18.04.1968
Neðri deild: 101. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1495 í B-deild Alþingistíðinda. (1369)

8. mál, sala Setbergs o.fl.

Frsm. 2. minni hl. (Sigurvin Einarsson):

Herra forseti. Þetta frv. hefur heldur en ekki tekið breytingum frá því að það var borið fram hér í hv. d. fyrir löngu síðan. Þá var farið fram á heimild fyrir ríkisstj. til þess að selja fjórar eignir: Setberg í Eyrarsveit, Tómasarhaga 15 í Reykjavík, Brekkugötu 18 í Hafnarfirði og Vesturbraut 2 í Grindavík. Það varð að vísu ekki algert samkomulag í menntmn. í upphafi um sumar af þessum eignum, en það fór nú samt svo, að hv. d. samþykkti frv. með þeirri einu breytingu að taka Melrakkaeyju undan Setbergi, að öðru leyti var frv. samþ. óbreytt. Síðan fer frv. til hv. Ed. og þar tekur það þeim breytingum, að í frv. er bætt prestsseturshúsi á Húsavík, sem á að heimila að selja, húseigninni Melgerði 10 í Kópavogi og prestssetursjörðinni Völlum í Svarfaðardal. Þannig var það samþ. við 2. umr. í Ed. Síðan gerist það við síðustu umr. í hv. Ed., að bætt er inn í þetta frv. heimild fyrir ríkisstj. til þess að fá Skátafélagi Akraness til umráða með nánar tilteknum skilmálum spildu úr landi kirkjujarðarinnar Stóru-Drageyrar í Skorradal Og ríkisstj. Er heimilað að afhenda Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja 50 ha. lands í svokölluðum Móadal í landi prestssetursjarðarinnar Saurbæjar á Hvalfjarðarströnd. Þegar þetta gerist, að þessu er bætt við á síðustu stundu í hv. Ed., þá drífa að mótmælin. Og það er ekkert óeðlilegt við það, þó að þessi mótmæli komi ekki fram fyrr, því að þessi viðbót við frv. kom ekki fyrr en við síðustu umr. í Ed., og ég veit ekki einu sinni, hvort hv. n., sem mun hafa verið landbn. þeirrar d., hefur athugað þessi ákvæði nokkuð sérstaklega. Þannig kemur þá frv. til hv. Nd. aftur til einnar umr. og þá koma fram tvær brtt. hér í hv. d., svo að frv. er í raun og veru orðið allt annað en það var eða að miklu leyti allt annað en það var. Og það er þannig úr garði gert núna, þetta frv., að sum atriði í því hafa aldrei verið athuguð að neinu gagni í n. d., að ég nú ekki tali um þær tvær brtt., sem nú liggja fyrir. Þó að menntmn. þessarar hv. d. hafi nú tekið málið til athugunar á ný, þá hafði hún engan tíma og ekkert tækifæri til að leita umsagnar eða upplýsinga neins staðar að um þær till. Þannig liggur málið fyrir. Ég verð því að segja það, að mér sýnist ekki vera mikil nauðsyn á því að hraða málinu gegnum þingið næstsíðasta dag þess, eins og allt er í pottinn búið.

Hæstv. forsrh. vék að því hér áðan, að hann hefði borið sig saman við ráðuneytisstjóra kirkjumrn. út af þessu máli og hann hafi talið það valda einhverjum óþægindum, ef ekki væri hægt að selja þessar húseignir á þessu sumri. Það kann vel að vera, en ágreiningsatriðin þyrfti þó ekki að samþykkja. Ég hef ekki á móti því, að sá hluti frv. væri afgreiddur, sem snertir þessar eignir, sem enginn ágreiningur er um, það ég veit til. En hinn hlutann, sem aðalágreiningur er um og hann ekki lítill, finnst mér fremur hart að þurfa að samþykkja bara til að koma fram einhverjum öðrum atriðum, sem ekki er ágreiningur um.

