16.04.1968
Efri deild: 91. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1526 í B-deild Alþingistíðinda. (1398)

185. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Ég skal ekki eyða tíma hv. þd. í að ræða frv. sjálft frekar en ég gerði þegar við 1. umr. málsins. En það er út af ræðu tveggja hv. stjórnarandstæðinga, sem minni hl. n. skipa, sem ég taldi ástæðu til að kveðja mér hljóðs. Ég vil í fyrsta lagi taka það fram, að afstaða þessara hv. þm. til þess, sem ég tel vera megininnihald þessarar brtt., sem meiri hl. flytur, hlýtur að mínu viti að vera á misskilningi byggð, a.m.k. hv. 6. þm. Sunnl., því að ég veit, að hann er þann veg þenkjandi, sósíalt þenkjandi í þessum málum, að andstaða hans við þessa brtt. hlýtur að stafa af misskilningi. Það kann að vera, að það megi, eins og hv. síðasti ræðumaður talar um, bæta inn í hana einhverjum leiðréttingum og sjálfsagt eru flm. till. reiðubúnir til þess, ef meginefni helzt, en ég segi hv. þd. það, að frá því að húsnæðismálastjórn hóf sitt starf, hefur einmitt efni þessarar till. verið hennar meginkeppikefli og sér í lagi okkar, Alþfl.-manna, sósíalista og Alþb.-manna, sem þar hafa átt sæti. Vegna hvers? Vegna þess fyrst og fremst, að við höfum orðið að dæma lánin til einstaklinga eftir einstaklingnum, eingöngu eftir hag hans og ástæðum, burtséð frá því, hvernig sá, sem selur honum íbúðina, fer með hann. Setjum svo, að maður fái sams konar íbúð og ég — við skulum bara taka einhverja skikkanlega íbúð, 80 fermetra íbúð. Við kaupum hana hjá sínum aðilanum hvor, og það munar 200—300 þús. kr. á söluverði þessara aðila. Við kaupum íbúðirnar á svipuðum tíma, og við fáum nákvæmlega sama lán hjá húsnæðismálastjórn. En sá, sem er svo óheppinn að þurfa að taka íbúðina með hærra verðinu, stendur illa að vígi, því að verið getur, að lánið frá húsnæðismálastjórninni hrökkvi ekki fyrir mismuninum.

Með þeirri till., sem hér er flutt, er sett sú trygging, að húsnæðismálastjórn sjálf hefur hönd í bagga með verði þessara íbúða. Áður en bráðabirgðalánið til viðkomandi byggingarmeistara er af hendi látið, samþykkir hún verð, sem hann skuldbindur sig fyrirfram til að láta íbúðina á. Það er reginmunur á þessu og því, sem viðgengizt hefur undanfarið í hinu almenna veðlánakerfi, þar sem við höfum orðið að láta Jón Jónsson, ef ég má orða það svo, hafa sitt ákveðna hámarkslán, af því að hann hafði svona og svona slæmar ástæður, alveg án tillits til þess, hvernig sá, sem seldi honum íbúðina, fór með hann eða hvað hann, söluaðilinn, hagnaðist mikið á sinni sölu. Og þessu til rökstuðnings vil ég enn fremur benda á það, sem oft er vitnað hér til, bæði af mér og hv. stjórnarandstæðingum nú í seinni tíð, að það er þetta fyrirkomulag, sem gildir hjá flokksbræðrum mínum á Norðurlöndum. Þeir hafa þann hátt á, að byggingarmeistarinn verður fyrirfram að skuldbinda sig til þess að selja íbúðina eða fermetrann í þessu húsnæði á fyrirfram ákveðnu verði, og hann verður að bíða tjón af verðhækkunum og öðru slíku, sem skeður á byggingartímanum og lánið, sem hann hefur fengið meðan á byggingartímanum stóð, færist síðan yfir á hinn væntanlega íbúðareiganda, og það er hugmyndin, sem að baki þessari till. hér liggur.

