08.04.1968
Efri deild: 84. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1516 í B-deild Alþingistíðinda. (1390)

185. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Svo sem fram kemur í aths. við frv. þetta, þá er það flutt til fullnægingar á loforði ríkisstj., er hún gaf í sambandi við nýafstaðna kjarasamninga, um lækkun vísitölugreiðslna á húsnæðismálastjórnarlán um helming þess álags, sem vísitalan hefur á íbúðarlánin lagt. Önnur breyting er og gerð á lögunum með þessu frv. Frá því að Öryrkjabandalagi Íslands var veitt aðild að húsnæðismálastjórnarlánum til byggingar leiguhúsnæðis, hefur mjög verið eftir því sótt, bæði af hálfu forstöðumanna Elliheimilisins Grundar í Reykjavík og Sólvangs í Hafnarfirði, að fá hliðstæða aðild, og er ráð fyrir því gert í 2. gr. frv.

Frv. er að öðru leyti tæknilegs eðlis, sem ég tel óþarft að rekja hér, sér í lagi 3. og 4. gr. þess, sem fjalla um framkvæmd þessa loforðs ríkisstj. um helmings lækkun á vísitölugreiðslum þeim, sem lántakendur hafa greitt samkv. ákvæðum l., sem sett voru 1964. Ég tel að öðru leyti óþarft, nema tilefni gefist til, að fara nánar út í efni frv. Þetta eru tvö meginatriði frv., sem ég hef þegar minnzt á, og voru af verkalýðsfélögunum metin við samningagerðina og frv., eins og ég sagði áðan, flutt til fullnægingar því loforði sem ríkisstj. þá gaf.

Ég legg til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. heilbr.— og félmn. Ég vil auk þess geta þess, að samtök byggingariðnaðarmanna og byggingameistara hér í Rvík hafa komið að máli við mig og óskað eftir því, að samtökum þeirra, — ekki einstaklingum, heldur samtökum þeirra, — verði veitt svipuð fyrirgreiðsla og gert er ráð fyrir varðandi framkvæmd þeirra reglugerðarákvæða, sem gilda um framkvæmdaáætlun íbúðabygginga, sem byrjað hefur verið á hér í Rvík. Ég tel eðlilegt, að sú n., sem málið fær til meðferðar, athugi beiðni þessara aðila og mun láta henni í té þær till., sem þessir aðilar hafa um þessi mál gert. Ég ítreka það, herra forseti, að ég legg til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. heilbr.- og félmn.