Ég veit ekki, hvort hv. þm. hafa kynnt sér þau mótmæli, sem hafa komið fram við þetta frv. eins og það er nú. Hæstv. forsrh. vék að þeim ágreiningi hér áðan, og hann segir, að hér sé um land að ræða, þ.e.a.s. ágreiningurinn sé um það, hvort afhenda skuli BSRB það land í Saurbæjarlandi, sem um er rætt. Hann segir, að þetta land sé búið að afhenda þeim, og það er alveg rétt. Það er búið að gefa það, þ.e.a.s. gefa BSRB afnotarétt á landinu. Það hefur rn. gert og með fullu samþykki þingflokka, að ég ætla, og það er heldur enginn ágreiningur út af því. Rn. var þarna í fullum rétti að mínum dómi, og það er ekkert við þetta að athuga, og bandalagið hefur tekið við þessari gjöf með fullu þakklæti. En þegar rísa slík mótmæli, eins og fram hafa komið, vill bandalagið forðast árekstra og ágreining, sem kannske getur verið varanlegur út af þessu máli, og óskar þess vegna eftir því, að hæstv. rn. taki það til athugunar, hvort ekki sé þá hægt að skipta á landinu fyrir eitthvað annað og nefnir t.d. Stóru-Drageyri. Vel getur komið til greina eitthvert annað land í staðinn. Það, sem fyrir BSRB vakir, er ekkert annað en það að búa þarna eða hafa sína

starfsemi þar árekstralaust og ágreiningslaust. Það langar náttúrlega ekkert sérstaklega til þess að setjast þarna að með sína sumarstarfsemi í óþökk og jafnvél fullum fjandskap nágrannanna, þ.á.m. prestsins í Saurbæ. Bandalagið er því að reyna að fá málið leyst þannig, að allir geti vel við unað og enginn ágreiningur verði varanlegur út af þessu. Það er það eina, sem fyrir því vakir. Og ég er þeirrar skoðunar, að ef hæstv. kirkjumrh. væri hér á landinu og hefði þar af leiðandi getað tekið þetta mál til athugunar og samkomulags, hefði þetta verið gert. En það vildi svo illa til, að hann þurfti að fara af landi brott og kemur ekki fyrir þingslit. Nú heyrist mér á hæstv. forsrh., að það sé útilokað, að skipt verði á þessu landi og öðru í landi Stóru-Drageyrar. Það var menntmn. alveg ókunnugt um, að svo væri ástatt, og hún hafði ekki fengið neinar slíkar upplýsingar, þegar hún var að ræða málið fyrir nokkrum dögum.

Fyrir menntmn. hefur legið afrit af bréfi biskupsins yfir Íslandi til dóms- og kirkjumrn. út af því, að þetta land skyldi afhent án sinnar íhlutunar eða samþykkis. Ég sé ekki ástæðu til að lesa það upp sérstaklega, þar sem það mál er nú um garð gengið og með fullum heimildum; að mínum dómi, að afhenda bandalaginu þetta land. Aftur á móti snertir þáð mjög BSRB, hvað KFUM segir um þetta mál, því að það er næsti nágranninn. KFUM hefur haft starfsemi í Vatnaskógi, sem þetta land, Móadalur, liggur að, og hefur haft þá starfsemi um langa tíð, og því tel ég rétt, að hv. alþm. fái að heyra, hvað KFUM segir um þetta mál, með leyfi hæstv. forseta. Það er bréf, sem er dags. 26. marz s.l., og hljóðar svo

„Í tilefni af frv., sem fram hefur komið á Alþ. um sölu á prestssetursjörðinni Setbergi o.fl. skv. þskj. 410, þ. á m. um afhendingu 50 ha. úr svonefndum Móadal í landi Saurbæjar á Hvalfjarðarströnd, leyfi ég mér í umboði stjórnar KFUM, vegna sumarbúða félagsins í Vatnaskógi, að vekja athygli hv. alþm. á eftirfarandi og bera fram eindregin tilmæli um, að tekið verði tillit til sumarstarfs félagsins og sjónarmið forráðamanna þess virt við afgreiðslu frv.

Eins og kunnugt er, hefur KFUM í Reykjavík um 45 ára skeið starfrækt sumarbúðir fyrir drengi og unglinga í Vatnaskógi, í landi Saurbæjar. Hefur félagið reist þar margar byggingar og gert íþróttasvæði með meiru fyrir starfsemi þessa. Dveljast þar talsvert á annað þúsund unglingar um lengri eða skemmri tíma hvert sumar. Hefur reynzt mikilvægt, að starf þetta hefur til þessa ekki verið torveldað af utanaðkomandi umferð eða að því þrengt með öðrum hætti. Nú blasir sú hætta hins vegar við.

