17.04.1968
Neðri deild: 100. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1538 í B-deild Alþingistíðinda. (1410)

185. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Frv. þetta er flutt samkv. nýgerðri yfirlýsingu ríkisstj. vegna þess samkomulags, sem náðist í síðustu vinnudeilu í byrjun marz, og það er meginefni frv. Aðrar breytingar, sem hér fylgja með, eru minni háttar, en þar eru veittar viðbótarheimildir vegna nýrra aðila, sem húsnæðismálastjórn er að ákveðnum skilyrðum uppfylltum heimilt að lána, og skýra þær sig sjálfar.

Meginefni frv. er, eins og ég sagði áðan, tilkomið vegna lausnar vinnudeilunnar og er um það að lækka vísitölugreiðslur af íbúðarlánum húsnæðismálastjórnar um helming frá því, sem verið hefur hingað til.

Ég tel, að frv. þurfi ekki frekari skýringa við. Önnur atriði þess eru tæknilegs eðlis, sem er afleiðing af þeirri meginbreytingu, sem frv. gerir ráð fyrir.

Ég legg til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og félmn.