16.04.1968
Efri deild: 91. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1530 í B-deild Alþingistíðinda. (1399)

185. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Sveinn Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil sérstaklega lýsa ánægju minni yfir 2. gr. þessa lagafrv., þ.e. að nú verði auk Öryrkjabandalags Íslands einnig elliheimilum víðs vegar veitt lántökuheimild hjá húsnæðismálastjórn. Framkvæmdir Öryrkjabandalagsins hér í bæ vekja verðskuldaða athygli og er ekki að efa, að þessi heimild kemur til með að lyfta þeim framkvæmdum. Lánsheimild til handa elliheimilum til að byggja leiguhúsnæði, að sjálfsögðu fyrir gamalt fólk, verður án efa einnig á sama hátt til að lyfta slíkum stofnunum, t.d. elliheimilinu hér í Reykjavík, en rekstur þess er allur hinn athyglisverðasti.

Varðandi brtt. á þskj. 610, sem flutt er af þremenningunum, þ.e. meiri hl. nefndarinnar, að tilhlutan hæstv. ríkisstj., vil ég segja þetta: Ég fagna þessari brtt. og lýsi stuðningi við hana. Samtök byggingarmeistara leggja mikið upp úr því að fá sett inn í l. um Húsnæðismálastjórn ríkisins ákvæði, sem hér er gerð till. um. Íbúðarbyggingar og verð á íbúðum eða jafnvel okur, eins og kallað hefur verið, hefur verið mikið á dagskrá undanfarin ár. Meðal raka, sem byggingarmenn hafa réttilega borið fram, er það, að þeir njóti ekki jafnréttis við t.d. byggingarsamvinnufélög eða sérstaklega við byggingarframkvæmdir í Breiðholti. Það er ekki að efa, að þessi till., ef samþ. verður, verður til mikils hagræðis fyrir byggingarmenn og ekki síður fyrir væntanlega kaupendur, sem eftir samþykkt þessarar till. eiga að geta gengið inn í kaup á tilbúnum íbúðum og þannig yfirtekið lán húsnæðismálastjórnar strax við kaupin. Þetta fyrirkomulag á einnig að geta orðið kaupendum íhúða mikil trygging. Margir þekkja sögu um óheyrileg kaup á hálftilbúnum íbúðum. Kaupendur íbúðanna hafa þá sem leikmenn oft gengið út frá, að þeir væru að kaupa íbúðarhúsnæði, sem lengra væri komið í byggingu, án þess að gera sér grein fyrir, hve mikið væri ófullgert. Hér er gert ráð fyrir, að íbúðir, sem þessi lán fengjust til, séu seldar fullgerðar með verðviðurkenningu húsnæðismálastjórnar. Það er ekki vafi á því, að þetta fyrirkomulag getur gert mikla byltingu til þess að færa byggingarkostnaðinn nær réttu verðlagi. Byggingartími hér á landi er óhæfilega langur. Vextir á byggingartíma eru veruleg upphæð og verða þeir að sjálfsögðu til þess að hækka byggingarkostnað, þar sem um langan tíma er að ræða, oft 2 ár, sem venjulegt íbúðarhúsnæði, er í byggingu. Og mér er nær að halda, að vaxtagjöld af venjulegri íbúð geti numið 10—12% af byggingarkostnaði. Þetta verður sífellt algengara, þar sem byggingarmenn, sem standa í byggingum, hafa að jafnaði ekki fjármagn til að flýta byggingunum sem skyldi, og verður þetta að sjálfsögðu mest hjá byggingarfélögum og byggingarmeisturum, sem byggja í stórum stíl til sölu og ekki hafa sölumöguleika á fyrsta byggingarstigi. Og skiljanlega lendir svo þessi vaxtakostnaður að meira eða minna leyti eða algerlega á kaupendum, sem oft er ungt fólk, sem er að stofna eigið heimili og hefur ekki of góðar ástæður til þess að taka á sig óeðlilegan vaxtakostnað. Þetta er því æskileg till., sem væntanlega fær fylgi Nv. þm.