Félagið hefur áður haft spurnir af, að komið hafi til orða að afhenda BSRB svonefndan Móadal til byggingar sumarbústaða fyrir félagsmenn þessara fjölmennu samtaka, og hefur fulltrúi stjórnar KFUM vakið máls á því við hæstv: kirkjumrh., hvern vanda myndi leiða af þessari ráðstöfun fyrir sumarhúðir félagsins. Um skeið virtist, að málið myndi leysast á þann veg, að fyrrgreindum félagasamtökum yrði fenginn annar staður til byggingar sumarbúða sinna, og höfum við því ekki talið nauðsynlegt að hafast frekar að. En með tilkomu þessa frv. eða breyt. þeirrar, sem gerð hefur verið á því, virðist þessi hætta ekki liðin hjá. Með þessari ráðstöfun myndi fljótlega rísa upp þyrping sumarbústaða fyrir tugi og jafnvel hundruð fjölskyldna í næsta nágrenni sumarbúðanna í Vatnaskógi, í 800—1000 m fjarlægð myndi það eiga að vera. Sú umferð, sem óhjákvæmilega fylgdi slíku nábýli, mundi valda óviðeigandi truflunum á sumarstarfi félagsins og verða mikill hnekkir fyrir áratuga uppbyggingu starfseminnar. Getum við því ekki látið hjá líða að vekja athygli hv. alþm. á þessu atriði áður en lengra er haldið. Leyfum við oss því hér með að beina þeim eindregnu tilmælum til hv. alþm., að fellt verði úr frv., að Móadalur verði látinn af hendi í þessu skyni, en félagssamtökum þeim, sem hér eiga hlut að máli, fundinn annar staður fyrir sumarbúðir sínar.

Ýmsir kynnu að telja ótta um aukna umferð og truflun á starfi félagsins ástæðulausa eða óverulega, en vér erum hins vegar sannfærðir um, að svo er ekki, og teljum það mikið óheillaspor, sem ekki yrði tekið til baka, ef úr slíku nábýli yrði. Nægir að benda á, að veiði í Eyrarvatni er alleftirsótt, og með kaupum á veiðirétti gætu félagasamtök eins og þau, er hér um ræðir, tryggt sér umferðarrétt um Vatnaskóg og athafnasvið á Eyrarvatni til mikilla óþæginda fyrir sumarbúðastarfið. Í trausti þess, að unnt reynist að leysa mál bandalagsins á annan hátt; ítrekum við óskir félagasamtaka vorra um að þau fái óhindrað að halda áfram starfsemi sinn: fyrir íslenzka æsku, án þess að eiga á hættu átroðning af þéttbýli sem þessu.

Með mikilli virðingu.

Í umboði stjórnar KFUM í Reykjavík

Árni Sigurjónsson,

formaður sumarstarfs KFUM.

Til menntmn. Nd. Alþingis.“

En það eru fleiri, sem hafa sitthvað við þetta að athuga. M.a. hefur borizt bréf frá oddvitanum í Hvalfjarðarstrandarhreppi, og honum farast þannig orð, með leyfi hæstv. forseta:

„Að gefnu tilefni sér hreppsnefnd Hvalfjarðarstrandarhrepps sig knúða til að mótmæla til hins háa rn. hvers konar skerðingu á landi Saurbæjar á Hvalfjarðarströnd. Mótmæli okkar rökstyðjum við þannig:

Árið 1914 var u.þ.b. helmingur beitilands jarðarinnar tekinn undan til skógræktar, og sem bújörð þolir jörðin alls ekki frekari skerðingu. Af hálfu skógræktarinnar munu þau rök vera færð fram fyrir ásælni hennar, að það land, sem hér er um að ræða, sé að blása upp. Hins vegar teljum við, að birkigróður sé í meiri grósku innan þessa landsvæðis en í Vatnaskógi, þar sem skógræktin hefur haft umráð í fullan aldarhelming. Einnig teljum við fullkomið ósamræmi í því, að land þetta teljist tekið til friðunar um leið og á það er veitt þeim átroðningi, sem sumarbústöðum BSRB hlýtur að fylgja. Í Vatnaskógi eru, eins og kunnugt er, reknar á vegum KFUM sumarbúðir fyrir unga pilta úr þéttbýlinu. Starfsemi KFUM þar er þjóðarprýði, og óskum við þess, að þeirri starfsemi verði ekki raskað með óæskilegum sumarbústaðabyggingum í stórum stíl, þar í næsta nágrenni.