Ástæðan til þess að byggingarmeistarar ganga inn á þessa till. nú, en hafa ekki til þess fengizt til þessa, er tilkoma byggingaráætlunarinnar hér. Þeir segja: Við skulum keppa við ríkisfyrirtæki, sem þeir nefna svo, og við skulum láta af hendi billegri íbúðir heldur en framkvæmdanefnd byggingaráætlunar stendur fyrir nú. Við skulum sanna ykkur það með því að taka á okkur sömu áhættu og hún gerir. Við þurfum bara að fá rekstrarfé meðan á byggingartímanum stendur, og það rekstrarfé færi síðan með íbúðinni sem lán til hins væntanlega eiganda.

Það er þess vegna alger misskilningur hjá hv. 4. þm. Sunnl., þegar hann talar um, að þetta kerfi muni út af fyrir sig rýra hið almenna veðlánakerfi. Hvaða aðilar fá þessar íbúðir? Er það einhver, sem ekki þurfti íbúð áður? Vitanlega fá jafnt ungir sem gamlir þessar íbúðir, sem byggðar kunna að verða með þessum hætti, rétt eins og íbúðir byggingaráætlunar. Ungt fólk situr síður en svo verr að þessum hlut heldur en hinu almenna veðlánakerfi í dag. Þetta ákvæði má sjálfsagt gjarnan orða eitthvað stífara, en ef húsnæðismálastjórn hætti raunverulega að úthluta þessum hámarkslánum til væntanlegra íbúðareigenda, en úthlutaði íbúðum, íbúðum, sem fyrirfram er tryggt með samningum við húsnæðismálastjórn fyrir hvaða verð skuli byggðar, þá tekur það af þessa möguleika, sem menn hafa oft talað hér um á undanförnum árum, bæði ég og aðrir, til að stunda braskviðskipti með íbúðir, þannig að menn geti jafnvel dregið að selja íbúðir sínar til þess að bíða eftir verðhækkunum og annarri óáran í fjárhagsmálum í landinu, til þess að geta síðan fengið íbúðina hækkaða svo og svo mikið í krónutölu.

Þess vegna held ég, að það sé grundvallarmisskilningur hjá þessum ágætu þdm., sem hér hafa um þetta talað, andstæðingunum, að þetta sé spor aftur á bak, sem rýri hlut þeirra, sem annars hefðu fengið eðlileg lán. Ég tel þvert á móti, að í þessu felist mikil trygging fyrir væntanlega íbúðareigendur frá því, sem því miður hefur verið undanfarin ár. Og ég held, að það sé alveg tvímælalaust jafnréttisósk af hálfu byggingarmeistaranna að fá að keppa við byggingaráætlunina, það sé æskilegt fyrir hana sjálfa og byggingarmeistarana líka. Ef braskhugmyndin sem ég nefndi hér áðan, hefur verið svo almenn sem ég og aðrir höfum viljað halda fram, þá hefur þessu hugarfari með þessu verið snúið við. Í stað þess að sæta færi til að selja á sem hæstu verði vilja menn a.m.k. eins og nú horfir, geta sýnt byggingarkostnaðinn sem allra lægstan hjá sér. Ég tel þetta svo mikils virði fyrir alla væntanlega íbúðareigendur og sanngirniskröfu af hálfu byggingarmeistaranna, að þeir fái þessa aðstöðu að till. sé að meginefni til sjálfsögð og til mikilla hagsbóta fyrir væntanlega íbúðareigendur.

