BSRB að skipta á landi og einhvers staðar annars staðar fæst annað land, þá er auðvitað sjálfsagt að taka það til athugunar, en sú heimild, sem hér er verið að fara fram á, er engu að síður nauðsynleg til þess að hægt sé að standa við það loforð, sem gefið var og ég fullyrði, að í fyrra var gefið, eftir að samráð hafði verið haft við alla þingflokka um málið, og að því er mér er sagt, var það rætt í flokkunum og komu hvergi mótmæli fram. Ég held því, að þessi mótmæli og aths. séu of síðla fram komin, enda fær það ekki staðizt, að þótt við viljum allt gera fyrir KFUM, þá megi ekki veita öðrum mönnum einhver réttindi í námunda við þann félagsskap. Það er ekki verið að tala um að taka neitt af KFUM, heldur einungis verið að tala um að standa nú við loforð, sem gefið var, áður en þessar aths. voru fram bornar, aths., sem eins og ég segi, mér sýnist ekki fá staðizt.

Ég mundi þess vegna leggja til, að frv. yrði samþ. hér og beini því hins vegar til þeirra, sem hafa flutt brtt., hvort ekki megi láta þær heimildir bíða til næsta þings. Mér skilst, að sumir séu varbúnir að taka til þess afstöðu nú og telji, að málið sé þegar búið að fá þær viðbætur, að þær séu ærnar á þessu þingi og þess vegna væri eðlilegast, að málið væri nú afgreitt óbreytt í deildinni.