27.11.1967
Neðri deild: 28. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 212 í B-deild Alþingistíðinda. (140)

66. mál, verðlagsmál

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Svo sem oftsinnis hefur verið tekið fram hér á hinu háa Alþ. af hálfu ríkisstj., er það stefna hennar að hafa samráð við verkalýðshreyfinguna í því skyni, að gengislækkunin, sem nýlega var ákveðin á íslenzku krónunni, rýri hlut launþega ekki meira en brýnasta nauðsyn er á eða algerlega óhjákvæmilegt reynist. Fyrir nokkrum dögum var af hálfu Alþýðusambands Íslands borin fram sú ósk við ríkisstj., að fulltrúar ASÍ fengju aðild að verðlagsákvörðunum, þ.e.a.s. fulltrúar ASÍ fengju sæti í verðlagsnefnd, þeirri opinberu n., sem um verðlagsmál fjallar og tekur ákvarðanir um verðlagsmál, en samkv. gildandi l. verður hún kosin af Alþ. hlutfallskosningu auk þess, sem í henni á sæti sem formaður ráðuneytisstjóri í viðskmrn. Ríkisstj. hefur að vandlega athuguðu máli og að höfðu samráði við ASÍ ákveðið að verða við þessum óskum. En jafnframt þykir þó eðlilegt, að Vinnuveitendasambandið, Verzlunarráð Íslands og Samband ísl. samvinnufélaga fái hliðstæða aðild að verðlagsnefndinni og að embættismaðurinn, sá, sem verið hefur formaður, gegni áfram formennsku í n. Það hefur þótt rétt að hafa þessa skipun tímabundna, þ.e.a.s. láta hana gilda til ársloka 1968, þar eð tilgangurinn með þessu er fyrst og fremst sá að veita fulltrúum ASÍ aðild að verðlagsnefndinni, meðan áhrifa gengislækkunarinnar er að gæta. En gera má ráð fyrir því, að full áhrif gengisbreytingarinnar verði komin fram í verðlagi innanlands fyrir lok næsta árs. Ef meiningin væri að gera endanlega breytingu á skipun verðlagsnefndarinnar í þá átt, sem hér er um að ræða, þ.e.a.s. ef meiningin væri sú, að Alþ. kysi framvegis ekki verðlagsnefnd með sama hætti og gert hefur verið undanfarið, heldur skyldu samtök eða aðilar, sem verðlagsmál skipta miklu, eiga fulltrúa í n., væri eðlilegt að athuga það mál vandlegar, vegna þess að fleiri aðilar gætu þá verið taldir með réttu eiga að koma til greina. Þess vegna er þessi breyting ekki gerð til frambúðar, heldur til árs eingöngu. Þeir aðilar, sem hér er fengin aðstaða til þess að hafa áhrif á verðlagsákvarðanirnar fyrir hönd launþega eða neytenda í landinu, eru í fyrsta lagi stærstu launþegasamtök landsins, Alþýðusamband Íslands. Hinir aðilarnir, sem valdir eru, eru annars vegar Vinnuveitendasambandið, sem er höfuðsamningsaðili ASÍ um kaup og kjör, og hins vegar þeir aðilar, sem telja má, að geti skoðazt fulltrúar verzlunarstéttarinnar, þ.e.a.s. Verzlunarráðið og Samband ísl. samvinnufélaga.

Þar eð n., sem kosin var fyrir nokkrum dögum á Alþ., hefur þegar tekið til starfa til þess að fjalla um ákvarðanir, sem nauðsynlegt er að taka vegna gengisbreytingarinnar, tel ég mjög æskilegt, að þetta frv. geti átt sem greiðastan gang gegnum Alþ. Fyrst á annað borð hefur verið tekin ákvörðun um það, að fulltrúar þessara samtaka, sem hér er um að ræða, skuli fara með verðlagsákvörðunarvaldið, þá tel ég nauðsynlegt, að þeir fjalli um öll veigamikil atriði, sem upp kunna að koma í framhaldi af gengisbreytingunni. Fram til þessarar stundar hafa engar stórar ákvarðanir verið teknar í þessum efnum. Um þær ákvarðanir, sem hafa verið teknar fram að þessu, mætti segja, að þær séu frekar tæknilegs eðlis og mér vitanlega hefur ekki orðið neinn teljandi ágreiningur um neina ákvörðun, sem enn hefur verið tekin. En ég mundi segja í síðasta lagi á miðvikudag þarf að taka þýðingarmiklar ákvarðanir, sem ég þá óska mjög eindregið eftir, að sú n., sem hér er gert ráð fyrir, að skipuð verði, fjalli um, ef Alþ. fellst á þessa breyttu skipun n., sem ég vona fastlega, að það geri. Þess vegna eru það mjög eindregin tilmæli mín, herra forseti, að málinu verði hraðað gegnum þessa d. nú í kvöld og það geti orðið samferða hinu frv., sem á dagskrá er, til Ed. að loknum umr, hér í þessari hv. d.

Að svo mæltu leyfi ég mér að leggja til, að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. fjhn.