16.04.1968
Efri deild: 91. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1534 í B-deild Alþingistíðinda. (1401)

185. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. frekar en orðið er. Vil aðeins út af ummælum hv. síðasta ræðumanns minna hér á tvö atriði. Í fyrsta lagi skil ég vel áhyggjur hans, sem alls ekki eru óréttmætar, út af þeirri aðstoð, sem upphaflega var hugsuð við byggingarsamvinnufélögin.

Varðandi endurskoðun á þeim ákvæðum vil ég upplýsa, að það mun hafa verið nokkur skoðanamunur í húsnæðismálastjórn um það, hvort taka bæri gildandi lagaákvæði um byggingarsamvinnufélög til endurskoðunar í þeirri endurskoðun, sem yfir stendur í húsnæðismálastjórn, og til að taka af öll tvímæli í þeim efnum, var í dag skrifað frá félmrn. bréf um, að svo bæri að gera og byggingarsamvinnufélögin væru undir þeim ákvæðum, þó að sérstaklega hefði ekki verið um það samið 1965.

Um aðrar aths. hv. þm., eins og þá, að sum frv. stöðvuðust of lengi, önnur fengju of litla athugun í rn., vil ég aðeins segja það, að að sjálfsögðu eru í þessum athugunum tillagnamenn úr Stjórnarráðinu. Og það veit hv. þm., sem kunnugur er vinnubrögðum þar frá fyrri starfstíma, að slík mál fara ekki athugunarlaust í gegn, þó að ég orðaði það svo, að þeim mönnum, sem athugunin var falin, hefði verið fyllilega treystandi til að ljúka henni og gera hana á viðunandi hátt. Eftir að hún barst mér í hendur, stöðvaðist hún ekki í heilan dag, við það stend ég. Það verður ekki sagt um þessi mál hér, að þau hafi hvorki verið rædd eða athuguð, svo oft hefur hv. þm. og reyndar margir aðrir vakið athygli á þeim sem eðlilegt er. Þau eru mjög spennandi fyrir stóran hluta landsmanna og veltur á miklu um afkomu manna, hvernig til tekst um úrlausnir þeirra á hverjum tíma, og er því eðlilegt, að þau séu rædd bæði oft og vel, enda verða húsnæðismálin aldrei endanlega leyst, það er mér vel ljóst af nánum kynnum af þeim, þau þurfa sífelldrar og stöðugrar endurskoðunar við og sjálfsagt síaukinna tekna við á hverju tímabili. Þessar gömlu fullyrðingar, sem ég vil segja, að geti verið rökstuddar að ýmsu leyti, að Breiðholtsframkvæmdirnar dragi úr almennri útlánagetu byggingarsjóðs bili skal ég ekki þræta fyrir. Það er að vísu ekki endanlega uppgert dæmi, en má nokkuð ljóst vera, að vegna hins gífurlega peningamagns, sem til þeirra framkvæmda þarf, muni um ákveðið tímabil draga nokkuð úr hinum almennu lánum. En ég hef aldrei verið í vafa um það, að endanleg niðurstaða þess verði íbúðareigendum til góðs, og með hliðsjón af reynslu annarra nágrannalanda okkar í þessum efnum kann það að taka einhvern tíma, þann tíma, sem áreiðanlega endurgreiðir sig, þegar nægileg reynsla er fengin í þessum efnum.

Ég vil, til þess að fyrirbyggja misskilning á því, sem ég sagði hér áðan um brtt. mína við brtt. á þskj. 610, taka það fram, að ég tel alveg óþarft, að það fari til n. aftur til frekari athugunar. Þá er ákaflega ljóst, hvað misskilningnum olli. Það vantaði nánari skýringar á því, til hvaða tíma ætti að veita lánin og hve lengi byggingarmeistarinn ætti að hafa þessa peninga með höndum, og ég fellst á að, að á því þurfi nánari skýringu og veit, að það er alls ekki í huga þeirrar n., sem þetta lagði til, að þetta fé yrði í höndum þeirra lengur en sem byggingartímanum næmi. Þess vegna leyfi ég mér, herra forseti, að leggja fram skrifl. brtt. við þá brtt., sem er á þskj. 610, þess efnis, að á eftir orðunum „byggingarmeistara og byggingarfyrirtækja“ komi: meðan á byggingartíma stendur, er síðan skiptist milli væntanlegra íbúðarkaupenda. Og síðan till. áfram óbreytt.