Um leið og við óskúm góðra málalykta í þessu máli, viljum við geta þess, að Magnús Thorlacius, hdl., mun gæta réttar okkar í þessu máli og vera talsmaður okkar í Reykjavík, ef þörf krefur.

Gert að Hrafnabjörgum 23. jan. 1967.

F.h. hreppsnefndar Hvalfjarðarstrandarhr. Guðmundur Brynjólfsson, oddviti.“

Þetta er afrit af bréfi til dóms- og kirkjumrn.

Loks er hér bréf frá sóknarprestinum í Saurbæ. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Ég undirritaður, sóknarprestur í Saurbæjarprestakalli í Borgarfjarðarprófastsdæmi, leyfi mér hér með að mótmæla þeirri landskerðingu og jarðníðslu, sem fyrirhuguð er í landi Saurbæjar, sem lögum skv. er prestssetur og kirkjueign. Einnig vil ég mótmæla þeirri málsmeðferð, sem viðhöfð hefur verið í máli þessu, þar eð eigi hefur verið leitað álits eða umsagnar neinna aðila hér í byggðinni, hvorki sóknarprests, sóknarnefndar eða sveitarstjórnar, sem þó eiga bæði lagalegan og siðferðilegan rétt til að fjalla um þetta mál. Skógræktarstjóri ríkisins mun hafa farið þess á leit að fá því nær allt beitiland Saurbæjar til skógræktar. Kvað hann styðja það þeim rökum, að hér sé um verulegan uppblástur að ræða. Um þessa málaleitan skal það tekið fram, að skv. bréfabókum Saurbæjarprestakalls fékk Skógrækt ríkisins um þáð bil helminginn af útlandi Saurbæjar til skógræktar árið 1914. Nú er það hins vegar staðreynd, og öllum kunnugt, er til þekkja, að í þessi 53 ár hefur skógræktin næsta lítinn skóg ræktað á umgetnu landi, og girðingin, sem umhverfis landið liggur, er að falli komin og því ólögleg, skv. 16. gr. skógræktarlaganna frá 1955. Það má ljóst vera öllum sannsýnum mönnum, að Skógrækt ríkisins hlýtur að standa það nær að hirða betur og rækta fyrir skóg á því landi, sem hún hefur haft til umráða yfir hálfa öld, áður en gerðar eru kröfur til að fá nær allt, sem eftir er af landi þessarar jarðar og leggja hana þar með í eyði. Hvað uppblásturinn áhrærir er það álit óvilhallra manna, þeirra er gerst þekkja, að hann sé enginn eða a.m.k. mjög lítill á því landi, sem skógræktarstjóri hefur leitað eftir, og gróður þar sé nú miklu meiri og blómlegri en hann var fyrir nokkrum áratugum síðan. Frá sjónarmiði þessarar sveitar og þessara staða hlýtur það að skipta höfuðmáli, að verði allt beitiland jarðarinnar tekið undan, þá verður eigi hægt að reka hér neinn búskap, og hlýtur því jörðin að leggjast í eyði.

Af þessum ástæðum vil ég, allra náðarsamlegast, leyfa mér að leggja til við hv. rn., að það synji beiðni skógræktarstjóra um frekari umráð yfir Saurbæjarlandi. Ég leyfi mér að vekja athygli rn. á því, að Saurbær á Hvalfjarðarströnd er einn af helgustu reitum íslenzkrar kristni og íslenzkrar þjóðar. Oss ber því bæði trúarleg, menningarleg og þjóðernisleg skylda til að halda þessum stað í byggð, og því verður eigi trúað, að rn. vilji beinlínis stuðla að því að leggja hann í auðn.