Þetta vildi ég um þessa brtt. segja. Ég efast ekki um, að flm. hennar séu tilbúnir til að gera þetta orðalag eitthvað skarpara, að lánin veitist byggingarmeisturum t.d. á meðan á byggingartíma stendur og skiptist síðan á milli væntanlegra íbúðareigenda. Látið var að því liggja hér áðan, að lánin gætu hugsanlega samkv. till. setið eftir hjá byggingarmeisturunum. Það er alls ekki meiningin. Það, sem er hugmyndin með till. og að baki þessu nál., sem till. er byggð á, er fyrst og fremst það, að þeir menn, sem byggja íbúðina, fái, gegn þeim fyrirheitum, sem ég hef þegar minnzt á, fé til sín meðan á byggingartímanum stendur. Og húsnæðismálastjórn hefur áður samþykkt verð íbúðanna og gengið að söluskilmálum og talið þá viðunanlega, annars fá þessir aðilar ekki lánið. Og þar er eins rækilega frá því gengið og mögulegt verður. Þar er þingkjörin stjórn, fulltrúar allra flokka, sem hlut eiga að máli, þannig að fullkomið eftirlit ætti að vera með því, að rétt sé á haldið. Og ég þekki þessa gömlu samstarfsbræður mína það vel, að þeir mundu ekki láta það liggja í láginni, ef níðzt væri á mönnum í þessu efni. En þetta er, eins og ég sagði breytt viðhorf frá því, sem áður hefur verið, mjög í bataátt.

Hv. 6. þm. Sunnl. mælti hér fyrir skriflegri brtt., sem hann taldi, að ætti að tryggja það, að sú byggingaráætlun, sem nú er í gangi hér í Reykjavík, skerði ekki hlut almennra lántakenda eða lánamöguleika úr almenna veðlánakerfinu. Að því leyti, sem þessar ábendingar mínar um að þarna sé á misskilningi byggt, duga ekki gegn þessum fullyrðingum, er rétt að geta þess, að byggingaráætlunin hefur að langstærstum hluta verið uppi borin af Byggingarsjóði ríkisins. Það er rétt. En hitt ber á að líta einnig, að þær framkvæmdir, sem þarna eiga sér stað, koma nú sjálfsagt síðar meir allri landsbyggðinni til góða, enda gert ráð fyrir því í því samkomulagi, sem þessar framkvæmdir eru byggðar á frá 1965, að þessar byggingaráætlanir mun reifast út um landið, og ég man bara nú af hendingu þegar eftir fjórum kaupstöðum, sem þegar hafa hafið sínar undirbúningsathuganir í þessu efni með samþykki félmrn., þ.e. Siglufjörður, Sauðárkrókur, Akureyri og Selfoss og mig minnir Húsavík einnig, og fleiri bæir hafa tilkynnt áhuga sinn á þessum efnum. Þeir hafa allir leitað til framkvæmdanefndar byggingaráætlunarinnar hér og reynt að læra af hennar reynslu um að standa að þessum málum og forðast það, sem þeir hér telja, að gæti miður farið. Að þessu leyti tel ég landsbyggðina njóta þess starfs. Og þó að hér hafi verið byrjað á þessum framkvæmdum, þar sem íbúðarskorturinn var allra sárastur og þyngstur á metunum í afkomu manna, var það einróma álit verkalýðshreyfingarinnar þá, að hér bæri að hefja þessar framkvæmdir.

Svo í öðru lagi vil ég geta þess, að á s.l. ári veitti atvinnuleysistryggingasjóður til þessara framkvæmda 30 millj. kr. og hefur auk þess heitið öðrum 30 á þessu ári, og auk þess er gert ráð fyrir 20 millj. kr. á framkvæmdaáætlun ríkisins til þessara hluta nú. Það er í fyrsta sinn komið inn á framkvæmdaáætlun þar, þannig að þessar fjárhæðir, sem þarna eru komnar til, um 80 millj. kr., munu að sjálfsögðu draga úr útgjöldum byggingarsjóðs. Einmitt nú þessa daga er verið að gera upp fjárhagslegu hlið framkvæmdaáætlunarinnar, þannig að erfitt er fyrir mig að fullyrða á þessari stundu, hvernig þessi fjárhagsmál standa. En það er alveg ljóst, að meginhluti þessa verkefnis hefur fjárhagslega verið borinn af byggingarsjóði, þrátt fyrir tilkomu þessa fjár, sem ég nú hef nefnt.

