18.04.1968
Neðri deild: 101. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1501 í B-deild Alþingistíðinda. (1370)

8. mál, sala Setbergs o.fl.

Frsm. 1. minni hl. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Það má e.t.v. segja, að tilgangslítið sé að vera að ræða þessi mál hér yfir næstum tómum sal. Engu að síður vil ég benda á, að þetta frv. er til marks um heldur slæleg vinnubrögð á hinu háa Alþ.

Þetta mál kom upphaflega til n. þeirrar, sem ég á sæti í menntmn., og þá fjallaði það um þau fjögur atriði, sem fyrst eru talin í 1. gr., prestssetursjörðina Setberg í Eyrarsveit, Tómasarhaga 15 í Reykjavík, Brekkugötu 18 í Hafnarfirði og Vesturbraut 2 í Grindavík. Með frv. fylgdi þá grg., þar sem færð voru rök fyrir því, hvers vegna lagt var til að selja þessar eignir, og í n. beitti form. n. sér fyrir því að afla þeirra upplýsinga, sem um var beðið þar til viðbótar, þannig að við nm. áttum þess kost að gera okkur fulla grein fyrir málavöxtum og mynda okkur um þá skoðanir, og síðan gerðum við tilteknar till. til d.

Nú er þetta frv. komið hér aftur til okkar, og þá hafa bætzt við það fimm nýir liðir. Og nú bregður svo við, að maður fær ekki nokkra vitneskju um þá liði, sem við hafa bætzt. Þegar málið var rætt á einum fundi í menntmn., var þar ekki neina vitneskju að fá um prestsseturshús á Húsavík, húseignina Melgerði 10 í Kópavogi og prestssetursjörðina Velli í Svarfaðardal. Um þessi mál var engin vitneskja látin uppi í n., og ég get ekki séð, að nm. hafi nokkur tök á að gera till. til hv. d. um, hvernig eigi að bregðast við þessum till. Og hvernig er hægt að ætlast til, að alþm. taki ákvarðanir með atkvæði sínu um mál, sem þeir hafa ekki vitneskju um. Mér virðast svona vinnubrögð vera gersamlega ótæk. Efalaust hafa þessi mál verið rædd og rakin í þeirri n., sem hafði málið til athugunar í hv. Ed., en að stoðar okkur því miður ekki í þessari d.

Í Ed. gerðist svo það við 3. umr. málsins, að bætt var við tveimur liðum í viðbót, þessum síðustu tveimur heimildarákvæðum, annars vegar um, að Skátafélag Akraness fái spildu úr landi kirkjujarðarinnar Stóru-Drageyrar í Skorradal, og hins vegar, að ríkisstj. heimilist að afhenda BSRB allt að 50 ha. úr svonefndum Móadal úr landi Saurbæjar á Hvalfjarðarströnd. Þessi till. var flutt af hæstv. kirkjumrh. við 3. umr. og um hana var aldrei fjallað í þeirri n., sem hafði málið til meðferðar í Ed. Þess vegna fékk Ed. enga vitneskju um þá annmarka, sem eru á síðasta liðnum, og sem hv. síðasti ræðumaður rakti hér ýtarlega áðan.

Ed. fékk enga vitneskju um það, að flestallir aðilar, sem þarna eiga hlut að máli, hreppsnefndin og KFUM, biðjast mjög undan þessu nábýli við BSRB, sem þarna er gert ráð fyrir, með þeim margvíslegu rökum, sem við fengum að heyra áðan. Þess vegna kemur þetta atriði ekki til fyrr en núna við þessa umr. í Nd. Þetta eru auðvitað fjarskalega slæm vinnubrögð, svo að aðeins sé rætt um þá hlið á málinu. Ég verð einnig að segja það, að mér finnst það einkennileg aðferð hjá hæstv. ríkisstj. að hengja þessa gjöf til BSRB aftan í frv. um algerlega óskyld atriði. Þessi gjöf var hugsuð sem sérstakur heiður og viðurkenning frá ríkisstj. til samtaka opinberra starfsmanna. Ég var viðstaddur, þegar þessi gjöf var afhent, það gerðist á mjög hátíðlegan hátt. Mér hefði fundizt það vera í meira samræmi við þann hátíðleik, sem þar var, að ríkisstj. hefði flutt sérstaka till. um þetta og ekki hengt það á þennan hátt aftan í gersamlega óskyld mál. Ég verð einnig að segja það, að þegar við erum að gefa gjöf, hlýtur okkur að vera annt um það, að sú gjöf nái tilætluðum árangri og að henni fylgi sú ánægja og hlýja, sem hlýtur að hafa verið tilgangur gefendanna. En nú er komið í ljós, að svo er ekki. Þarna eru risin upp vandkvæði, sem eru það mikil, að BSRB hefur látið uppi ósk um að fá að flytja sig á annan stað. Mér finnst, að það sé algerlega óhjákvæmilegt fyrir Alþ. og ríkisstj. að hugleiða það mjög gaumgæfilega, hvort ekki er hægt að verða við þessari ósk BSRB. Aðeins á þann hátt erum við að uppfylla þann tilgang, sem hlýtur að hafa falizt í gjöfinni upphaflega. Mér er því ómögulegt að sjá, að nokkur ástæða sé til að hraða þessu atriði í gegnum þingið. Ég held, að það væri miklu skynsamlegra, að hæstv. ríkisstj. hefði ráðrúm til þess í sumar að athuga, hvort ekki er hægt að leysa þetta mál þannig, að allir verði ánægðir og síðan gæti hún lagt þetta atriði fyrir þing, þegar það kemur saman í haust.