Það skal tekið fram, að á nútímavísu er Saurbær fremur rýrt brauð. Enginn varð til að sækja um það, er það losnaði á s.l. hausti. Mér býður í grun, að ef af fyrirhugaðri landskerðingu og jarðníðslu verður, muni það stuðla að því, að Saurbær leggist niður sem prestssetur. Ég tel hæpið, að nokkur prestur vilji taka á sig þá ábyrgð að nytja þær landsleifar, sem eftir yrðu, og viðhalda þeirri ræktun og þeim útihúsum, sem hér eru og metin eru á aðra milljón kr.

En það er ekki einvörðungu Skógrækt ríkisins, sem hér á í hlut, heldur mun einnig fyrirhugað að úthluta BSRB hluta af Saurbæjarlandi til orlofsheimila eða sumarbústaða. Hvað þá hugmynd áhrærir, skal það tekið fram, að ef af því verður, verður það gert í algerri óþökk allra hér í byggðinni. Sú ráðstöfun mundi eigi verða þessari sveit til þurftar og kirkjunni til einskis ávinnings. Það gefur auga leið, að slíku sumarþorpi, sem byggt yrði á 60 eða jafnvel 100 ha. lands, mundi fylgja nokkurt ónæði og ófriður, svo hætta er á, að spillast kynni sú náttúrufegurð og það varpland, sem hér er. Þá vil ég leyfa mér að benda á, að bygging sumarbústaða á svo gífurlega stóru landi, sem farið hefur verið fram á, mundi kosta verulegt jarðrask og jarðníðslu og gjöreyða skógi á stórum svæðum. Einnig vil ég leyfa mér að vekja athygli á því, að í næsta nágrenni við hið fyrirhugaða sumarbústaðaland standa sumarbúðir KFUM og hafa verið reknar þar með miklum ágætum í yfir 40 ár. Hætt er við, að þessi gróðrarvin íslenzkrar kristni mundi bíða nokkurn hnekki, ef af fyrirhugaðri sumarbústaðabyggingu verður. Af þessum ástæðum og fleirum, vil ég af fullri einurð leyfa mér að leggja til við hið háa rn., að það hverfi frá því að úthluta BSRB sumarbústaðalandi hér í Saurbæ.

Að lokum vil ég minna á, að Saurbær er fyrst og fremst kirkjueign og heilagt vé íslenzkrar kristni. Sem embættismaður og þjónn kirkju Jesú Krists á Íslandi tel ég mér skylt að mótmæla hvers konar skerðingu á réttindum og eignum kirkjunnar. Ég tel mér skylt að halda vörð um réttindi kirkjunnar og rækja skyldur við sóknarbörn mín. Ég mun því hvorki nú né síðar láta það afskiptalaust, að gengið sé á rétt heilagrar kirkju.

Með þetta í huga eru þessi mótmæli fram borin og vænti ég þess, að þau verði einhvers virði.

Virðingarfyllst

Jón Einarsson

sóknarprestur.

Til dóms.- og kirkjumrn.

Reykjavík.“

Þetta er afrit, sem menntmn. barst.

Eins og hér kemur glögglega fram, eru andmælin mörg og mjög hörð gegn þessari ráðstöfun. Þó er hinu ekki að leyna, að hæstv. ríkisstj. hefur að mínum dómi haft fulla heimild til þessarar ráðstöfunar, sem gerð var í samráði við þingflokkana. Og BSRB tók þessu með þakklæti, eins og ég hef áður sagt. En eftir að þessi mótmæli koma fram, óskar bandalagið eftir því, að landinu verði nú skipt fyrir eitthvert annað land, og nefnir Drageyri. Það er þess vegna, sem ég vil mælast til þess, að reynt verði að leysa þennan vanda, áður en frekari árekstrar verða. Ef þetta frv. verður samþ. óbreytt, eins og það liggur fyrir, er sýnilegt, að hér kunna að skapast vandræði, sem virðist vera hægt að sigla hjá, ef eitthvert tóm gæfist til þess að ná samkomulagi um makaskipti á landi, en mér sýnast öll tormerki á því, að slíkt verði gert, ef þetta verður keyrt í gegnum þingið, eins og nú standa sakir.