16.04.1968
Efri deild: 91. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1524 í B-deild Alþingistíðinda. (1397)

185. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Björn Fr. Björnsson:

Herra forseti. Við hv. 1. þm. Vesturl., sem erum báðir í heilbr.- og félmn. höfum á fundi n. í dag samþykkt að mæla með því frv., sem hér liggur fyrir, en við höfum áskilið okkur rétt til þess að flytja eða fylgja framkomnum brtt. Annað höfuðatriði til breytingar á löggjöfinni, sem felst í þessu frv., er það að breyta skuli í sambandi við vísitölu ársgreiðslum hverju sinni. Í núgildandi löggjöf er gert ráð fyrir því, að lántakendur í húsnæðislánakerfinu greiði fulla vísitölu á ársgreiðslur, en hér er gerð breyting á, þannig að eftirleiðis skuli lántakendur aðeins greiða sem svarar helmingi vísitöluhækkunar. Þó að við framsóknarmenn í n. séum ekki alls kostar ánægðir með þessa breytingu og vildum ganga lengra, eins og frv. eða till. frá framsóknarmönnum hafa áður legið fyrir um, þá höfum við þó viljað fylgja þessari breytingu í frv., og þá aðallega vegna þess, að hún er fram komin á grundvelli samkomulags ríkisstj. eftir síðasta verkfall.

Að sönnu sjáum við ekki ástæðu til þess að ganga lengra en þessu samkomulagi nemur, en mér þótti rétt að taka það fram, að framsóknarmenn hafa hér á þingi og oftar en einu sinni borið fram till. þess efnis, að þessi vísitölubinding yrði að fullu látin niður falla. Hún var á sínum tíma sett inn með samkomulagi fulltrúa verkalýðssamtaka, að því er ég veit bezt, og ríkisstj. (Gripið fram í: Það var árið 1964—1965), en það kom fljótt fram og var margra manna álit, að þar hefðu fulltrúar verkalýðssamtakanna samið allalvarlega af sér og ekki gætt hagsmuna þess fólks, sem þeir nú annars eiga að sjá um og rækja, sem skyldi. Einmitt það fólk, sem hefur notið góðs af þessu sérstaka veðlánakerfi, hefur verið að meiri hluta hinir ungu og hinir fátækari, sem eru að reisa sér hús og byggja yfir sig. En aðrir, sem á þessum liðna tíma fengu lán úr öðrum sjóðum og með öðrum hætti, hafa ekki þurft að hlíta slíkri reglu. Þarna er æðimikið misrétti á ferðinni og sem margir sáu, að þyrfti leiðréttingar við hið allra fyrsta, og við framsóknarmenn höfum einmitt verið þeirrar skoðunar, að ákvæði sem þetta ætti og hefði átt fyrir löngu að falla niður, en eins og ég sagði; við framsóknarmenn í heilbr.- og félmn. viljum ekki og vildum ekki flytja frekari brtt. í þetta sinn og munum fylgja þessum breytingarákvæðum.

Þá eru það aðeins nokkur orð í sambandi við brtt. þremenninganna á þskj. 610. Þessi till. sýnist vera nokkurt flýtisverk og borin fram hér alveg á síðustu stundu, þannig að þm. almennt hafi ekki haft ráðrúm til þess að íhuga hana til fulls. Ég get vel álitið, að hún sé að ýmsu leyti góðra gjalda verð, þessi till., að því er, skulum við segja, horfir til sparnaðar í byggingu stórhýsa, sem framkvæmd er á vegum meiri háttar verktaka. En hitt er svo annað og að minni hyggju höfuðatriði, að þau lán, sem yrðu veitt hér þessum nýja aðila í kerfinu, mundu að sjálfsögðu höggva skarð og það mjög alvarlegt í lán til þeirra, sem þessi löggjöf var fyrst og fremst stíluð á, þ.e. til unga fólksins víðs vegar um land og þeirra, sem síður mega sín um byggingar húsnæðis.

Hér var minnzt á Breiðholtsframkvæmdir. Það er löngu komið í ljós, að þær framkvæmdir ganga mjög inn á hið almenna veðlánakerfi og munu gera það náttúrlega áframhaldandi og sjálfsagt í enn ríkara mæli. Þegar þetta hvort tveggja kemur til, er það alveg auðsætt, að það verður mjög þröngt um lán handa þeim mörgu, sem eru að byggja og ætla sér á næstunni að byggja víðs vegar úti um land, því að það er víðar byggt en í Reykjavík, eða Stór-Reykjavík, og það er af þeirri ástæðu fyrst og fremst, sem við framsóknarmenn í þessari hv. d. munum ekki fylgja þessari till. eins og hún liggur hér fyrir.

Hv. frsm. brtt. á þskj. 610 gat réttilega um það, að það væri stórleg yfirsjón að hafa ekki í þessari till. ákvæði, sem lýtur að því, að lán til þessara stóru verktaka væri bráðabirgðalán, en það kemur ekkert fram um það, hvernig lánin eiga að víxlast, þegar til kemur. Þetta er aðeins eitt atriði, sem hefur verið af nokkurri fljótfærni farið fram hjá og svo mætti vera um fleiri. Sem sagt, till. þarf mikillar athugunar við, og væri rétt að leita umsagnar ýmissa aðila, og auk þess er hún, eins og árar hjá okkur í þessum lánamálefnum öllum saman alls ekki að minni hyggju og okkar margra tímabær, og það er höfuðatriðið. Eins og ég sagði áðan, munum við framsóknarmenn í þessari hv. d. greiða atkv. gegn þessari till. á þskj. 610, eins og allt er í pottinn búið.