Ég hefði því talið, að sú brtt., sem hv. 6. þm. Sunnl. flytur, væri betur komin í þeirri allsherjar endurskoðun á húsnæðismálunum öllum, sem yfir stendur nú, heldur en samþykkjast akkúrat á þessum tíma, meðan jafnóvíst er um þá fjármuni, sem til þessara hluta þarf. Það er hins vegar rétt hjá honum, að um hálfs annars árs skeið tókst að fullnægja öllum umbeðnum lánbeiðnum í húsnæðismálastjórn. Það var hvort tveggja, að tekjur sjóðsins jukust að stórum mun og byggingarframkvæmdir drógust saman um þetta skeið, en jukust svo aftur síðan, en þetta gerði það mögulegt að fullnægja við þrjár lánveitingar í röð öllum lánbeiðnum, sem mun vera nánast einsdæmi hjá slíkum lánasjóði. En eitt af þeim verkefnum, sem ríkisstj. gaf yfirlýsingu um við lok þessarar síðustu vinnudeilu í byrjun marz og fól þeirri svokölluðu atvinnumálanefnd, sem sett hefur verið á stofn, að athuga, eru auknar tekjur Byggingarsjóðs ríkisins. Og væntanlega getur sú nefnd skilað sínu áliti, eins og í yfirlýsingunni segir, áður en gildistími samninganna rennur út á þessu ári. Og ég teldi, að þessi till., sem ég vil á þessu stigi alls ekki mæla gegn, ætti betur heima í þeirri allsherjar endurskoðun ásamt athugun á frekari tekjumöguleikum byggingarsjóðs.

Hins vegar er rétt að minna á það, og ég geri það ekki í neinum ádeilutón, að menn mega ekki tala um þann biðtíma, sem nú gildir hjá húsnæðismálastjórn, eins og hann sé eitthvert fyrirbæri, sem sé nú að taka gildi. Húsnæðismálastjórn hefur starfað frá árinu 1955, og hefur verið bent á það hér, að hún er sett að frumkvæði þáv. félmrh., Steingríms heitins Steinþórssonar, og var mjög merkilegt skref í framfaraátt í þessum málum, og ég tel, að þær lánveitingar og framkvæmdir, eftirlit og endurbætur i byggingarháttum landsmanna, sem búsnæðismálastjórn hefur siðan af hendi leyst, sé stærri og þyngri á metunum heldur en menn kannske almennt vilja viðurkenna í dag. Ég minni t.d. á það, að þegar ég tók fyrst sæti í húsnæðismálastjórn 1956, taldist það til undantekninga, ef fram kom formlega gerð og samþykkt teikning frá öðrum stöðum en Reykjavík og allra stærstu bæjunum hér í nágrenni Reykjavikur. Það er jafnfátítt, að ófullkomnar teikningar berist í dag. Þetta er fyrst og fremst starfsemi teiknistofu húsnæðismálastjórnar að þakka. Hún hefur getað látið mönnum í té á sanngjörnu verði teikningar, sem þeir hafa síðan getað valið úr, allmiklu úrvali, sem hefur komið þeirri menningu á í þessum efnum, ef ég má orða það svo, að það er jafnfátítt nú eins og almennt var áður, að byggt sé upp eftir algerlega ólöglegum teikningum á vasabókarblöðum.

Þetta held ég að geti nægt af minni hálfu, á þessu stigi málsins a.m.k., varðandi þær aths., sem fram hafa komið. En ef í till. mætti með einhverjum orðalagsbreytingum fyrirbyggja þann misskilning, sem mér fannst örla á í ræðum þessara tveggja hv. þm., vildi ég beina þeim tilmælum til flm., að þeir væru við því búnir að athuga það orðalag og, ef hægt væri, að fyrirbyggja þann misskilning, sem mér fannst aðeins örla á.