18.04.1968
Neðri deild: 101. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1503 í B-deild Alþingistíðinda. (1371)

8. mál, sala Setbergs o.fl.

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Eins og ég tók fram áðan, hef ég ekki sérstaklega fylgzt með einstökum atriðum þessa máls og er ekki kunnugur því, hvaða upplýsingar hafa legið fyrir hv. Ed., en ég veit, að þar hafði hæstv. dómsmrh. sjálfur afskipti af málinu. En ég hef kynnt mér, að um prestsseturshúsið á Húsavík stendur svo, að það er hætt að nota það í þeim tilgangi, og það er talið, að það þurfi nú mikillar viðgerðar við og sé óhagkvæmt af ríkinu að leggja í þá viðgerð og eðlilegra að selja húsið í því ástandi, sem það er nú, vegna þess að annars murti það grotna niður.

Nokkuð svipuðu máli gegnir um Melgerði 10 í Kópavogi, að það er talið þurfa mikillar viðgerðar við og þess vegna eðlilegt að selja það. Það var hugsað sem bústaður bæjarfógeta. Hann hefur ekki búið í því, mun hafa hug á því að fá það til umráða, en með hliðsjón af l. um embættisbústaði og því, að húsið þarfnast viðgerðar, er talið eðlilegra að selja það í stað þess að ríkið taki að sér viðhald og láti það embættismanninum í té, eins og heimilt hefur verið eftir þeim l., sem hingað til hafa gilt.

Um prestssetursjörðina Velli í Svarfaðardal stendur svo, að það var prestssetur þar, en nú er presturinn fluttur í kaupstaðinn, svo að húsið að Völlum er ekki lengur notað í þessu skyni — eða jörðin, og þess vegna ætlazt til, að hún verði seld og hreppurinn fái forkaupsrétt.

Það er alveg rétt, að það verður enginn héraðsbrestur, þó að þetta mál verði ekki afgr. nú, eða fái ekki samþykki þingsins, en það sýnist með öllu ástæðulaust að fresta þessum atriðum. Hitt er annað mál, að ef menn telja einhver tiltekin atriði málsins vera þannig, að það sé í þeirra huga eðlilegra að þau bíði, er ekkert því til fyrirstöðu að flytja brtt. um þau og láta atkv. ganga um það hér í d.