19.04.1968
Efri deild: 99. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1508 í B-deild Alþingistíðinda. (1380)

8. mál, sala Setbergs o.fl.

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Frv. það, sem hér um ræðir um sölu á Setbergi, var lagt fram í byrjun Alþingis. Hér var þetta frv. einnig til 3. umr. fyrir nokkru síðan og fór þá til Nd. að nýju, og á því hafa verið gerðar ýmsar breytingar þar, sem í raun og veru engum hefur gefizt kostur á að kynna sér hér í þessari hv. d. til hlítar. Þá vil ég einnig minna á það, að þegar 3. umr. fór fram um þetta mál hér í hv. d. og talað var fyrir þeim brtt., sem þar voru fram bornar, komu heldur ekki fram nægjanlegar upplýsingar í málinu, því að það kom aldrei fram í þeim umr. annað en að samstaða væri um að afhenda BSRB hluta úr prestssetrinu Saurbæ á Hvalfjarðarströnd. En nú er það vitað mál, að samstaða er ekki um það mál, því að hér á hv. Alþ. hafa komið fram mótmæli frá prestinum, sem situr að Saurbæ, séra Jóni Einarssyni, en hann hefur samkv. samningum um leið og hann tók við því embætti fengið alla jörðina til afnota. Það má furðu sæta, ef það er hægt fyrir kirkjumálaráðuneyti að rifta samningum án þess að leita eftir samkomulagi áður. En það er það, sem upplýst er nú, að það hefur ekki heldur verið gert. Þess vegna er það, að þegar á þessu frv. hafa verið gerðar margar breytingar í hv. Nd. og það liggur enn fremur fyrir, að sú brtt., sem samþ. var hér í hv. d. við 3. umr. þessa máls, hefur valdið verulegum misskilningi og málið ekki verið túlkað á réttan hátt, vil ég mælast til þess, að þessu máli verði frestað nú, enda sé ég ekki, að það sé neitt það, sem kallar að, að þetta mál verði samþ. á þessu þingi. Ég sé heldur ekki, að það sé neitt aðkallandi fyrir opinbera starfsmenn að fá samþykkta þá till., sem hér var samþ. við 3. umr., eða fyrir rn. að beita sér fyrir því nú, úr því að það sá ekki ástæðu til þess, þegar málið var lagt fyrir hv. Alþ. snemma í vetur. Þess vegna vil ég mælast til þess við hæstv. forseta, að málinu verði frestað.