Hæstv. forsrh. taldi áðan, að sala á þeim fasteignum, sem þarna eru taldar, mætti hins vegar ekki dragast. Ég held þó varla, að það mundi valda ýkja alvarlegum vandamálum, þótt ákvörðun um þau viðskipti yrði ekki tekin fyrr en í haust; ég geri ráð fyrir, að ríkisstj. hefði tök á því að leysa þá fjármunatilfærslu, sem nauðsynleg væri í því sambandi. En hvað sem því líður, ætti hitt a.m.k. að vera ákaflega auðvelt að fella aftan af þau tvö heimildarákvæði, sem þarna eru. Það er ekkert, sem rekur á eftir því, að þau séu samþ. núna. Og þegar

BSRB fer fram á að það sé alvarlega athugað, hvort ekki sé hægt að breyta um stað, finnst mér algerlega óhjákvæmilegt að verða við þeirri beiðni.

Hæstv. forsrh. sagði, að hugmyndin um, að BSRB fengi hluta af þeirri spildu, sem talað er um úr landi kirkjujarðarinnar Stóru-Drageyrar í Skorradal, fengi ekki staðizt. Ég er ekki svo kunnugur staðháttum þarna, að ég sé dómbær á það. Hins vegar væri fróðlegt, ef hæstv. ráðh. hefði skýrt okkur frá því, hvernig á því stendur. Hitt þætti mér einnig býsna fróðlegt, ef hann vildi greina mér frá því, hvernig því er háttað lögfræðilega með afhendingu landsvæðis frá slíkum kirkjujörðum. Þarna virðist þurfa heimildir til þess að afhenda Skátafélagi Akraness og BSRB landnæði til afnota. Nú er mér kunnugt um það, að í landi Stóru-Drageyrar í Skorradal hefur verið afhent land undir fimm sumarbústaði, og mér er spurn: Er ekki nauðsynlegt, að einnig sé leitað heimildar Alþ. til þess að afhenda land undir sumarbústaði einstaklinga? Ég spyr um þetta vegna þess, að ég hef heyrt því fleygt, að einmitt þessi sumarbústaðaúthlutun valdi því, að erfitt sé talið að verða við óskum BSRB um land í landi Stóru-Drageyrar í Skorradal. Ef svo er, þá fara sumarbústaðavandamálin að verða býsna fjölþætt og einkennileg hér á Íslandi. Hitt held ég, að sé algerlega öruggt, að þessir sumarbústaðir hafa þegar verið heimilaðir, og ég vænti þess, að hæstv. ráðh. geri grein fyrir lagahliðinni á þeirri ráðstöfun í sambandi við það, sem farið er fram á í þessum lögum.

En ég vildi svo að lokum aðeins ítreka það, að mér finnst, að það sé alveg sjálfsögð afstaða hjá hæstv. ríkisstj. og Alþ. að reyna að halda þannig á þeirri gjöf, sem gefin var til að heiðra BSRB, að allir aðilar verði sem ánægðastir. Það er auðvitað alveg rétt, sem hæstv. ráðh. sagði áðan, að það var búið að taka um þetta ákvarðanir, þingflokkarnir búnir að samþykkja það fyrir sitt leyti, en ég sé engin vandkvæði á, að menn endurskoði slíkar ákvarðanir. þegar í ljós kemur, að þarna er um að ræða annmarka, sem skerða þann tilgang, sem gjöfinni var ætlaður í upphafi.