19.04.1968
Efri deild: 99. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1511 í B-deild Alþingistíðinda. (1383)

8. mál, sala Setbergs o.fl.

Karl Guðjónsson:

Herra forseti. Út af þeim umr., sem hér hafa farið fram um frv., sem kallað er sala Setbergs, en er nú orðið ólíkt meira en það mál, vildi ég aðeins auka við nokkrum orðum. Það, sem helzt hefur verið hér á dagskrá og orðið að vissu leyti deiluefni á milli hæstv. fjmrh. og hv. 1. þm. Vesturl., er afhending á landi til BSRB undir væntanlegt sumarbústaðahverfi. Ég vil taka það alveg sérstaklega fram, af því að ég hef svo oft atyrt ríkisstj. fyrir eitt og annað, að ég vil færa henni þakkir fyrir þá rausnarlegu og myndarlegu gjöf, sem hún afhenti BSRB á afmæli þess s.l. vetur, og ég vil á engan hátt stuðla að því, að þær heimildir, sem hún kann að hafa átt eftir að afla sér, verði henni á nokkurn hátt torfengnar. Hitt er annað mál, að ég verð að vissu leyti að taka undir það með hv. 1. þm. Vesturl., að sum þeirra mála, sem eru komin inn í frv., eru komin þangað með það óvenjulegum hætti, að ég get vel skilið þá, sem eitthvað hafa við slík mál að athuga, að þeir séu ekki ánægðir með afgreiðsluna.

Ég held, að ég muni það rétt, að t.d. þetta atriði varðandi heimild fyrir ríkisstj. til þess að afhenda BSRB land í Móadal úr prestssetursjörðinni Saurbæ á Hvalfjarðarströnd, hafi verið flutt hér með brtt. við frv. á milli 2. og 3. umr., eða nánar til tekið við 3. umr., og kom því aldrei til athugunar í landbn., þeirri n., sem hv. 1. þm. Vesturl. á sæti í og þar sem hann, að því er mér skildist, hefði viljað athuga það betur, svo að það er þess vegna honum álíka framandi eins og það hefði verið sett inn í annarri d. í rauninni. Ég skal taka það alveg sérstaklega fram, að það er ekki vegna þess, að BSRB sé ekki ánægt með það land, sem því hefur verið afhent með bréfi ríkisstj., að komið hefur til mála að skipta á landi. Það er af öðrum ástæðum. Það er af þeim ástæðum, að við í stjórn BSRB höfum orðið þess varir, að nokkur vafi leikur á því, að þarna yrði eins ákjósanlegt sambýli væntanlegra sumarbústaðagesta og nágrannanna og vænzt hefur verið vegna þess að á tvær hliðar hefur svona heldur verið amazt við því, að bandalagið settist þarna að með sitt hverfi. Annars vegar er það presturinn í Saurbæ, sem látið hefur í ljósi nokkra óánægju með þessa ráðstöfun á landinu og hins vegar er það, að KFUM og KFUK reka sumarbúðir fyrir börn eða ungmenni þarna rétt á næstu grösum í Vatnaskógi, og þeir aðilar hafa einnig látið í ljósi, að þeir óskuðu frekar, að þarna risi ekki upp sumarhústaðahverfi. Stjórn BSRB hefur þess vegna tjáð sig fúsa til þess að skipta á landinu, ef gefendum þætti ástæða til, og einmitt hefur komið til mála í því sambandi land í Skorradal, að því er mér skilst á svipuðum slóðum og skátar frá Akranesi reynast nú hafa fengið loforð eða vilyrði fyrir. Allt er þetta mál með þeim hætti að það þarf vissrar athugunar við. Engu að síður mæli ég með því, að ríkisstj. sé af Alþ. hálfu gefin heimild fyrir þeirri afhendingu, sem hún hefur heitið. Ég tel samt, að landskipti geti komið til greina, þó að heimildin sé gefin, því að hér er ekki um það að ræða, að deila sé um merg málsins í raun og veru.

Þá var það og annað, sem ég vildi segja af þessu tilefni, en það er þetta: Það er mjög óeðlilegt, að flokkaðar séu í eitt frv. margar eignir ríkissjóðs, sem eiga fátt sameiginlegt, og að heimild fyrir sölu þeirra eða afhendingu sé kippuð upp í eitt frv. á allra seinustu dögum þingsins, þegar í rauninni er ekki ráðrúm til mikilla breytinga, því að eins og við sjáum hér, er nú komið í það illt efni, að annað tveggja hlýtur að ske, að þetta trv. verður samþ. gegn vilja ýmissa þeirra, sem ekki er þó ástæða til að ætla, að ekki hefði getað náðst fullt samkomulag við um öll meginatriði frv., eða þá að frv. verður að bíða og leggjast fram að nýju, annaðhvort í einu lagi eða sundurliðað, eftir því sem hinar ólíku eignir gefa í rauninni tilefni til, að gert væri. Ég fyrir mitt leyti vildi gjarnan, að ýmis atriði í þessu fengju nánari athugun í n., því að maður rekur sig svo oft á það, að þó að þeir pappírar, sem hér eru lagðir inn til rökstuðnings fyrir slíkum sölum og afhendingum, virðist við fljótan yfirlestur vera þess eðlis, að þar leynist engin deiluefni, Alþ. sé ekki að blanda sér inn í neinar deilur með því að samþykkja slíkt, þá kemur iðulega í ljós, að málin eru hreint ekki eins einföld og þau líta út fyrir í fyrstu. Og það er eðlilegt, að þau séu athuguð í n., en svo er ekki um allmörg atriði af þeim, sem hér eru komin inn í frv. núna. Ég tel, að þó að fjmrh. hafi hér gert grein fyrir því, sérstaklega í sambandi við eitt atriði frv., þ.e.a.s. sölu á húseigninni Tómasarhaga 15, sé nauðsyn á að fá heimild fyrr heldur en orðið gæti, ef frv. væri látið liggja til næsta hausts. Þá sýnist mér, að ekki mundi verða alveg útilokað að gera um það þingflokkasamkomulag, að stjórnin eigi ekki neitt á hættu um, að þetta verði fellt, þó að það biði. Og þar af leiðandi tel ég, að stjórnarandstaðan, a.m.k. í þessari d., hafi nú ekki sýnt slíka hörku eða óvægni eða óbilgirni í ýmsum málum, sem stjórnin þurfti að koma hér áfram, að ekki væri hugsanlegt að verða við tilmælum eins og þeim sem hv. 1. þm. Vesturl. hefur hér haft uppi.